Sunday, December 29, 2013

GLEÐILEGA HÁTÍÐ! 
óh, þetta jólafrí. 
þetta elskulega jólafrí. loksins mætti það í líf mitt (og líður reyndar allt of hratt fyrir minn smekk, en það er efni í annað dramakast). 

síðustu dagar hafa verið dásemd. ég gerði næstum því allt sem ég nefndi hér að neðan. keypti þær gjafir sem ég hafði ætlað mér, horfði á jólamyndina, lærði eitthvað af textunum fyrir jólatónleikana (eehh...), fékk mér jólakaffi og hef slakað fáranlega mikið á. það er mikilvægast! tærnar eru að mestu búnar að beinast upp í loft undanfarna daga. 
það sem ég aftur á móti trassaði í ár voru jólakortin. þið sem vanalega fáið frá mér kort verðið bara að láta gömlu kveðjurnar duga. þetta bara fór einhvern veginn alveg forgörðum í ár, eins ömurlegt og það nú er. kortin keypti ég (eða ég sendi sjonna út í búð), en þau eru enn óupptekin og tóm inni í skáp. afsakið hlé þar til á næsta ári bara. mér finnst það voðalega leiðinlegt, því jólakortin elska ég svo sannarlega. það er svo gaman að senda þau, og sérstaklega skemmtilegt að fá þau. það hefur alla tíð verið frekar mikil athöfn í minni fjölskyldu að opna og lesa öll kortin og ég vil halda í það eins lengi og mögulegt er. þess vegna þarf ég að taka mig á og senda sjálf. (halló áramótaheit).

því miður voru óvenju fáar myndir teknar í ár, eiginlega engar. það þarf líka að laga hið snarasta.
hér eru þó nokkrar.


við eyddum aðfangadagskvöldi (og jólakvöldi reyndar) með tengdafjölskyldunni minni, heima hjá birnu mágkonu. hér var því legið í leti þar til klukkan sló jól. ekkert stress, bara froðubað. 


sigurjón frændi að klifra upp vinsældarlistann hjá þessari litlu dömu. hann var með ís. hún sá það. hún mætti... og fékk ís.
niðurstaða: uppáhaldsfrændi forever, skjalfest. 

eina jólamyndin sem tekin var af okkur, kortér í háttatíma á aðfaranótt jóladags. eins og sjá má er ég alveg að lognast út af og sigurjón er að máta jólagjöfina sína með miðann upp úr hálsmálinu. þessi fer kannski bara í jólakortið sem ég sendi út á næsta ári. hugmynd...

tókum yndislegan göngutúr í rjómablíðu annan í jólum. mig langaði voða lítið inn.

þegar ég svo fer inn, þá er þetta stemningin. ég var búin með allt góða konfektið mitt á þessum tímapunkti, sem og laufabrauðið. en ég læt það nú ekki stoppa mig og borða bara það sem ég finn hvað og hverju með kaffinu mínu. 

að lokum er jólafrí nú ekki almennilegt jólafrí nema maður kaupi sér íbúð. eða, já. 
ég kannski sendi út kort á næsta ári, en ég get ekki lofað því að ég hafi efni á jólagjöfunum líka. íbúðarkaup eru ekki gefins krakkar. bara alls ekki.

aaahhh.
og enn er uppáhaldsparturinn af fríinu eftir. því eins mikið og ég hef lært að vingast við jólin (lengi vel áttum við ekki vel saman. það horfir þó allt til betri vegar) þá komast þau ekki í hálfkvisti við aðdáun mína á áramótunum. sprengjurnar, lyktin, allir listarnir og annálarnir. mér finnst fátt skemmtilegra en að gera upp árið sem er að líða, horfa á gamlar fréttir og velja besta þetta og versta hitt. 
ég þarf að gera mitt ár upp. ójá. stay tuned! kveðja, þessi áramótaspennta. 

Monday, December 16, 2013

nú sit ég með tárin í augunum, galtómt mjólkurglas og ofboðslega mikið af dísætum súkkulaðibitakökum í maganum og les jólafrís-statusa á facebook. allir í heiminum komnir í jólafrí, að því er virðist. fyrir utan vinnandi fólk reyndar... og mig (já og vissulega restina af bekknum. og þá nema sem eru kannski að fara í síðasta prófið sitt á morgun. og örugglega grunnskólabörn... æj vá, má maður fá að vera dramatískur í friði og vera kannski ekki með allar staðreyndir 100% réttar). 

allavega. allir farnir í frí nema ég! aumingja ég.

mig langar að vera í jólafríi. ég á eftir að kaupa gjafir og skrifa á kort. ég á eftir að baka (aftur - búin með skammt númer 1) og ég á eftir að henda mér upp í sófa og slaka fokkíng á! ég á eftir að horfa á jólamyndina, þessa sem við höfum horft á frá því að ég var ótalandi og slefandi. eða svona næstum því. ég var kannski fimm eða eitthvað þegar þetta varð að jólamynd fjölskyldunnar. ég á líka eftir að hella upp á jólakaffi og læra alla textana fyrir tónleikana sem eru á morgun. einmitt, á morgun!

spurning um að forgansraða. 
a) læra textana fyrir morgundaginn
b) gera verkefni sem ég á að skila á miðvikudaginn
c) lesa yfir verkefni sem á að skila á föstudaginn
d) gera myndband, sem á líka að skila á föstudaginn
e) fara í jólafrí og gera allt sem ég taldi upp hér að ofan.

okei, enginn tími til að skrifa!



Monday, December 2, 2013

nei sko, nú þarf eitthvað að gerast áður en blogspot hreinlega hendir þessari síðu.
plís ekki vera búin að gleyma mér krakkar. eða hætta að trúa á mig, eins og jólasveininn. ég er alveg hérna ennþá, hef bara forgangsraðað illa!

starfsþjálfuninni er sem sagt lokið og hið hefðbundna skólalíf (dæs) tekið við. 
ástæða fjarveru minnar hér er sú að það hefur verið töluvert mikið um að vera hjá fraukunni, bæði í skólanum sem og öðru. nóvemberlota skólans var svolítið strembin, mikill lestur og margt sem þurfti að leggja á minnið. því hafa internet skrif fengið að lúta lægra haldi. þar að auki hef ég varla gert annað en að vera á kóræfingum. fyrir um hálfum mánuði héldum við kötlur vetrartónleika sem fóru fram í fríkirkjunni í reykjavík. undanfari þeirra voru endalausar æfingar, alltaf og alla daga. tónleikarnir gengu svo glimrandi og það voru glaðar kötlur sem fögnuðu á bast fyrir rúmri viku síðan. en við sláum ekki slöku við alveg strax því að næst á dagkrá eru jólatónleikar! 17. desember troðum við upp ásamt karlakór kaffibarsins og syngjum ykkur inn í jólin. um er að ræða styrktartónleika og ég hvet ykkur þess vegna til þess að mæta. kanniði málið hér!




sé ykkur þar!



Sunday, October 20, 2013

skólalaust líf er algjörlega vanmetið fyrirbæri. 
kostirnir sem fylgja því að vera í námi eru vissulega margir, en þegar leiðinn gerir vart við sig þá hverfa þeir eins og dögg fyrir sólu. slíkur leiði á það svo sannarlega til að mæta á svæðið, sérstaklega þegar kona hefur lokið grunnskóla, menntaskóla, tekið 5 ár í bachelor nám og veður svo beint í master. það eru rosalega mörg skólaár og nokkur ansi þung (sérstaklega þau sem voru á dönsku). 
nú, þegar ég stend í miðri starfsþjálfun, þá svífa ekki yfir mér alls konar verkefni og endalaust lesefni. ég læri með því að horfa, gera og prófa og þegar vinnudegi líkur þá hef ég tíma og næði til þess að melta það sem dagurinn gaf mér. svo fæ ég líka bestu gjöf í heimi - helgarfrí. ég sit ekki og les á meðan mér finnst allir í heiminum vera að gera eitthvað fáranlega skemmtilegt. 

aaahh... bara tvær og hálf önn eftir og þá verð ég stanslaust í helgarfríi!

þessi dagur var vel nýttur. upp úr hádegi fórum við sjonni í bíltúr sem innihélt stopp í þorlákshöfn, á eyrarbakka og stokkseyri, sundsvaml í hveragerði og dásamlegt kaffihúsarmal með móðurbróður og spúsu, auk ömmu og afa.  
engar áhyggjur, hakúnamatata. 







en fyrst ég er byrjuð. einhver sem gæti hugsað sér að skrifa mastersritgerðina mína?

Wednesday, October 9, 2013

sigurjóni til mikillar (!) mæðu hef ég sérstaklega gaman af því að raula, gaula og syngja... bæði frumsamið efni, misgott vissulega - ég tek það alveg á mig, en líka bara með öllu sem ég heyri. öllu! og þá skiptir engu hvort ég kann textann eða ekki, ég bara syng með... og það hátt. 
mæðu mannsins er hægt að rekja beint til hæfileika minna, því þó svo að ég sé sígalandi þá þýðir það ekki að ég geri það vel. ég held alveg lagi, en þar getum við líka sett punktinn. engar dúllur eða flottheit. það má því segja að við höfum bæði unnið í gleðilottóinu þegar ég rambaði inn á æfingu hjá besta kvennakór í heimi (takk helga!). það er sérstök lukka fólgin í því að á þeim tíma voru inntökupróf ekki hluti af prógramminu, ef þið skiljið hvað ég er að faaara (plís ekki reka mig!). þarna fæ ég, einu sinni í viku og stundum meira að segja oftar, að losa um alla söngþörf og sigurjón er að sama skapi frelsinu feginn. laus við varginn og eyrun fá frið. (hann er djóklaust með heyrnaskaða, blessaður anginn, en hvort það tengist mér á einhvern hátt skal ósagt látið). 

síðustu helgina í september héldum við stöllur í æfingabúðir. sungum í hundrað tíma eftir að hafa hitað upp með jógaæfingum, héldum kvöldvöku og partý, dúlluðumst í haustsólinni og gistum eina nótt. það er ekki hægt að hugsa sér betri félagsskap! 




jógaupphitun í sólinni.
lögðum undir okkur hlíðadalsskóla og fengum hunda í kaupbæti. 
besti.partýleikur.ever! segi ekki meir.

ég er kannski hlutdræg, veit það ekki, en ég mæli eindregið með því að þið líkið við okkur á facebook og fylgist með tónleikahaldi. 

Tuesday, October 1, 2013

status: ég er búin að hjóla oftar í skólann þessa önn en ég gerði allt BA námið mitt. ástæðan er með öllu óljós en lungu og læri mótmæla stöðugt. hjólatúrinn tekur á og því mæti ég oftast móð og másandi með sveitt enni og efri vör, blessi fólkið í bekknum mínum. við erum hátt í 40 í skólastofu sem er álíka stór og meðal bítibúr, þannig að við sitjum öxl við öxl og nefbroddurinn rekst í hnakkann á næsta manni. nú hefur þó verið gert örlítið hlé á þessu ástandi því næstu fimm vikurnar verð í starfsnámi á landspítalanum. fæ hvítan slopp og kort og allt! 

annars er það helst að frétta að hundurinn er enn heimskur og ég hef ekki enn náð að klára prjónaverkefnið mitt. er þó búin að gera báðar ermarnar og sauma þær saman en þær bara passa ekki í ermagötin á búknum. hvernig í helvítinu gerist það!? þetta verður bara að vera vesti, ég er að segja ykkur það!
svo er meistaramánuðurinn byrjaður og ég sýni honum alveg jafn mikið skilningsleysi og í fyrra. jafnvel meira, því að nú er fólk að setja enn meira um markmiðin sín á facebook, myndir af skráningu og alls konar leiðinlegu stöffi. þetta er alveg gott og blessað en þarf í alvöru að tala svona mikið um það að fólk ætli í 30 daga að vera aðeins aktívara og duglegra við að drekka vatn í staðin fyrir bjór? þetta eru 30 dagar krakkar!

æj okei. ég er fúl á móti, sorrý.
það má... einu sinni í mánuði. sérstaklega í meistaramánuði. 

aaa... allt í einu tengdi ég þetta! það er markmiðið mitt, að vera meistaralega fúl í tæpa viku í október. hehö.

Sunday, September 15, 2013

það eru náttúrlega allir komnir með leið á þessu útilegubloggi frá því fyrir löngu. líka þeir sem hafa ekki lesið það! 

jæja. ekki nóg með það að ég sé komin heim úr útilegunni heldur er haustið sem ég talaði um hér síðast eiginlega bara búið og veturinn kominn á fullt, það er frostlykt í loftinu á morgnana og kuldinn er farin að narta í kinnar. í skólanum hef ég lokið við fimm hefðbundna kennsludaga og er strax komin svo langt á eftir í lesefninu að ég hef íhugað það alvarlega að segja bara upp störfum. eða þið vitið, hætta í skólanum. mér fallast hreinlega hendur! í mastersnámi er ekkert sem heitir mjúkleg byrjun - fólk er bara hent út í sjóinn. (ég er ekki dramatísk).

en það sem er þó öllu merkilegra en haugur af ólesnum fróðleik eru nýjustu kaup mín og skuldbinding. þegar maður verður vitni af óléttri vinkonu sinni fara í spinning oft í viku, alveg þar til hún ákveður að eiga barnið (án alls djóks) (lína, sæl) þá getur maður ekkert annað gert en að fá bilað samviskubit yfir rassafarinu í sófanum og hauglötum hjartsláttnum. í einhverju kastinu rauk ég því út í world class og keypti mér áskrift. sú áskrift gildir einmitt í jafn langan tíma og heil meðganga varir. ég kenni línu líka um það. gat ég ekki bara keypt mér mánaðarkort, nú eða hreinlega vikupassa svona til að byrja með. þurfti ég í alvöru að kaupa mér kort sem gildir í níu mánuði!?

ég kem til með að láta ykkur vita þegar ég þarf að selja þetta kort mitt aftur. það fer ódýrt!

Saturday, August 24, 2013

haustið er komið, það er heldur betur komið. ég sá ekki nefbroddinn á mér þegar ég hjólaði heim úr vinnunni í gærkvöldi, svo dimmt er orðið! ég er þar að auki búin að draga fram gammósíurnar og angórusokkana. 
við sjonni ákváðum að reyna að ná í skottið á sumrinu og fara í vikulanga útilegu þar sem að við áttum frí á sama tíma, aldrei þessu vant. draumaferð, fyrir utan það að aðeins einni nótt var eitt í tjaldi, restin var innandyra. við náðum sumsé ekki á mikið af góðu veðri. 
fyrstu nóttinni (þessari sem fór fram í tjaldi) eyddum við í þakgili. ég get ekki annað en mælt með þeim stað. yndislegt umhverfi og fallegt, núll internet og afar stopult símasamband. bless alheimur, hæ náttúra.

nú verður sagt frá í (allt of mörgum) myndum.
í þakgili eru dregnar fram gamlar græjur því posinn virkar að sjálfsögðu ekki hót þegar símasamband er í algjöru lágmarki. eða er það kannski netið sem þarf að vera... jæja, eitthvað er það. 

eins og sjá má var fremur þungbúið þegar við mættum á staðinn, en dásamlegt engu að síður. 
 fengum lánað tjaldið mömmu og pabba, það reyndist stærra en bílinn okkar. 
 lion king atriði. sjonni er með flóka í lúkunum, en hann sést tæplega. samt fyndið!
 alltaf grill í útilegum. alltaf!
allir dúðaðir, hundur þar meðtalinn.
daginn eftir pökkuðum við saman og héldum ferð okkar áfram. ákveðið var að finna gott veður og fallegt tjaldsvæði þar sem væri hægt að eyða næstu nótt. til þess að gera langa sögu stutta þá keyrðum við í regni og roki þar til við vorum allt í einu komin í egilsstaði. þar nýttum við náttúrlega húsaskjól og gistum hjá tengdó... með því að brjótast inn því þau voru ekkert heima. þaðan var svo farið út í jökulsárhlíð, á æskuslóðir spúsans þar sem búið er að gera upp "ættaróðalið" svo úr varð hið fínasta sumarhús. 
 stoppuðum hjá fjallsárlóni með útlendingunum. 
 þessi stökk á milli ísmola og var sérdeilis rogginn. 
 góða veðrið fundið í jökulsárhlíð, en ekki hvað. 
flóki á hlaðborði...
... og í berjamó, þar sem hann stóð sig vægast sagt ömurlega.
eftir góða dvöl á austurlandinu var ferðinni heitið á akureyri þar mikil samkoma móðurfjölskyldu minnar átti að eiga sér stað, en búið var að leigja tjarnargerði í eyjafjarðarsveit undir hrúguna. 
mamma og sjonni mættu með fangið fullt af hreindýrabollum leiðrétting; hakkið var víst rjúpukjöt... alveg rétt! takk kjabbi! ;)
tjarnargerði reyndist vera eins og sænskur draumur!

ay ay captain.

þessi fóru að leita að fjársjóði jóns króks! hann fannst, pakki fullur af snakki og sykurpúðum. 

ekkert betra en morgunspjall með þessari

afi var kubbmeistari. 


díses, mikið af myndum. 
sorrý. en svona var sumsé fríið!

Thursday, August 8, 2013

á dögunum fórum við sjonni, ásamt hundi, aðeins út fyrir borgarmörkin og nutum lífsins í gapandi góðu veðri. stundum get ég bara ekki mannmergðina, kaffihúsin, búðarferðirnar og allt stöffið sem er í gangi hér í reykjavík og þá er gott að fara aðeins í burtu. ég verð meiri einfari með hverri vikunni sem líður, sver það.
en kleifarvatn stóð fyrir sínu. ég læt myndirnar tala sínu máli. 
halló fallega land!

hundi tók spretti í vatninu. djöfulli djarfur.
þornaði í sólinni.




 meitlað í stein.
já, við fórum í sömu ferðina. já, við vissum bæði hvert ferðinni var heitið. já, mínir skór voru töluvert betra val!

Friday, July 12, 2013

hér er lítið að gerast! 
það er smá út af því að ég er að vinna flesta daga á milli þess sem ég brasa eitthvað misgáfulegt. þar að auki er ég enn að ná mér eftir trauma helgarinnar, en ég átti afmæli á sunnudaginn og veðrið var ömurlegt svo ekki sé meira sagt. það er nú kannski ekkert stóráfall ef ekki væri fyrir það að ég man ekki hvenær ég upplifði síðasta afmælisdaginn minn í ömurlegu veðri. í fullri alvöru, það er alltaf gott veður 7. júlí. 
í ljósi þessa var dagurinn erfiður, á bæði líkama og sál. 

en aðalástæða fjarverunnar hlýtur þó að nýja hlutverkið mitt sem fórnarlamb í stóra lín málinu, sem er frekar tímafrekt og erfitt starf ykkur að segja. til að þið áttið ykkur betur á um hvað ræðir skal ég fara yfir þetta skref fyrir skref.

varúð - þetta er ekki skemmtileg lesning og þaðan af síður stutt. 
ýtið á back takkann ef þið viljið vera í smá góðu skapi það sem eftir lifir dags eða ef þið eruð í tímaþröng. 

þann 24. apríl gekk ég út úr síðasta prófinu mínu, feikilega glöð. í maí byrjun fékk ég svo bréf þar sem ég er beðin um að skila greiðslumiða inn til ríkisskattstjóra, en með honum sýni ég fram á reglulegar leigugreiðslur. þeim upplýsingum er síðan komið áfram til lín (lánasjóðinn, ekki rúmfatabatteríið). 
sem sagt, enginn miði = ekkert námslán.
(hér vil ég koma með smá innskot. í fyrsta lagi hef ég fengið námslán átta sinnum og aldrei hef ég verið beðin um þennan miða áður. ég veit svo sem ekki hvernig stendur á því eða af hverju hann þótti svona nauðsynlegur allt í einu núna... kannski eru þetta bara random úrtök. ég vil einnig vekja athygli á því að í síðustu tvö skipti sem ég hef fengið lán hef ég búið hér á sama stað og borgað sömu leiguupphæð mánaðarlega. ég sé því ekki alveg í hendi mér af hverju greiðslumiðinn varð skyndislega svona krúsjal atriði, en þá það).
svona sirka 13. maí fer ég svo til ríkisskattstjóra með miðann góða (tafðist smá af því að ég var stödd á akureyri og varð að skila þessu í reykjavík). þar spyr ég hvort að það sé nóg að skila honum bara þangað og ekkert þurfi að fara til lín. þeir segjast stimpla þetta og senda áfram og ég þurfi því ekkert að hafa frekari áhyggjur, lánið ætti að koma inn á næstu dögum. á þessum tímapunkti var ég búin að tala við þær hjá lánasjóði (ég hef í alvöru aldrei talað við karlmann þar, vinna bara konur hjá lín? ég geri allavega ráð fyrir því) þar sem ég þurfti smá aðstoð við að finna umræddan greiðslumiða. í leiðinni spurði ég hvort það væri rétt skilið hjá mér að miðinn ætti bara að fara til ríkisskattstjóra. svarið var að þau hjá lín vildu alls ekki taka við miðanum, eitthvað varðandi formsatriði og fleira, og því ætti hann bara að fara á skrifstofu ríkisskattstjóra og þaðan bærist hann til þeirra.

hananú, ég var sem sagt búin að fylla út títtnefndan miða, skila honum og spyrja á báðum stöðum hvort ég væri að gera rétt og fékk grænt ljós á alla kanta.

svo beið ég. og beið... og beið. og fór svo á skrifstofu lín af því að ekkert var að gerast.
daman sem ég talaði við þann daginn sagðist ekki sjá nein merki þess að ég hafi skilað inn greiðslumiða. ég var eins og spurningamerki í framan, enda búin að skila inn djöfulsins miðanum fyrir mörgum dögum. hún sagði mér að fara til rsk (ég nenni ekki að skrifa oftar ríkisskattstjóra og nota því hér eftir þessa styttingu) sem ég og gerði. sú sem þar stóð vaktina sagðist lítið geta gert fyrir mig, hún gæti ekki séð þetta í tölvunni af því að þetta væri bara á prenti (ha, er ekki 2013? spurning um að fylgja tækninni krakkar mínir kærir og skanna inn skjöl?). hún bætti samt við að deginum áður hefði farið sending til lín og því væri miðinn minn farinn og ætti bara eftir að dúkka upp á borð þar.

svo ég beið meira. og gafst aftur upp og fór aftur til lín. miðinn var enn ófundinn, en það átti að vinna úr sendingu á næstu dögum. minn miði var örugglega þar á meðal. 

svo ég beið og fékk ítrekun vegna greiðslumiðans í tölvupósti. það var 12. júní! ég sendi þeim fremur harðort en kurteist bréf til baka, ég var ekkert dónaleg eða blótandi, bara snubbót. svarið sem ég fékk var "sjóðurinn á að fá upplýsingar frá skattinum í lok júní mánaðar þá hlýtur staðfesting um leigugreiðslur að berast fyrir þig."

svo kom lok júní og ekkert gerðist. ég hringdi þá í rsk sem staðfesti skil mín á greiðslumiðanum. (veit ekki hvað gerðist í millitíðinni, en strákurinn í þjónustuverinu gat séð það í tölvu þó svo að miðinn væri á prenti. kannski skannaði stelpan þetta inn eftir að ég benti henni á hversu sniðugt það gæti verið). þessi ljúfi strákur sendi að sama skapi tölvupóst á lín þar sem hann staðfesti miðaskilin og sagði mér að ýta eftir þessu, þau væru löngu búin að senda miðann frá sér og stíflan væri því þeirra. ef allt færi í rugl gæti ég komið og fengið afrit... (takk stelpa sem hefði getað gefið mér það í hinni ferðinni). 
ég hringdi strax til lín og hið klassíska "við getum ekki séð að þú sért búin að skila miðanum" var svarið sem ég fékk. í framhaldið kom svo það allra undarlegasta sem ég hef heyrt. ég tjáði  henni það að rsk hefði sent staðfestingu fyrir mig með tölvupósti sem hún gæti flett  upp. email tekur jú bara 5 sekúndur að fara á milli staða, ekki 5 mánuði eins og blaðsneplarnir virðast gera! hún sagði að það gæti tekið svolítinn tíma að vinna úr því þar sem að það þyrfti að skanna inn öll email og senda rétta deild. uuu... afsakaðu mig, skanna inn email!? er það ekki bara mesta bull á jörðinni? email er nú þegar í tölvunni... skannar maður ekki bara inn útprentað stöff, eins og ég kenndi þeim hjá rsk að gera? (já, ég kenndi þeim það).
þarna var mér allavega nóg boðið og við flóki löbbuðum á skrifstofu rsk, fengum afrit af miðanum mínum sem ég labbaði svo með á skrifstofu lín. þar horfði ég á konu stimpla hann, fara með í eitthvað hólf (greiðslumiðahólfið örugglega) og segja "þetta verður komið á morgun, ég skal sjá til þess".

til  hamingju ef þú ert enn að lesa. ég nenni ekki einu sinni að lesa þetta yfir til að laga stafsetningu!

þetta var í síðustu viku. 
í gær fór ég enn eina ferðina á skrifstofu lín (hjúkk að ég bý rétt hjá).
fyrst átti ég lítið samtal við konuna í afgreiðslunni og hún sagði "þú ert ekki búin að skila inn greiðslumiða" og þegar hún sá neistana sem flugu úr augunum á mér þá kallaði hún til ráðgjafa. ráðgjafinn fór með mig inn í viðtalsherbergi, tók niður kennitöluna mína og sagði "þú ert ekki búin að skila inn greiðslumiða" en hún bætti líka við "og svo ertu skráð í foreldrahús". 
þá upphófst miklar kappræður þar sem ég benti henni á tvöföld miðaskil mín og trilljón ferðir, sagði henni að foreldrar mínir ættu heima á akureyri og ég hefði flutt frá þeim fyrir sirka sjö árum og fullvissaði hana um að þau væru ekki flutt inn til mín í húsið á horninu, þó ég myndi glöð vilja hafa þau hjá mér. fast forward þá fannst afritið af greiðslumiðanum mínum (held hún hafi ekki kíkt í greiðslumiðahólfið þegar hún byrjaði að leita) og ástæðan fyrir því að ég var skyndilega skráð í foreldrahús var sú að sama dag og ég kom með afritið af miðanum til lín voru allir þeir sem ekki höfðu skilað inn gögnum sjálfkrafa skráðir til mömmu og pabba. kviss, bamm og nú. það gerðist bara áður en þær náðu að haka í "hún er búin að skila greiðslumiðanum". allt saman frekar óheppilegt eins og ráðgjafinn orðaði það.

í dag fékk ég námslánin mín, aðeins 78 dögum eftir að síðasta prófi lauk.
sem betur fer var ég ekki með framfærslulán hjá bankanum, vextirnir væru orðnir töluverðir.
sem betur fer þarf ég ekki að framfleyta barni eða börnum.
sem betur fer er ég með vinnu og maðurinn minn líka.
hvað samt ef ég hefði verið einstæð móðir með þrjú börn og enga vinnu? ég væri dauð fyrir löngu síðan... úr hungri og bræði!

eitthvað þarf að laga, því að þetta kerfi virkar bersýnilega ekki. að einn miði geti týnst svona er mér óskiljanlegt. sérstaklega þar sem lín og rsk eru nágrannar og það væri örugglega hægt að búa til skutlu úr miðunum og kasta þeim þannig á milli. 
miðinn sem fannst í mínu tilfellið var afritið sem ég kom með sjálf, ekki upphaflegi greiðslumiðinn sem ég skilaði sómasamlega og brosandi á skrifstofu rsk fyrir hundrað árum. sá miði er enn ófundinn!

það þarf líka að laga þjónustuna hjá þessum stofnunum því það var bara ljúfi strákurinn í þjónustuverinu sem hjálpaði mér að einhverju ráði og aðeins einn starfsmaður hjá lín baðst afsökunar á mistökunum. eftir að hún gerði það sagði kollegi hennar mér að þetta gerðist á hverju ári, einhverjir greiðslumiðar týndust alltaf... í alvöru? getur einhver lagað tölvukerfið þeirra!

Tuesday, June 25, 2013

heyrðu okei. ég er enn að hreyfa mig, svo því sé nú alveg haldið til haga, en það er samt ekki það mikið að ég hafi tekið þátt í miðnæturhlaupinu. 

nú... þar fyrir utan er svo allt rjúkandi fínt! á laugardaginn útskrifaðist ég með BA gráðu í félagsráðgjöf og í haust tekur svo master-inn við. það er svona beggebland, nenn'ekki og hlakka til titringur í mér hvað þetta endalausa skólastand varðar. fínt að klára þetta og gaman að geta loksins titlað sig eitthvað merkilegt en það er ekki ein agnarsmá fruma í mér sem nennir að standa í mastersritgerð og öllu því sem henni fylgir. jésús minn á jörðu sem og himni, nei takk.

en bökkum aðeins, aftur að þessu fjöri þarna á laugardaginn. ég þarf nú að segja aðeins frá því. gamanið hófst fyrir alvöru seinnipart dagsins, eftir að útskriftarathöfninni var lokið. þessi seremónía leið eins og sjö heilir dagar hún var svo leiðinleg.

en þegar heim var komið (loksins) beið mín faðir, kærasti og krúttlegasta frænka í  heimi með fangið fullt af rjóma, kökum, pönnsum og gjöfum. ég var næstum því farin að skæla mér fannst þetta svo skelfilega fallegt og sætt af þeim, að vera með óvæntan kaffitíma. 

þegar þeirri átveislu lauk svo var haldið af stað í smá ferð sem hafði þann eina tilgang að borða. ekki það að við hefðum verið svöng, nei nei. foreldrar hrúguðu nú þrátt fyrir það dætrum og tengdarsyni út í bíl og óku af stað að laugarvatni. þar var búið að taka frá borð á yndislegum veitingastað sem heitir lindin. seinni átveislan var vel ferðarinnar virði, einstaklega góður matur og skemmtileg þjónusta sem þarna er að finna. eigandinn bauð okkur meira að segja í bíltúr á eldgamla en nýuppgerða land-rovernum sínum. (ég var því miður sérstaklega upptekin við að halda mér í allt sem ég sá þannig að myndir úr þeirri hasaferð eru engar. litla systirin náði aftur á móti nokkrum þrælgóðum af þeirri eldri. ég er alltaf svo elegant og sæt í framan... þó ekki sé meira sagt. smá bílveltur skemma ekki sjarmann).
mæðgur
glöð í bragði, enda athöfnin að baki og bjórinn kominn í krús
bakarinn hann faðir minn rjómaskreytti að sjálfsögðu kökuna sem helga kom með
dúllulætin, mínus allt dúllulega fólkið. ég tók alveg þannig mynd en hún fór eitthvað forgörðum.
hér höfum við nú upphaf alls, foreldrana sem kynntust einmitt í menntaskólanum við laugarvatn. úlalla!
pabbi fékk skot í villibráðaveislunni sinni. í staðinn fékk hann skot, af brennivíni. þetta kallar maður alvöru díl!
dolltið hallærislega roggin og stíf, en samt kjút.