Saturday, March 28, 2015

Gleymið öllu um stund og lesið áfram í algjöru næði.
Þið getið dregið andann léttar. 
Í dag eru tímamót (ekki bara #freethenipple).

Þið munið kannski eftir þessum skrifum hér*
Hvað haldiði? Nú, rúmum 6 árum eftir að þessi afdrifaríka prjónaákvörðum var tekin, er verkinu formlega lokið. Peysan er tilbúin til notkunar, þvegin og allt. 
Ég get samt ekki tekið allan heiðurinn. Það voru alveg nokkur símtöl sem ég átti bæði við mömmu og ömmu sem reyndu hvað þær gátu að hjálpa mér við að skilja uppskriftina. Það tókst þó sjaldnast, enda eru svona prjónatextar stútfullir af einhverjum orðum sem ekki eru til í íslenskri tungu. Alveg 100% í alvöru.
Ég kastaði peysunni líka í fangið á mömmu í hvert einasta sinn sem hún kom í heimsókn til okkar og bað hana um að bjarga því sem hægt var að bjarga. Sem hún gerði þegjandi og hljóðalaust (fyrir utan öll þau skipti sem hún sagði mér að hætta að prjóna þessa fáranlegu flík).
Peysan er afar ófullkomin í sniðinu, en hún hylur þá líkamsparta sem hún á að ná yfir (svona nokkurn veginn). Það eiga líka að vera 3 tölur (og það eru 3 hnappagöt) en ég átti bara 2, þar sem að 1 er löngu týnd. Ég keypti nefnilega 3 handgerðar trétölur á miðaldarmarkaði í Horsens árið 2009, þegar ég hélt að ég myndi ná að klára peysuna á barnið sem upphaflega átti að eignast hana. Eins og gefur að skilja þá er erfitt að halda utan um 3 agnarsmáar tölur í gegnum 4 flutninga, þar af eina milli landa.  

En hér má sjá dásemdina, in action.

Saga Björk klæðist hér peysunni frægu, auk þess að skarta kjól og sokkabuxum sem eru í einkaeign. 

Hér má sjá 3 hnappagöt (heitir þetta hnappagöt?) og 2 tölur. Og barn á iði.

Æ. Allt getur gerst krakkar mínir. Allt getur gerst.
Boðskapur dagsins er því; Ekki gefast upp! (og fáiði hjálp (og það mikið af henni) ef þörf er á).
ATH!
*Ég vil vekja athygli á lokaorðum mínum í gömlu færslunni. 
Í dag á konan orðið 4 börn og viti menn, nýjasta eintakið er einmitt stúlka. Það sem hún er hlýðin hún Hróðný mín. Spurning um að senda peysuna bara til ykkar?
(Svo vil ég einnig undirstrika að strákar geta að sjálfsögðu gengið í bleikum og fjólubláum peysum, þetta var meira í gríni skrifað en alvöru). 

Monday, March 23, 2015

Ég ætti nú að geta gefið mér einhvern smá tíma til þess að skrifa hérna inn í ljósi þess að ég er búin með skólann. Sko alveg 100% búin með öll námskeið, allar lotur, alla starfsþjálfun og öll verkefni... Allt. (Ok, það er eftir einn kennsluhnykkur en ég tel hann ekki með). 
Það eina sem er eftir er formleg útskrift sem verður í júní (takið 20. þess mánaðar frá. Og kannski 11. líka, þá á Saga nefnilega afmæli. Og hugsanlega 9. ef að Sigurjón vill halda upp á sinn fæðingardag. Æ, það er líklega best fyrir ykkur að taka bara sumarfríið í júní. Að minnsta kosti þið sem viljið fagna lífinu með okkur á Sogaveginum og gera það með stæl).

Allavega. Sælan sem hefur átt sér stað undanfarnar vikur hjá undirritaðri er engri lík. Morgunkaffi með dótturinni, heimilisverkin, útvarpið ómandi undir öllum athöfnum, göngutúrar með hundi og barni (þegar veður leyfir, sem er aldrei), eltingaleikir, kúkableiur og marblettir á litlum haus. Svona sirka ganga dagarnir, sem að mér hafa hingað til þótt dásamlegir út í gegn. Allt þar til að ég asnaðist til að ná mér í smáforrit í snjallsímann. Um er að ræða app sem heitir room for thought. Vinkona mín sagði mér frá þessu og lýsingarnar hennar voru svo skemmtilegar að ég skildi ekkert í því af hverju ég hafði ekki sótt forritið fyrr. Allt gengur þetta út á það að síminn lætur þig vita einu sinni á dag að nú skulir þú taka mynd og þá færðu aðeins nokkrar sekúndur til þess að smella af. Það er ekki hægt að henda óheppilegum myndum og taka aðrar betri. Það er ekki hægt að stilla neinu upp, eða taka til í kringum myndefnið. Það er ekki heldur hægt að taka mynd þegar þér finnst eitthvað flott og merkilegt í gangi. Síminn ræður. 
Absalútt tækifærismyndir sem að spanna heilt ár (skv. forritinu), jafn ólíkar og þær eru margar því þú veist aldrei hvenær kallið kemur. 
Well, think again. Ekki svo ólíkar og ekki svo skemmtilegar þegar kona er í fæðingarorlofi.
Frá því að ég skráði mig til leiks hafa myndefnin verið eftirfarandi;
- klofið á mér. Fyrsta myndin, ég skildi ekkert hvað var að eiga sér stað og allt í einu kom bara flass og þar með var klofið á mér fast á skjánum.
- kaffibolli
- vagn úti á palli með sofandi barni
- vakandi barn sem hreyfir sig svo hratt að myndin er úr fókus og eins og hún sé af draugi
- ég að ryksuga
- rassinn á Sögu sem lítur út eins og á agnarsmáum gömlum manni (hún var að koma úr baði þegar síminn sagði mér að mynda, róa sig sími).

Ég skal bara gefa ykkur smá dæmi;


já, þetta er klofið á mér. og já, ég var með buxnaklaufina opna. só! 





Þetta er sem sagt ekki eitthvað sem ég á eftir að skoða mikið í framtíðinni og hugsa "æ en skemmtilegt".
Það eina sem ég hugsaði þegar ég skoðaði albúmið mitt í fyrradag var "oj, en ógeðslega tilbreytingarlítið líf!"
Eftir fyrsta sjokkið, sem sagt í fyrradag,  ákvað ég að við Saga myndum gera eitthvað sérstaklega skemmtilegt á hverjum degi, helst úti. Prófa nýja hluti og kanna heiminn. Aldrei hefur síminn minn tekið þátt í því og fundið það á sér þegar færi var á að ná gullkornum á mynd. Fyrsta ferðin á róló... Nei. Úti að renna í snjónum... Nei. En þegar við komum inn og barnið er farið í lúr, þá á ég að taka mynd. Og hvað er ég þá að gera, jú annað hvort er ég að ryksuga eða fá mér kaffi. Fjör. Sjóðandi heit mynd af mér að sinna húsverkum. Fjör.

Nú er ég sem sagt að ganga í gegnum annað sjokkið, eftir að ég áttaði mig á því hversu ótrúlega upptekin ég var orðin af þessu forriti og hvað mér fannst eins og ég væri að bregðast því þegar myndirnar voru ekki merkilegri en þær eru.
Málin standa nú bara þannig að dagarnir mínir ganga út á það að sjá um Sögu og allt það sem því fylgir. Dagarnir geta orðið svolítið einsleitir og ekkert endilega mjög myndvænir en það breytir því nú ekki að þetta eru allra bestu dagar sem ég hef átt. Nú lokins fær heimaköturinn í mér að njóta sín í tætlur, án þess að þurfa að afsaka það. Ég er bara heima hjá mér og elska hverja sekúndu af því. Svo er algjör klikkun hvað ég hef gaman af því að vera í kringum þetta barn, sem er að læra fullt af nýjum hlutum á hverjum einasta degi. Hún til dæmis búin að vera að átta sig á hugtökum eins og undir og bak við og nú finn ég hana hálfa undir sófa amk 12 sinnum á dag, þar sem hún er að kíkja hvort að það leynist ekki eitthvað flott þar. Svo kann hún ekki bara að vinka, klappa og sýna hvað hún er stór heldur er "hvað ertu sterk" í fínpússun. 

Þetta er allt svo fáranlega gaman að sjá. Svo ótrúlega gott að vera heima og fá að fylgjast með henni, upplifa þetta allt, alveg sama þó svo að það sé kannski ekki spennandi myndefni.

Ég mæli samt með þessu smáforriti ef að þið lifið trylltu lífi. Eða bara eruð ekki heima í mjög fastri rútínu.

Sunday, February 8, 2015

Ég stend mig bara ótrúlega vel sem bloggari, þó ég segi sjálf frá. Ekki nema 6 mánaða blogg-pása. Iss, það er nú ekki neitt. 
(Gaman líka að sjá hvað þið söknuðuð mín greinilega (!) (Þetta var sem sagt kaldhæðni, svo það sé öllum ljóst).

Það hefur svo sem verið nóg að gera, ég segi það ekki. Undanfarnir mánuðir hafa bæði farið í umönnun barns (líður eins og ég hafi eitthvað rætt komu þess í heiminn og aðeins sett myndir af því á netið. Leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál og potið endilega í mig ef þið vitið ekki um hvaða barn ég er að tala) en ég hef ekki síður verið að hamast við að skrifa MA ritgerð.

Heyrðu ok. Ég ætla bara að taka þessa umræðu núna fyrst ég er svona hálfpartinn byrjuð.
Fæðingarorlofsplön. Þetta er topic sem allir virðast hafa skoðun á. Allir telja sig vita hvernig best er að haga þessum dýrmæta tíma. Ég fékk að kynnast þessum áróðri mjög náið á meðan ég var ólétt og eftir að Saga Björk fæddist.
Mín staða var svona: Áætluð lending barns var 10. júní (hún kom reyndar 11., skamma hana fyrir þessa bið þegar hún veit orðið meira). Skólinn átti svo að hefjast á ný hjá móðurinni í byrjun september og skil á mastersritgerð voru skráð 10. nóvember. Klárt?
Þegar upp kom sú staða að verið var að ræða settan dag og tilhögun á orlofi hjá mér (og trúið mér, þessi umræða kom upp 40 sinnum á dag undir lok meðgöngu) þá sat fólk ekki beint á skoðunum sínum. Annað hvort fékk ég að heyra "og ætlarðu ekki bara að halda áfram í skólanum, þú ferð nú varla að taka þér pásu er það..? glatað að fresta útskrift um heilt ár?" (með þessu kom fylgdi oft ákveðin vanþóknunar-gretta) eða fólk sagði "ætlarðu í alvöru ekki að fresta ritgerðinni?!? trúðu mér, þetta á ekki eftir að ganga upp". 

Já akkúrat. 

Hvað varð um að segja bara "já, gangi þér vel með þetta allt saman. Sjáumst fljótlega. BLESS" og svo bara fær fólk að haga lífi sínu eins og það vill. 
Í mínum augum er þetta hvorki góð né slæm hugmynd, að stunda nám í fæðingarorlofinu sínu heldur frekar persónubundið val. Það eru margir þættir sem að skipta sköpum í þessu púsli og því frekar glatað að ætla sér að básúna hinum heilaga sannleik. 
Við Sigurjón tókum ákvörðun í sameiningu, ég myndi halda áfram í skólanum og byrja að skrifa ritgerðina. Ef til þess kæmi að álagið yrði of mikið þá myndi ég bara fresta og taka mér pásu. Bingó. Þess þurfti þó ekki og eru nokkur atriði sem að gerðu það að verkum að allt gekk þetta glimrandi. Til dæmis tók Sigurjón sér langt frí eftir að Saga fæddist. Við fengum góðan tíma saman til þess að átta okkur á breyttum aðstæðum og nýju mynstri, í ró og næði. Öll saman, að Flóka með töldum. Ég var sjálf fljót að hoppa í gott jafnvægi, sem er hreint ekki sjálfgefið. Síðast en ekki síst var Saga (og er enn 7-9-13) ofboðslega meðfærilegt og rólegt barn. Hún var með smotterís magaverki þegar hún var algjört peð en það leið hjá á skömmum tíma. 3 mánaða var hún hætt að nenna að standa í næturbrölti og á daginn svaf hún vel og eins og eftir áætlun. Hún var líka á sérlega heppilegum aldri þegar ég var að skrifa, ekki farin að borða fasta fæðu (almáttugur tilstandið í kringum það þegar barn byrjar að borða) og svaf meiri hluta dagsins. Nú vakir hún mikið meira, skríður um allt og nagar skottið á Flóka. Ég hef varla tíma til þess að skrifa blogg-pistil eins og staðan er í dag! Ef ég tek augun af henni þá er hún í lífshættu og þess á milli er ég að græja mat eða þá  að sópa upp mat sem hún er búin að maka út um allt hús...
Allavega, aftur að umræðuefninu sjálfu. Mæður eru nefnilega líka misjafnar, ekki bara börnin. Og hvað haldiði - þetta á líka við um feður. 

Og þið sem nenntuð að lesa alla leiðina hingað, hvað hafiði lært af þessum pistli? Jú, ekki segja við konu að það sé ekkert mál að halda áfram í háskóla með pínulítið barn, það sé í raun bara fínt til þess að hafa eitthvað að gera í þessu fríi. Ekki gera það því að kannski eignast sú kona kveisubarn og upplifir sig últra mikinn aumingja að geta ekki stundað háskólanám í orlofinu sínu. Sú kona á bara nóg með sitt. 
Og ekki segja konunni sem er að skrifa mastersritgerð að hún eigi alltaf eftir að sjá eftir því að hafa ekki bara tekið sér almennilegt fæðingarorlof. Kannski fannst henni orlofið sitt bara mjög almennilegt, þrátt fyrir að hafa verið í skóla! 
(þetta á að sjálfsögðu líka við um feður gott fólk, svo það sé skýrt).

Mér finnst umræðan um fæðingarorlof orðin svo brengluð, í báðar áttir. Það má alls ekki kalla þetta orlof, því þá fá einhverjir hjartsláttatruflanir. Þetta sé eins langt frá orlofi og hugsast getur og þvílík vanvirðing við heimavinnandi ko...zzZZzzzZ... Og þeir foreldrar sem upplifa þetta sem frekar erfiðan tíma eru bara flokkaðir sem ekki pínu seinfærir, því þetta er svo mikill leikur einn. 

Æ þið fattið. 
Verum vinir. Við upplifum allt misjafnt. Það má alveg.
Vá. Sykurloppan eftir pásu verður kannski svona hasar-ádeilu-vettvangur. Hver veit?!


Tuesday, August 5, 2014

ég verð bara að fá að vera væmin í smá stund til viðbótar og tala áfram um barnið mitt og mömmulífið. held að það sé best að láta bara allt flakka og tappa af þörfinni fyrir að ræða þessa hluti, reyna að komast aðeins yfir þetta og geta þannig farið að ræða eitthvað annað svona inn á milli.
sko. muniði þegar maður var unglingur að byrja með strák... eða stelpu. ég byrjaði svo sem bara með strákum. allavega! þegar maður er að fikra sig í átt að sambandi eigum við það til að verða voðalega leiðinleg því að það kemst ekkert annað að en nýi strákurinn. allt sem hann gerir og segir er bara það æðislegt að það verður að deila því með öllum. alltaf. alls staðar!
þetta er svoleiðis þegar maður eignast barn, nema svona trilljón sinnum ýktara. 

að þessari útskýringu lokinni er líklega best að halda barnamaníunni á lofti.

ég er ennþá svolítið að eyða dögunum í það að stara bara á sögu. allt sem hún gerir finnst mér annað hvort brjálæðislega fyndið eða merkilegt. það er alveg nákvæmlega sama hvað það er. hún fetti upp á nefið um daginn og ég vissi bara ekki hvert ég ætlaði. þvílíkt undur. svo velti hún sér af maga yfir á bak sjö vikna gömul og þið getið rétt ímyndað ykkur geðshræringuna sem að átti sér stað hjá móðurinni í kjölfarið. kannski telst þetta samt ekki með því hún sperrir sig bara svo mikið að hún missir jafnvægið og dettur til hliðar. engu að síður legg ég hana á magann og hún endar á bakinu, þarf ekkert að ræða atburðarrásina neitt frekar, er það? barnið veltir sér og hananú!

en svo eru það þær stundir þar sem ég er svo ekki að klappa fyrir meistaraverkum hennar en þá sit ég óttaslegin með sjálfri mér. lífið breytist nefnilega svo sannarlega við það að ganga með og eignast barn. ég var svo sem undir það búin, en þetta nýja líf okkar er endalaust að koma mér á óvart. ég sest til að mynda ekki upp í bíl án þess að súpa hveljur og naga á mér neglurnar af ótta við það að lenda í slysi. eða sko, ég er eiginlega svona ef ég bara fer út fyrir hússins dyr. það eru, að mati nýbakaðrar móður, hættur alls staðar. lausir hundar, dópaðir brjálæðingar, svifryk yfir mörkum, krakkar á vespu og svona gæti ég haldið áfram í allan dag. líkurnar á því að ég verði fyrir mjög alvarlegu og jafnvel lífshættulegu slysi eru því meiri en minni eins og heyra má. þessar hættur voru svo sem til staðar hér áður fyrr, en þá tók ég bara ekkert eftir þeim! nú stendur mér hreinlega ekki á sama.

en þetta eru sko ekki einu breytingarnar sem ég hef tekið eftir. nú get ég til dæmis klippt á mér táneglurnar og reimað skóna mína, eitthvað sem ég átti erfitt með undir lok meðgöngu. ég get líka legið á maganum þegar ég sef og velt mér í allar áttir. ó þvílík stund þegar ég henti mér upp í rúm og lá þar á maganum, með engan kodda og hendur upp fyrir haus. þannig ættu bara allir að sofa, alltaf. að fólk skuli bara velja það að sofa á bakinu get ég ekki á nokkurn hátt skilið.

öllu verri breytingar eru svo þær að ég get ekki hoppað, hnerrað eða hóstað án þess að undirbúa mig mjög vel því við þessar athafnir á ég það til að pissa ég á mig. eftir að hafa átt barn prófaði ég líka að missa tilfinninguna sem kemur upp þegar þvagblaðran er að fyllast (gleymdist reyndar alveg að segja mér að það væri eitthvað sem gæti gerst, takk heimur). ég, konan með ónýta grindarbotninn, fann sem sagt ekki fyrir því í nokkra daga að mér væri mál að fara á klósettið. þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það endaði. jú, ég skal bara segja það hreint út, ég pissaði á mig... oft. því var settur upp skemi og ég skikkuð á salernið á 2 klukkutíma fresti, svona til öryggis. sigurjón fylgdist líka vel með mér því hann vildi síður að ég myndi standa upp úr sófanum og pissa í uppáhaldsmottuna hans á stofugólfinu. til allrar hamingju slapp þetta allt saman og ég hef nú náð upp fyrri færni á ný á þessu sviði. þetta tók líka bara nokkra daga eftir að saga kom í heiminn, halelúja. 

metnaðurinn fyrir mastersritgerðinni minni er svo líka örlítið breyttur frá því fyrir burð, en við skulum nú vona að hann hrökkvi í sama farið fljótlega. með þessu áframhaldi útskrifast ég nefnilega bara alls ekki neitt. 

já krakkar. breytingarnar leynast víða!
ósköp er þetta kaotískur texti. fyrirgefa ekki allir svoleiðis, þegar kona reynir að gera sem mest á meðan barnið sefur. (ætti ég að vera að gera sem mest í ritgerðinni, vissulega. er ég að gera það, alls ekki).

Thursday, July 24, 2014

hæ!
þið afsakið vonandi fjarveru mína, ég hef bara verið upptekin við að fæða barn og liggja svo og stara á það ásamt því að dásama lífið út í eitt undanfarnar sex vikur. (ég gef barninu samt líka alveg að borða og skipti á því og allt svoleiðis, svo því sé haldið til haga. ég bara stari rosa mikið inn á milli). 
umrætt barn heitir saga björk sigurjónsdóttir og hún kom í heiminn 11. júní síðastliðinn. saga björk er besta gjöf sem okkur sigurjóni hefur verið gefin og ég get ekki með nokkru móti fært þakklæti mitt og ást í orð. 

saga er hárprúð, skapmikil, brosmild og sérlega falleg. 

hæfileikar sögu eru nokkrir, þrátt fyrir mjög ungan aldur. hún er verulega sterk og frá fyrstu mínútu hefur hennar helsta markmið verið að halda höfði. það gengur vel hjá þessum litla sperripúka. hún er líka svakalega góð að kúka í naflann á sér (why?) og sjúga á sér þumalinn. hún er aftur á móti afar léleg að halda uppi í sér snuðinu, en með þjálfun ætti það að lagast. 
hér er stúlkan mánaðargömul og brjálæðislega sátt við lífið. 

hér að neðan er hún svo sex vikna og langt frá því að vera sátt við lífið. svo leið yfir þessu öllu saman að myndin varð að vera svart/hvít.
vaxtakippir fara sum sé illa í þessa litlu konu og hún lætur það alveg í ljós. undanfarið hefur hún líka verið aum í maganum og önug eftir því, svo að móðirin eyðir stórum hluta dagsins í það að reyna að finna orsök verkjanna og leiðir til að hugga þá stuttu. það sem hefur virkað hingað til er nudd og saga litla stynur af gleði á meðan það fer fram.
móðir hefur auk þess skoðað mataræði sitt og prófaði að sleppa kaffidrykkju og súkkulaðiáti, svo eitthvað sé nefnt, en við það var ástandið enn verra... bæði fyrir móður og barn. kannski sérstaklega móður samt. kaffið er því mætt í líf mitt á ný og ég neita mér ekki um súkkulaði frekar en fyrri daginn. það fer mér bara illa að vera kaffiþyrst og súkkulaðilaus.  

aaah. þetta mömmulíf.

noh. barnið er að vakna. 
hún ræður og þess vegna læt ég bara staðar numið hér. 
fleiri myndir og fréttir síðar.

kveðja, mamman!


Tuesday, April 29, 2014

það er eins gott að ég er ekki starfandi pistlahöfundur, sem fær greitt fyrir hverja skrifaða færslu. ég færi fljótt á hausinn er ég hrædd um. 
en hvað um það. hér er ég mætt og búin að heyra í lóunni. það er, eins og þið eflaust eruð farin að þekkja, fátt sem að gleður mig meira en lóan. skapið hefur því sjaldan verið betra og ekki hefur veður undanfarinna daga dregið úr gleðinni. þvílík dásemd sem það er að staulast fram úr og opna út á pall sem er svo baðaður í sól frá hádegi og fram á kvöld. 

ég elska nýja heimilið mitt!

en haldiði ykkur fast, því gleðin er hvergi nærri búin. kirsuberið á kökunni er nefnilega mamma, en hún er einmitt í heimsókn og verður hér næstu daga. 
mamma er eitthvað svo mikið meira en bara góð kona. hún er einstaklega dugleg og útsjónarsöm og svo er hún líka jákvæðasta manneskja sem ég þekki. það býr einhver ótrúleg orka og þolinmæði í mömmu sem gerir hana að bestu konu í heimi (hugsanlega er ég smá hlutdræg, en samt ekki). svo átti hún líka afmæli í gær!
hér er mamma (til hægri) ásamt erlu systur sinni. þær eru báðar mennskar handavinnuvélar og eru strax farnar að dekra litla hjarta í tætlur. pínulitlir prjónaðir sokkar, dásamlega falleg peysusett og kjólar eru því brot af því sem komið er ofan í skúffu. 
hugsa sér heppnina hjá sigurjónsdóttur, að eiga tvær ofurgóðar ömmur og eina svona ská! 

Friday, April 11, 2014

við litla hjarta erum orðnar betri í skapinu og farnar að sætta okkur við gang mála. ég hef fundið mér nokkrar afar sjarmerandi stellingar til þess að fara í þegar súrefnisskorturinn er að gera út af við mig og lungun eru komin upp í kok. minn uppáhaldsstaður hér heima er því stofugólfið, því þar næ ég að koma mér fyrir án þess að eiga það á hættu að líða út af (of dramatískt, nei nei). 
aðrar meðgöngufréttir eru annars þær að sú stutta er búin að koma sér í höfuðstöðu án þess þó að ganga svo langt að vera búin að skorða sig. „alveg eftir bókinni" eins og ljósmóðirin sagði. hingað til hafa allar skoðanir verið alveg eftir þessari umtöluðu bók svo að ég geri ráð fyrir því að hér sé á ferðinni lítill og ferkantaður reglupjakkur eins og móðirin, en hún á einmitt sérstaklega erfitt með að bregða út af vananum eða gera eitthvað sem ekki var planað með fáranlegum fyrirvara. það væri gaman fyrir sigurjón því þetta er einmitt sá eiginleiki sem hann elskar hvað mest í fari mínu... not!

ómeðgöngutengdar fréttir (og örugglega ástæðan fyrir því að skapið var skyndilega svona fínt) eru þær að foreldrar mínir komu í heimsókn fyrir viku síðan. eins og þið kannski vitið og munið þá er ég einmitt svo heppin að eiga ekki bara fína foreldra, heldur þá allra bestu í heiminum. ekki lygi.
það var yndislegt að fá þau og hafa mömmu ílandi á bumbunni og pabba glottandi við hliðina á. það var ekki verra að mamma lappaði upp á gardínumál hér í rauða húsinu á sogaveginum og pabbi grillaði dásemdar máltíð ofan í mannskapinn.
nú er bara að telja niður í páskafrí, því þá ætlum við norður í enn meira dekur! 




það til næst - farin í bústað!