Thursday, June 13, 2013

látum okkur sjá. ég er ekki mikil handavinnukona og geta bæði móðir mín og systir skrifað undir þá yfirlýsingu, með góðri og hreinni samvisku. þær eru aftur á móti afar lagnar og sauma á sig hverja flíkina á fætur annarri á meðan amma prjónar vettlinga á alla stórfjölskylduna. líka langamma. af þessari ástæðu einni er ég farin að gruna að einhver (ég) hafi verið ættleidd eða börnum hafi óvart verið víxlað á fæðingadeildinni. ég hef nefnilega í ófá skipti reynt að búa mér til einhvern fjandann sem oftast endar með skelfingu. pilsið mitt, sem var óvart í 2 lögum, er gott dæmi. það varð of stutt og því brá ég á það ráð að bæta bara öðru pilsi við innan undir. innra pilsið varð óvart á röngunni, allt of sítt og bara saumað á strenginn hér og þar. til að toppa þetta var allt saman ófaldað og alls ekki jafnt allan hringinn. þessi gripur verður seint stolt móður minnar og þaðan af síður ömmu. almáttugur hvað ég notaði þetta mikið, þrátt fyrir mótlætið. ég reyndi líka einu sinni að sauma á mig peysu, sem gekk vitaskuld ekki upp og pabbi klappaði mér á öxlinna og sagði "fínn trefill". hann var ekki að reyna að hughreysta mig eða gera gott úr hlutunum, hann hélt bara að þetta væri trefill. flíkin var vissulega ekkert eins og peysa, þannig að honum hefur verið fyrirgefið.
sömu sögu er að segja af prjónaskap fraukunnar. handavinnuverkefnin fóru vanalega samferða mér heim úr skólanum og komu fullunnin til baka viku síðar. ég hafði þá ekki snert þessa skrattans prjóna heldur hafði móðirin hlaupið í skarðið. ég braut að jafnaði eina saumavélanál (nýyrði) í hverri kennslustund og heklaði allt svo pikkfast að það var ekki nokkur leið að laga það.

en ég gefst ekki upp! nei!


í byrjun desember 2008 fékk ég bréf frá uppeldisvinkonu minni, sko uppeldisvinkonu minni sem er eiginlega svona hálf stóra systir mín. í bréfinu sagði hún mér frá því að hún væri ólétt og von væri á frumburðinum í maí. með hjálp frá móður minni gat ég safnað saman nauðsynlegum efnivið til þess að geta prjónað peysu á komandi kríli. ég gaf mér rúman tíma og ákvað að hafa peysugarminn í stærðinni "1 árs". í dag er ég komin upp að hálsmáli, á ermarnar eftir sem og frágang, hnappagöt og annað sem ég veit ekki hvað þýðir. ég skil ekki uppskriftina og stend á gati, þannig að frekara prjón verður að bíða eftir því að mamma komi í heimsókn. ég kann ekki að rekja upp, kann ekki að fella af og ekki laga villur í miðju verki. barnið er orðið rúmlega 4 ára og á nú orðið 2 yngri bræður.




tóa, þú veist þá allavega af því að tara kristín hefði getað eignast þessa fínu peysu. ég legg það ekki á emil tindra að klæðast svona bleiku, þannig að fjórða barnið verður bara að koma. hafðu það stelpu!

4 comments:

  1. hahaha...þú ert yndislegust!
    skal reyna að hitta á stelpu næst :)

    ReplyDelete
    Replies
    1. vonandi verð ég búin með peysuna bara... ;)

      Delete
  2. Haha vá hvað það er gaman að less bloggið þitt!!! En mér líst vel á 4 stelpuna hjá Hróðný... Vestið verður vonandi tilbúið þá;) (það er bara vesen að prjóna Ermar)

    Kv Steinunn S

    ReplyDelete