Wednesday, June 19, 2013

muniði eftir stelpunni sem ætlaði að komast í brjálað gott hlaupaform og náði sér meira að segja í forrit í snjallsímann sinn til þess að takast þetta ætlunarverk sitt. muniði ekki? okei, ég skal hjálpa ykkur.
þetta byrjaði allt saman með þessu hér og endaði nokkrum vikum síðar, mjög snögglega. ég náði aldrei þessum 10 kílómetrum mínum, en mér til varnar dröslaðist ég alveg 6 (en sko, ég skreið alveg síðustu metrana samt). þarna var þolinmæði mín sumsé algjörlega á þrotum. ég fann engan mun á mér, fannst þetta enn ógeðslega leiðinlegt og sá engan tilgang með þessu. síðan þá hef ég barasta ekki hreyft mig!
nú er ég sem sagt aftur á byrjunarreit og er náttúrlega búin að dusta rykið af snjallsímaforritinu. ástæðan fyrir því að ég hef ákveðið að taka upp þráðinn er meðal annars sú að ég þurfti að taka pásu í uppvaskinu um daginn, svo lélegt er formið. ég var orðin svo móð og másandi að skrúbba leirtau að það var ekkert annað í boði en að taka smá time out í sófanum. þegar ég hlammaði mér á rassinn flaug sú hugsun í gegnum minn litla haus að þetta gæti nú ekki undir nokkrum kringumstæðum flokkast sem eðlilegt. blessi okkur bara að vera ekki ofar en á annarri hæð, ég þyrfti að sofa útí garði ef svo bæri undir.

en jæja. nú eru tvær æfingar búnar og lungun á mér örugglega fallin saman eftir það. fyrsta æfingin var meira að segja farin klukkan sjö að morgni, en það var svona hálfparinn af illri nauðsyn. ég þurfti líka að leggja mig seinna um daginn. þann dag lærði ég að hreyfing skal aldrei eiga sér stað fyrir hádegi.


No comments:

Post a Comment