Sunday, February 8, 2015

Ég stend mig bara ótrúlega vel sem bloggari, þó ég segi sjálf frá. Ekki nema 6 mánaða blogg-pása. Iss, það er nú ekki neitt. 
(Gaman líka að sjá hvað þið söknuðuð mín greinilega (!) (Þetta var sem sagt kaldhæðni, svo það sé öllum ljóst).

Það hefur svo sem verið nóg að gera, ég segi það ekki. Undanfarnir mánuðir hafa bæði farið í umönnun barns (líður eins og ég hafi eitthvað rætt komu þess í heiminn og aðeins sett myndir af því á netið. Leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál og potið endilega í mig ef þið vitið ekki um hvaða barn ég er að tala) en ég hef ekki síður verið að hamast við að skrifa MA ritgerð.

Heyrðu ok. Ég ætla bara að taka þessa umræðu núna fyrst ég er svona hálfpartinn byrjuð.
Fæðingarorlofsplön. Þetta er topic sem allir virðast hafa skoðun á. Allir telja sig vita hvernig best er að haga þessum dýrmæta tíma. Ég fékk að kynnast þessum áróðri mjög náið á meðan ég var ólétt og eftir að Saga Björk fæddist.
Mín staða var svona: Áætluð lending barns var 10. júní (hún kom reyndar 11., skamma hana fyrir þessa bið þegar hún veit orðið meira). Skólinn átti svo að hefjast á ný hjá móðurinni í byrjun september og skil á mastersritgerð voru skráð 10. nóvember. Klárt?
Þegar upp kom sú staða að verið var að ræða settan dag og tilhögun á orlofi hjá mér (og trúið mér, þessi umræða kom upp 40 sinnum á dag undir lok meðgöngu) þá sat fólk ekki beint á skoðunum sínum. Annað hvort fékk ég að heyra "og ætlarðu ekki bara að halda áfram í skólanum, þú ferð nú varla að taka þér pásu er það..? glatað að fresta útskrift um heilt ár?" (með þessu kom fylgdi oft ákveðin vanþóknunar-gretta) eða fólk sagði "ætlarðu í alvöru ekki að fresta ritgerðinni?!? trúðu mér, þetta á ekki eftir að ganga upp". 

Já akkúrat. 

Hvað varð um að segja bara "já, gangi þér vel með þetta allt saman. Sjáumst fljótlega. BLESS" og svo bara fær fólk að haga lífi sínu eins og það vill. 
Í mínum augum er þetta hvorki góð né slæm hugmynd, að stunda nám í fæðingarorlofinu sínu heldur frekar persónubundið val. Það eru margir þættir sem að skipta sköpum í þessu púsli og því frekar glatað að ætla sér að básúna hinum heilaga sannleik. 
Við Sigurjón tókum ákvörðun í sameiningu, ég myndi halda áfram í skólanum og byrja að skrifa ritgerðina. Ef til þess kæmi að álagið yrði of mikið þá myndi ég bara fresta og taka mér pásu. Bingó. Þess þurfti þó ekki og eru nokkur atriði sem að gerðu það að verkum að allt gekk þetta glimrandi. Til dæmis tók Sigurjón sér langt frí eftir að Saga fæddist. Við fengum góðan tíma saman til þess að átta okkur á breyttum aðstæðum og nýju mynstri, í ró og næði. Öll saman, að Flóka með töldum. Ég var sjálf fljót að hoppa í gott jafnvægi, sem er hreint ekki sjálfgefið. Síðast en ekki síst var Saga (og er enn 7-9-13) ofboðslega meðfærilegt og rólegt barn. Hún var með smotterís magaverki þegar hún var algjört peð en það leið hjá á skömmum tíma. 3 mánaða var hún hætt að nenna að standa í næturbrölti og á daginn svaf hún vel og eins og eftir áætlun. Hún var líka á sérlega heppilegum aldri þegar ég var að skrifa, ekki farin að borða fasta fæðu (almáttugur tilstandið í kringum það þegar barn byrjar að borða) og svaf meiri hluta dagsins. Nú vakir hún mikið meira, skríður um allt og nagar skottið á Flóka. Ég hef varla tíma til þess að skrifa blogg-pistil eins og staðan er í dag! Ef ég tek augun af henni þá er hún í lífshættu og þess á milli er ég að græja mat eða þá  að sópa upp mat sem hún er búin að maka út um allt hús...
Allavega, aftur að umræðuefninu sjálfu. Mæður eru nefnilega líka misjafnar, ekki bara börnin. Og hvað haldiði - þetta á líka við um feður. 

Og þið sem nenntuð að lesa alla leiðina hingað, hvað hafiði lært af þessum pistli? Jú, ekki segja við konu að það sé ekkert mál að halda áfram í háskóla með pínulítið barn, það sé í raun bara fínt til þess að hafa eitthvað að gera í þessu fríi. Ekki gera það því að kannski eignast sú kona kveisubarn og upplifir sig últra mikinn aumingja að geta ekki stundað háskólanám í orlofinu sínu. Sú kona á bara nóg með sitt. 
Og ekki segja konunni sem er að skrifa mastersritgerð að hún eigi alltaf eftir að sjá eftir því að hafa ekki bara tekið sér almennilegt fæðingarorlof. Kannski fannst henni orlofið sitt bara mjög almennilegt, þrátt fyrir að hafa verið í skóla! 
(þetta á að sjálfsögðu líka við um feður gott fólk, svo það sé skýrt).

Mér finnst umræðan um fæðingarorlof orðin svo brengluð, í báðar áttir. Það má alls ekki kalla þetta orlof, því þá fá einhverjir hjartsláttatruflanir. Þetta sé eins langt frá orlofi og hugsast getur og þvílík vanvirðing við heimavinnandi ko...zzZZzzzZ... Og þeir foreldrar sem upplifa þetta sem frekar erfiðan tíma eru bara flokkaðir sem ekki pínu seinfærir, því þetta er svo mikill leikur einn. 

Æ þið fattið. 
Verum vinir. Við upplifum allt misjafnt. Það má alveg.
Vá. Sykurloppan eftir pásu verður kannski svona hasar-ádeilu-vettvangur. Hver veit?!