Saturday, March 28, 2015

Gleymið öllu um stund og lesið áfram í algjöru næði.
Þið getið dregið andann léttar. 
Í dag eru tímamót (ekki bara #freethenipple).

Þið munið kannski eftir þessum skrifum hér*
Hvað haldiði? Nú, rúmum 6 árum eftir að þessi afdrifaríka prjónaákvörðum var tekin, er verkinu formlega lokið. Peysan er tilbúin til notkunar, þvegin og allt. 
Ég get samt ekki tekið allan heiðurinn. Það voru alveg nokkur símtöl sem ég átti bæði við mömmu og ömmu sem reyndu hvað þær gátu að hjálpa mér við að skilja uppskriftina. Það tókst þó sjaldnast, enda eru svona prjónatextar stútfullir af einhverjum orðum sem ekki eru til í íslenskri tungu. Alveg 100% í alvöru.
Ég kastaði peysunni líka í fangið á mömmu í hvert einasta sinn sem hún kom í heimsókn til okkar og bað hana um að bjarga því sem hægt var að bjarga. Sem hún gerði þegjandi og hljóðalaust (fyrir utan öll þau skipti sem hún sagði mér að hætta að prjóna þessa fáranlegu flík).
Peysan er afar ófullkomin í sniðinu, en hún hylur þá líkamsparta sem hún á að ná yfir (svona nokkurn veginn). Það eiga líka að vera 3 tölur (og það eru 3 hnappagöt) en ég átti bara 2, þar sem að 1 er löngu týnd. Ég keypti nefnilega 3 handgerðar trétölur á miðaldarmarkaði í Horsens árið 2009, þegar ég hélt að ég myndi ná að klára peysuna á barnið sem upphaflega átti að eignast hana. Eins og gefur að skilja þá er erfitt að halda utan um 3 agnarsmáar tölur í gegnum 4 flutninga, þar af eina milli landa.  

En hér má sjá dásemdina, in action.

Saga Björk klæðist hér peysunni frægu, auk þess að skarta kjól og sokkabuxum sem eru í einkaeign. 

Hér má sjá 3 hnappagöt (heitir þetta hnappagöt?) og 2 tölur. Og barn á iði.

Æ. Allt getur gerst krakkar mínir. Allt getur gerst.
Boðskapur dagsins er því; Ekki gefast upp! (og fáiði hjálp (og það mikið af henni) ef þörf er á).
ATH!
*Ég vil vekja athygli á lokaorðum mínum í gömlu færslunni. 
Í dag á konan orðið 4 börn og viti menn, nýjasta eintakið er einmitt stúlka. Það sem hún er hlýðin hún Hróðný mín. Spurning um að senda peysuna bara til ykkar?
(Svo vil ég einnig undirstrika að strákar geta að sjálfsögðu gengið í bleikum og fjólubláum peysum, þetta var meira í gríni skrifað en alvöru). 

Monday, March 23, 2015

Ég ætti nú að geta gefið mér einhvern smá tíma til þess að skrifa hérna inn í ljósi þess að ég er búin með skólann. Sko alveg 100% búin með öll námskeið, allar lotur, alla starfsþjálfun og öll verkefni... Allt. (Ok, það er eftir einn kennsluhnykkur en ég tel hann ekki með). 
Það eina sem er eftir er formleg útskrift sem verður í júní (takið 20. þess mánaðar frá. Og kannski 11. líka, þá á Saga nefnilega afmæli. Og hugsanlega 9. ef að Sigurjón vill halda upp á sinn fæðingardag. Æ, það er líklega best fyrir ykkur að taka bara sumarfríið í júní. Að minnsta kosti þið sem viljið fagna lífinu með okkur á Sogaveginum og gera það með stæl).

Allavega. Sælan sem hefur átt sér stað undanfarnar vikur hjá undirritaðri er engri lík. Morgunkaffi með dótturinni, heimilisverkin, útvarpið ómandi undir öllum athöfnum, göngutúrar með hundi og barni (þegar veður leyfir, sem er aldrei), eltingaleikir, kúkableiur og marblettir á litlum haus. Svona sirka ganga dagarnir, sem að mér hafa hingað til þótt dásamlegir út í gegn. Allt þar til að ég asnaðist til að ná mér í smáforrit í snjallsímann. Um er að ræða app sem heitir room for thought. Vinkona mín sagði mér frá þessu og lýsingarnar hennar voru svo skemmtilegar að ég skildi ekkert í því af hverju ég hafði ekki sótt forritið fyrr. Allt gengur þetta út á það að síminn lætur þig vita einu sinni á dag að nú skulir þú taka mynd og þá færðu aðeins nokkrar sekúndur til þess að smella af. Það er ekki hægt að henda óheppilegum myndum og taka aðrar betri. Það er ekki hægt að stilla neinu upp, eða taka til í kringum myndefnið. Það er ekki heldur hægt að taka mynd þegar þér finnst eitthvað flott og merkilegt í gangi. Síminn ræður. 
Absalútt tækifærismyndir sem að spanna heilt ár (skv. forritinu), jafn ólíkar og þær eru margar því þú veist aldrei hvenær kallið kemur. 
Well, think again. Ekki svo ólíkar og ekki svo skemmtilegar þegar kona er í fæðingarorlofi.
Frá því að ég skráði mig til leiks hafa myndefnin verið eftirfarandi;
- klofið á mér. Fyrsta myndin, ég skildi ekkert hvað var að eiga sér stað og allt í einu kom bara flass og þar með var klofið á mér fast á skjánum.
- kaffibolli
- vagn úti á palli með sofandi barni
- vakandi barn sem hreyfir sig svo hratt að myndin er úr fókus og eins og hún sé af draugi
- ég að ryksuga
- rassinn á Sögu sem lítur út eins og á agnarsmáum gömlum manni (hún var að koma úr baði þegar síminn sagði mér að mynda, róa sig sími).

Ég skal bara gefa ykkur smá dæmi;


já, þetta er klofið á mér. og já, ég var með buxnaklaufina opna. só! 





Þetta er sem sagt ekki eitthvað sem ég á eftir að skoða mikið í framtíðinni og hugsa "æ en skemmtilegt".
Það eina sem ég hugsaði þegar ég skoðaði albúmið mitt í fyrradag var "oj, en ógeðslega tilbreytingarlítið líf!"
Eftir fyrsta sjokkið, sem sagt í fyrradag,  ákvað ég að við Saga myndum gera eitthvað sérstaklega skemmtilegt á hverjum degi, helst úti. Prófa nýja hluti og kanna heiminn. Aldrei hefur síminn minn tekið þátt í því og fundið það á sér þegar færi var á að ná gullkornum á mynd. Fyrsta ferðin á róló... Nei. Úti að renna í snjónum... Nei. En þegar við komum inn og barnið er farið í lúr, þá á ég að taka mynd. Og hvað er ég þá að gera, jú annað hvort er ég að ryksuga eða fá mér kaffi. Fjör. Sjóðandi heit mynd af mér að sinna húsverkum. Fjör.

Nú er ég sem sagt að ganga í gegnum annað sjokkið, eftir að ég áttaði mig á því hversu ótrúlega upptekin ég var orðin af þessu forriti og hvað mér fannst eins og ég væri að bregðast því þegar myndirnar voru ekki merkilegri en þær eru.
Málin standa nú bara þannig að dagarnir mínir ganga út á það að sjá um Sögu og allt það sem því fylgir. Dagarnir geta orðið svolítið einsleitir og ekkert endilega mjög myndvænir en það breytir því nú ekki að þetta eru allra bestu dagar sem ég hef átt. Nú lokins fær heimaköturinn í mér að njóta sín í tætlur, án þess að þurfa að afsaka það. Ég er bara heima hjá mér og elska hverja sekúndu af því. Svo er algjör klikkun hvað ég hef gaman af því að vera í kringum þetta barn, sem er að læra fullt af nýjum hlutum á hverjum einasta degi. Hún til dæmis búin að vera að átta sig á hugtökum eins og undir og bak við og nú finn ég hana hálfa undir sófa amk 12 sinnum á dag, þar sem hún er að kíkja hvort að það leynist ekki eitthvað flott þar. Svo kann hún ekki bara að vinka, klappa og sýna hvað hún er stór heldur er "hvað ertu sterk" í fínpússun. 

Þetta er allt svo fáranlega gaman að sjá. Svo ótrúlega gott að vera heima og fá að fylgjast með henni, upplifa þetta allt, alveg sama þó svo að það sé kannski ekki spennandi myndefni.

Ég mæli samt með þessu smáforriti ef að þið lifið trylltu lífi. Eða bara eruð ekki heima í mjög fastri rútínu.