Sunday, April 29, 2012

málin eru farin að læðast í rétta átt (fyrir utan gærdaginn... og pönnsurnar sem ég gerði í kaffinu... og ísinn sem ég er að borða í þessum skrifuðu orðum). en hvað um það! ég fór sem sagt á ávaxtamarkað í krónunni og sankaði að mér alls konar hollustu. 
erla litla bananasuga er líka að passa mig þessa helgi (húsbóndinn fór austur á land) svo það var eins gott að eiga nóg! við erum búnar að hafa það ferlega gott og í dag bættist eitt stykki frænka í stelpupartýið.
þessi hárprúða snoturdós var hjá okkur og sá til þess að flóki hefði eitthvað fyrir stafni. þau eru verulega góðir vinir!

annars var ég að fletta í gegnum myndir frá því í danmörku (prófatíð) og þrái ég ekkert meira en jarðaberjamó með óléttri elsu, strandferðir með möffins og sólbað á svölunum! alla malla.
reglan var: tvö ber í munninn, eitt í dallinn. 
það er kannski ekkert endilega augljóst, en mér leið vel þennan dag og fannst gaman þó svo að svipurinn segi það ekki beint. sólin var voðalega mikil og skær!
dekur.

þrátt fyrir að bloggið hafi byrjað eins leiðinlega og hugsast getur, á hollustutali, þá endaði það með bjórmynd. þannig á það að vera - er það ekki? að minnsta kosti þegar það er apríl! pfff...

Monday, April 23, 2012

dagurinn í dag átti að vera upphafið á „byrjaaðborðahollar“ lífsþemanu mínu (er lífsþema of dramatískt orð?) en ef skautað er yfir matseðil dagsins sést glögglega að mér mistókst. hrapalega. 
það sem ofan í mig hefur farið er til dæmis; kókópöffs (þetta nýja ógeðslega sem ég borða samt), brauð með kartöflusalati (af hverju, spyr kannski einhver. því miður hef ég ekkert svar á reiðum höndum. mér finnst brauð gott og ég er forfallin kartöflusalatsfíkill. það gæti hafa verið kveikjan), brauð með osti x2, snakk (mmm...), kex, súkkulaði (helgu lucie að kenna) og djús (morgunsafi, er það hollt kannski?) þessu var síðan skolað niður með óhóflega miklu magni af kaffi.


en á morgun kemur nýr dagur með blóm í haga og meiri aga. þá kannski get ég borðað hollt fram að hádegi eða eitthvað! getur í alvöru einhver hjálpað mér? eigiði matarplan? getiði útbúið dagnesti fyrir mig? flutt inn og matað mig?



sverða, ég er laundóttir hans!
pabbi?

Thursday, April 19, 2012

gleðilegt sumar kæru vinir.
skapið lagast með hverjum deginum - ekkert að óttast!



það kemur samt líklega til að ná gleðilegu hámarki klukkan hálf fjögur þann 10.maí, þegar ég skála fyrir próflokum.

Wednesday, April 18, 2012

ég er ekki lengur í vorskapi, þó að veðrið sé eins og vítamínbomba.
nú finnst mér sólin aðalallega bara þvælast fyrir, þar sem ég sit inni og geri greinargerð. ég er að grillast og er komin úr nánast öllum fötunum, en samt vil ég ekki færa mig á annan stað í íbúðinni því eins og gefur að skilja vil ég ekki missa af sólinni. svo er ég líka að reyna að líta á björtu hliðar lífsins þessa dagana og hvað er bjartara en sólin?
svolítið haltu mér, slepptu mér samband sem við eigum?



annars mæli ég ekki með því að þið talið við mig ef við mætumst á förnum vegi. 
ég er ógeðslega úrill og fúl þessa dagana. 
en þetta verður í lagi svona sirka í júlí.

Monday, April 16, 2012



ég hef þessa postera með mér í huganum í dag og hugga mig við það að vera með þokkalegt karma. (vonandi!)

Friday, April 13, 2012

það er ótrúlega fátt sem gleður mig jafn mikið og vorið. ég fæ ekki nóg að tala um það og ég kem aldrei til með að hætta því. ég held meira að segja að mér finnist það skemmtilegra en sumarið út af spennunni sem myndast. 
fyrsta lóukvakið fær mig til þess að skríkja af gleði og mér finnst ekkert yndislegra en að sofna við fuglasöng og vakna í birtu. stundum get ég ekki með nokkru móti áttað mig á því hvernig ég hef veturinn af, mér leiðist svo skammdegið. 










sorrý - ég verð alltaf mjög væmin á vorin. alveg ósjálfrátt! (og af þessum myndum að dæma hætti ég líka að klippa mig. það stemmir alveg, svona miðað við hárið á mér í dag).

Wednesday, April 11, 2012

í dag hófst nýtt heimapróf og er það töluvert skárra en þetta sem ég fór í um daginn. ég sit allavega enn róleg, með öll blöðin í möppunni og heitt kaffi. átakið „égætlaaðlosamigviðpáskaspikið“ hófst svo á sama tíma með heimagerðu hrökkbrauði, kotasælu og gúrku.
(já ég fékk mér 4 sneiðar en þær eru líka mjög litlar og maginn á mér er útteigður. og nei kotasælan er ekki græn, þessi mynd er bara tekin í fótóbúþ og eins og þið hafi kannski orðið vör við þá eru þær ekkert sérstakar). 


um 12 var ég samt búin að gleyma öllu hvað þetta átak varðar, þar sem ég fékk mér stútfulla skál af ís í matinn. mér er náttúrlega ekki við bjargandi! hjálpaði mér samt helling í þessu prófi. 1/4 búinn og nægur tími til stefnu.

Sunday, April 8, 2012

páskadagur í máli og myndum.
eggjaleitin mikla hófst um leið og sigurjón rifaði augun. ég var náttúrlega löngu vöknuð og glorsoltin þar sem ég var að spara mig fyrir súkkulaðiátið og fékk mér því engan morgunmat. 
leikar fóru þannig að sigurjón fann sitt egg á undan. það var inni á baði, bak við hárblásara, sléttujárn, tvö upprúlluð handklæði og körfu fulla af þvottapokum. þið getið rétt ímyndað ykkur hversu sigurviss ég var! mitt egg var hins vegar ofan í kaffivélinni og til þess að finna það þurfti ég vandræðalega margar vísbendingar. þær voru meðal annars "það er inni í eldhúsi" og "það er ekki inni í innréttingunni, ofan á ísskápnum eða í hornskápnum" (sem er nánast allt sem er í eldhúsinu). til þess að bæta gráu ofan á svart þá var karamellueggið sem sigurjón fékk svo töluvert betra en mitt. win win staða fyrir hann, en stórt tap fyrir fraukuna.
þarf þó varla að taka það fram að þrátt fyrir allt eru bæði egginn að sjálfsögðu búin.


til að minnka átsamviskubitið og koma í veg fyrir fituælu hjá mér (gallblöðruleysið) tókum við töluvert gott hundalabb í laugardalnum eftir hádegi. flóki er eins og stendur í strangri umhverfisþjálfun (já það er orð! kannski svipað og hunda crossfit) og stóð hann sig eins og hetja! þessi svarti litli loðbolti er farin að rúlla sér eftir skipun og gefur fimmu þegar vel liggur á honum. að sjálfsögðu fékk hann svo að vera í fínum fötum í dag eins og aðrir heimilismeðlimir.
myndir af flóka eru því miður enn eins og illa farnar sónarmyndir. það er ekki gott að segja hvað snýr fram og aftur og enginn vill almennilega viðurkenna það að hann sjái ekkert út úr klessunni. ég get til dæmis ekkert sagt ykkur hvort að flóki er með opin augun á þessari mynd, eða hvort þau eru jafnvel undir hattinum! hver veit? get þó fullvissað ykkur um það að eyrun hanga þarna sitt hvoru megin við hattinn og nefið snýr beint að vélinni. (held ég).


í kvöld elduðum við svo í fyrsta sinn hátíðarmáltíð í húsinu á horninu. það gekk töluvert betur en oft áður þar sem við:
a) rifumst bara einu sinni á meðan á matseld stóð (og það var svo smávægilegt að það telst varla).
b) vorum sammála um hvað ætti að vera í boði og vorum þannig laus við að gera marga aðalrétti, eins og stundum hefur verið. 
fyrir valinu var innbakað lambafille með villisveppafyllingu og meðí. ótrúlega sem þetta var gott!
páskarör, páskaservíettur, malt&appelsín.
já - þetta er fáranlega mikill matur fyrir tvo.
nei - við kláruðum þetta alls ekki.
já - það var ís í eftirrétt en þegar þetta er skrifað höfum við enn ekki lagt í meira át.

Thursday, April 5, 2012

það er djöfullegt að byrja fríin sín á því að verða veikur... sérstaklega þegar það eru 3 verkefni sem bíða þess að vera afgreidd! 
flóki tekur starfi sínu sem hjúkka mjög alvarlega og hefur verulegar áhyggjur af mér. ef hann væri fær um það að ná í vatn og rista handa mér brauð myndi hann pottþétt gera það! í hvert sinn sem ég leggst í sófann (sem er oft, því að ég get ekki haldið mér vakandi og mér er svo illt í hausnum að hann hristist) kemur þessi litli loðbolti hoppandi til mín. svo rekur hann trýnið í kinnarnar á mér og loppurnar á nefið (sver fyrir það) og leggst svo í hálsakotið.
(okeeeiii - kannski er hann bara athyglissjúkur og vill að ég leiki við sig en ég vil meina að þetta sé umhyggja og aðferð hans til að reyna að hjálpa mér í gegnum þess pest!)


sigurjón sá um páskaeggjakaupin þetta árið og ég fékk lakkrísbombu. djöfull hlakka ég til að mölva þetta egg og éta það á kortéri. hugsanlega éta málsháttinn með í djöfulganginum.



þessar fótóbúþ myndir koma aldrei vel út - samt gefst ég ekki upp.

Sunday, April 1, 2012

gærdagurinn byrjaði bara svona mellófínn. var með smá kvíðafiðrildi í maganum, enda heimapróf í vændum. hellti mér upp á kaffi og raðaði glósunum pent við hliðina á tölvunni, í lopasokkum og hlýrri peysu. var tilbúin með eitt lítið word skjal og át serjósið mitt af kappi. dansaði svo aðeins við flóka, sem endaði reyndar þannig að hann varst svo æstur að hann reif sokkabuxurnar mínar - en það er nú önnur ella.
prófið hófst klukkan níu og ég byrjaði strax að skrifa. glimrandi frammistaða og ég var skyndilega búin að skrifa fjórar blaðsíður. þá hófst stressið. klukkan varð svo allt í einu hádegi og ég varð að fara á klósettið, vesen. opin skjöl í tölvunni voru allt í einu orðin tuttugu og ég gat ekki með nokkru móti vitað hvar sjálft prófið var.
sem betur fer gaf sigurjón mér góðan hádegismat, því annars er ég hrædd um að ég hefði ekki haft daginn af.
undir lokin var ég farin að drekka kalt kaffi, því það var enginn tími til að hella upp á nýtt og ég var þyrst. að sjálfsögðu hafði ég ekki heldur tíma til að fara fram og ná mér í eitthvað betra að drekka! glósurnar voru komnar í tætlur og ég orðin hálf ber að ofan af svita og æsingi. pissusprengurinn var orðin óbærilegur og kuldahrollurinn í puttunum gerði það að verkum að allt sem ég skrifaði var í rugli. 
klukkan þrjár mínútur í deadline náði ég að skila inn. síðasta spurningin (sem átti að vera 1-1-1,5 síða) var skrifuð í stikkorðum. eingöngu.


note to self:
það borgar sig að eiga góðan mann og gott borðstofuborð á svona dögum!
þessi mynd lýsir ástandinu ágætlega. 
hlýja peysan komin upp á borð og sömuleiðis bolurinn minn. fínu yfirstrikuðu glósurnar voru svo tættar út um allt að það var ekki vinnandi verk að finna eitthvað í þeim. kaldir kaffibrúsar, bananahýði með tyggjói í og eitt opið skjal í tölvunni, sem kom þessu prófi alls ekkert við.

góður laugardagur!