Tuesday, August 5, 2014

ég verð bara að fá að vera væmin í smá stund til viðbótar og tala áfram um barnið mitt og mömmulífið. held að það sé best að láta bara allt flakka og tappa af þörfinni fyrir að ræða þessa hluti, reyna að komast aðeins yfir þetta og geta þannig farið að ræða eitthvað annað svona inn á milli.
sko. muniði þegar maður var unglingur að byrja með strák... eða stelpu. ég byrjaði svo sem bara með strákum. allavega! þegar maður er að fikra sig í átt að sambandi eigum við það til að verða voðalega leiðinleg því að það kemst ekkert annað að en nýi strákurinn. allt sem hann gerir og segir er bara það æðislegt að það verður að deila því með öllum. alltaf. alls staðar!
þetta er svoleiðis þegar maður eignast barn, nema svona trilljón sinnum ýktara. 

að þessari útskýringu lokinni er líklega best að halda barnamaníunni á lofti.

ég er ennþá svolítið að eyða dögunum í það að stara bara á sögu. allt sem hún gerir finnst mér annað hvort brjálæðislega fyndið eða merkilegt. það er alveg nákvæmlega sama hvað það er. hún fetti upp á nefið um daginn og ég vissi bara ekki hvert ég ætlaði. þvílíkt undur. svo velti hún sér af maga yfir á bak sjö vikna gömul og þið getið rétt ímyndað ykkur geðshræringuna sem að átti sér stað hjá móðurinni í kjölfarið. kannski telst þetta samt ekki með því hún sperrir sig bara svo mikið að hún missir jafnvægið og dettur til hliðar. engu að síður legg ég hana á magann og hún endar á bakinu, þarf ekkert að ræða atburðarrásina neitt frekar, er það? barnið veltir sér og hananú!

en svo eru það þær stundir þar sem ég er svo ekki að klappa fyrir meistaraverkum hennar en þá sit ég óttaslegin með sjálfri mér. lífið breytist nefnilega svo sannarlega við það að ganga með og eignast barn. ég var svo sem undir það búin, en þetta nýja líf okkar er endalaust að koma mér á óvart. ég sest til að mynda ekki upp í bíl án þess að súpa hveljur og naga á mér neglurnar af ótta við það að lenda í slysi. eða sko, ég er eiginlega svona ef ég bara fer út fyrir hússins dyr. það eru, að mati nýbakaðrar móður, hættur alls staðar. lausir hundar, dópaðir brjálæðingar, svifryk yfir mörkum, krakkar á vespu og svona gæti ég haldið áfram í allan dag. líkurnar á því að ég verði fyrir mjög alvarlegu og jafnvel lífshættulegu slysi eru því meiri en minni eins og heyra má. þessar hættur voru svo sem til staðar hér áður fyrr, en þá tók ég bara ekkert eftir þeim! nú stendur mér hreinlega ekki á sama.

en þetta eru sko ekki einu breytingarnar sem ég hef tekið eftir. nú get ég til dæmis klippt á mér táneglurnar og reimað skóna mína, eitthvað sem ég átti erfitt með undir lok meðgöngu. ég get líka legið á maganum þegar ég sef og velt mér í allar áttir. ó þvílík stund þegar ég henti mér upp í rúm og lá þar á maganum, með engan kodda og hendur upp fyrir haus. þannig ættu bara allir að sofa, alltaf. að fólk skuli bara velja það að sofa á bakinu get ég ekki á nokkurn hátt skilið.

öllu verri breytingar eru svo þær að ég get ekki hoppað, hnerrað eða hóstað án þess að undirbúa mig mjög vel því við þessar athafnir á ég það til að pissa ég á mig. eftir að hafa átt barn prófaði ég líka að missa tilfinninguna sem kemur upp þegar þvagblaðran er að fyllast (gleymdist reyndar alveg að segja mér að það væri eitthvað sem gæti gerst, takk heimur). ég, konan með ónýta grindarbotninn, fann sem sagt ekki fyrir því í nokkra daga að mér væri mál að fara á klósettið. þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það endaði. jú, ég skal bara segja það hreint út, ég pissaði á mig... oft. því var settur upp skemi og ég skikkuð á salernið á 2 klukkutíma fresti, svona til öryggis. sigurjón fylgdist líka vel með mér því hann vildi síður að ég myndi standa upp úr sófanum og pissa í uppáhaldsmottuna hans á stofugólfinu. til allrar hamingju slapp þetta allt saman og ég hef nú náð upp fyrri færni á ný á þessu sviði. þetta tók líka bara nokkra daga eftir að saga kom í heiminn, halelúja. 

metnaðurinn fyrir mastersritgerðinni minni er svo líka örlítið breyttur frá því fyrir burð, en við skulum nú vona að hann hrökkvi í sama farið fljótlega. með þessu áframhaldi útskrifast ég nefnilega bara alls ekki neitt. 

já krakkar. breytingarnar leynast víða!
ósköp er þetta kaotískur texti. fyrirgefa ekki allir svoleiðis, þegar kona reynir að gera sem mest á meðan barnið sefur. (ætti ég að vera að gera sem mest í ritgerðinni, vissulega. er ég að gera það, alls ekki).

Thursday, July 24, 2014

hæ!
þið afsakið vonandi fjarveru mína, ég hef bara verið upptekin við að fæða barn og liggja svo og stara á það ásamt því að dásama lífið út í eitt undanfarnar sex vikur. (ég gef barninu samt líka alveg að borða og skipti á því og allt svoleiðis, svo því sé haldið til haga. ég bara stari rosa mikið inn á milli). 
umrætt barn heitir saga björk sigurjónsdóttir og hún kom í heiminn 11. júní síðastliðinn. saga björk er besta gjöf sem okkur sigurjóni hefur verið gefin og ég get ekki með nokkru móti fært þakklæti mitt og ást í orð. 

saga er hárprúð, skapmikil, brosmild og sérlega falleg. 

hæfileikar sögu eru nokkrir, þrátt fyrir mjög ungan aldur. hún er verulega sterk og frá fyrstu mínútu hefur hennar helsta markmið verið að halda höfði. það gengur vel hjá þessum litla sperripúka. hún er líka svakalega góð að kúka í naflann á sér (why?) og sjúga á sér þumalinn. hún er aftur á móti afar léleg að halda uppi í sér snuðinu, en með þjálfun ætti það að lagast. 
hér er stúlkan mánaðargömul og brjálæðislega sátt við lífið. 

hér að neðan er hún svo sex vikna og langt frá því að vera sátt við lífið. svo leið yfir þessu öllu saman að myndin varð að vera svart/hvít.
vaxtakippir fara sum sé illa í þessa litlu konu og hún lætur það alveg í ljós. undanfarið hefur hún líka verið aum í maganum og önug eftir því, svo að móðirin eyðir stórum hluta dagsins í það að reyna að finna orsök verkjanna og leiðir til að hugga þá stuttu. það sem hefur virkað hingað til er nudd og saga litla stynur af gleði á meðan það fer fram.
móðir hefur auk þess skoðað mataræði sitt og prófaði að sleppa kaffidrykkju og súkkulaðiáti, svo eitthvað sé nefnt, en við það var ástandið enn verra... bæði fyrir móður og barn. kannski sérstaklega móður samt. kaffið er því mætt í líf mitt á ný og ég neita mér ekki um súkkulaði frekar en fyrri daginn. það fer mér bara illa að vera kaffiþyrst og súkkulaðilaus.  

aaah. þetta mömmulíf.

noh. barnið er að vakna. 
hún ræður og þess vegna læt ég bara staðar numið hér. 
fleiri myndir og fréttir síðar.

kveðja, mamman!


Tuesday, April 29, 2014

það er eins gott að ég er ekki starfandi pistlahöfundur, sem fær greitt fyrir hverja skrifaða færslu. ég færi fljótt á hausinn er ég hrædd um. 
en hvað um það. hér er ég mætt og búin að heyra í lóunni. það er, eins og þið eflaust eruð farin að þekkja, fátt sem að gleður mig meira en lóan. skapið hefur því sjaldan verið betra og ekki hefur veður undanfarinna daga dregið úr gleðinni. þvílík dásemd sem það er að staulast fram úr og opna út á pall sem er svo baðaður í sól frá hádegi og fram á kvöld. 

ég elska nýja heimilið mitt!

en haldiði ykkur fast, því gleðin er hvergi nærri búin. kirsuberið á kökunni er nefnilega mamma, en hún er einmitt í heimsókn og verður hér næstu daga. 
mamma er eitthvað svo mikið meira en bara góð kona. hún er einstaklega dugleg og útsjónarsöm og svo er hún líka jákvæðasta manneskja sem ég þekki. það býr einhver ótrúleg orka og þolinmæði í mömmu sem gerir hana að bestu konu í heimi (hugsanlega er ég smá hlutdræg, en samt ekki). svo átti hún líka afmæli í gær!
hér er mamma (til hægri) ásamt erlu systur sinni. þær eru báðar mennskar handavinnuvélar og eru strax farnar að dekra litla hjarta í tætlur. pínulitlir prjónaðir sokkar, dásamlega falleg peysusett og kjólar eru því brot af því sem komið er ofan í skúffu. 
hugsa sér heppnina hjá sigurjónsdóttur, að eiga tvær ofurgóðar ömmur og eina svona ská! 

Friday, April 11, 2014

við litla hjarta erum orðnar betri í skapinu og farnar að sætta okkur við gang mála. ég hef fundið mér nokkrar afar sjarmerandi stellingar til þess að fara í þegar súrefnisskorturinn er að gera út af við mig og lungun eru komin upp í kok. minn uppáhaldsstaður hér heima er því stofugólfið, því þar næ ég að koma mér fyrir án þess að eiga það á hættu að líða út af (of dramatískt, nei nei). 
aðrar meðgöngufréttir eru annars þær að sú stutta er búin að koma sér í höfuðstöðu án þess þó að ganga svo langt að vera búin að skorða sig. „alveg eftir bókinni" eins og ljósmóðirin sagði. hingað til hafa allar skoðanir verið alveg eftir þessari umtöluðu bók svo að ég geri ráð fyrir því að hér sé á ferðinni lítill og ferkantaður reglupjakkur eins og móðirin, en hún á einmitt sérstaklega erfitt með að bregða út af vananum eða gera eitthvað sem ekki var planað með fáranlegum fyrirvara. það væri gaman fyrir sigurjón því þetta er einmitt sá eiginleiki sem hann elskar hvað mest í fari mínu... not!

ómeðgöngutengdar fréttir (og örugglega ástæðan fyrir því að skapið var skyndilega svona fínt) eru þær að foreldrar mínir komu í heimsókn fyrir viku síðan. eins og þið kannski vitið og munið þá er ég einmitt svo heppin að eiga ekki bara fína foreldra, heldur þá allra bestu í heiminum. ekki lygi.
það var yndislegt að fá þau og hafa mömmu ílandi á bumbunni og pabba glottandi við hliðina á. það var ekki verra að mamma lappaði upp á gardínumál hér í rauða húsinu á sogaveginum og pabbi grillaði dásemdar máltíð ofan í mannskapinn.
nú er bara að telja niður í páskafrí, því þá ætlum við norður í enn meira dekur! 




það til næst - farin í bústað!

Wednesday, April 2, 2014

ég er orðin konan sem ég hélt ég myndi aldrei verða, skollinn sjálfur.
leyfið mér að útskýra.

mér hefur alltaf þótt óléttar konur fallegar, meðgangan merkileg og í raun algjört kraftaverk. ég var ekki mjög gömul þegar ég sá ólétta konu á vappi á akureyri, í hvítum kjól með brúnt liðað hár og ákvað þá og þegar að svona myndi ég vilja vera þegar kæmi að barneignum. hraust og hress og svolítið eins og gyðja. ég gerði mér að sjálfsögðu fljótt grein fyrir því að þetta væri nú ekki svona auðvelt. meðgöngur væru jafn misjafnar og þær eru margar, kvillar geti verið af ýmsum toga og konur hafa voðalega lítið val um hvernig þessum málum er háttað. það breytti því þó ekki að mér fannst þetta það allra fallegasta í heimi. ég skildi aldrei hvernig konur gátu sagt óhikað hvað þær væru orðnar feitar. þær væru jú ekki að fitna, heldur væri lítil manneskja að vaxa innan í þeim. ég skildi heldur ekki hvernig þeim gat fundist þær ljótar og þreyttar, mér sem fannst þær bara eins og geislandi englar sendir af himnum. ég sá barneignaraldurinn (sem virðist bara vera eitthvað skjalfest apparat) fyrir mér sem algjört draumatímabil og hlakkaði til að upplifa meðgöngu og fá á mig kúlu og allar græjur. ofsa spennt!

nú stend ég í þessum sporum, framtíðarplönin um að ganga með barn og stofna til fjölskyldu eru að verða að veruleika og það er sannarlega ekki sjálfgefið. og þrátt fyrir að vera verulega heppin, hraust og að mestu kvillalaus, þá er ég orðin konan sem ég skildi ekkert í hér forðum daga. ég er sko full af þakklæti, tilhlökkun og gleði en sjarminn af meðgöngunni er gott sem farinn og mér finnst þetta orðið erfitt og pínu þreytandi. ég veit alveg að ég er ekki að fitna, en það sem mér finnst ég vera feit. oj hvað ég upplifi mig feita og þunga. hver einasti morgun er leiðinlegur, því þá þarf ég að fara í föt... önnur en náttföt. mér líður eins og ég eigi einn bol sem ég passa í og mér finnst hann bara ljótur flesta daga. hann er það ekkert, hann er bara svartur og venjulegur, en ég vil helst ekki sjá hann. látið mig ekki einu sinni byrja á buxnaumræðum... 
mér finnst ég sem sagt aldrei fín!
svo þyngist ég bara eins og brjálæðingur og hef enga stjórn á því. djöfull fer það í taugarna á mér. bjóst ég við því, á þessum himneska englatímabili? nei krakkar. ég bjóst sko ekki við því að ég myndi spá í kílógrömm.

ég er sömuleiðis ógeðslega þreytt og finnst ég þar af leiðandi frekar ljót. ég sef orðið frekar laust og illa og brjótsviðinn hjálpar ekkert til með það. minnsta brak úti í garði eða hrota í sigurjóni vekur mig og ég tek mér góðar 40 mínútur í það að sofna aftur. oft oft oft á nóttu. barnið potar sér í rifbeinin á mér í gríð og erg, ég á erfitt með að sitja og lesa, ég á erfitt með að liggja og lesa og ég á erfitt með að anda. ég stuttu máli finnst mér þetta orðið erfitt.


ég vona að þið misskiljið mig ekki og teljið mig vera algjörlega veruleikafirrta. ég veit til dæmis að þetta er bara byrjunin. ég á eftir að verða svo þreytt að þessir dagar eru bara sæluvíma við hliðina á þeirri þreytu sem á eftir að mæta mér. ég vissi bara ekki að þetta annars yndislega tímabil gæti tekið svona í! ég var búin að sjá fyrir mér aðeins öðruvísi stemningu.

aldrei aftur ætla ég að mótmæla þegar ólétt kona segir að henni líði ekki vel og finnist hún feit. aldrei aftur skal ég draga það í efa að þessir mánuðir geti bara verið ógeðslega leiðinlegir og glataðir þó svo að viðkomandi sé kannski að fá sína heitustu ósk uppfyllta. aldrei aftur skal ég verða stereótýpan sem sér nánast allar meðgöngur sem besta tímabil í lífi hverrar konu, svífandi um á rómatísku bleiku skýi.  

kveðja, móðir og 30 vikna valkyrja sem verða vonandi aðeins léttari í lundu á morgun.

Sunday, March 30, 2014

síðustu helgi fórum við sjonni prúðbúin og brosandi í hörpu til að líta á það sem að hönnunarmars hafði upp á að bjóða. sagan væri nú kannski ekki mjög merkileg ef ekki væri fyrir þær sakir að hönnunarmars var alls ekkert í gangi síðustu helgi, hátíðin var sett á fimmtudaginn var. eftir að hafa rambað um svæðið, klórað okkur í kollinum og áttað okkur á misskilningnum gengum við út úr galtómri hörpu og tókum kolaportsrúnt. dagurinn var því ekki alveg glataður. 

en hvað um það. þessa helgina fengum við annað tækifæri til þess að svala menningarþorsta okkar og gott betur en það. við tókum að sjálfsögðu annan hring í hörpu, nú með ögn fleira fólki en helgina áður. menningarlætin mögnuðust svo heldur betur þegar við fórum á klikkaða sýningu hjá viktoríu vinkonu minni, sáum annars árs einstaklingsverkefni hennar af sviðshöfundabraut. 
kirsuberið á toppnum var svo herdís frænka, en hún sýndi hluta af vörulínunni sinni í epal í skeifunni. ég mæli eindregið með því að þið skoðið fínu fínu hlutina sem hún hefur upp á að bjóða, en hægt er að skoða allt góssið á bimbi.is. hillurnar þykja mér sérstaklega fallegar, ég þarf bara aðeins að gera upp hug minn hvort ég ætla að vera með glæra eða hvíta í herberginu sem litla hjartað fær í framtíðinni. það er þó alveg ljóst að margföldunar- og stafrófsspjöldunum verður komið þar fyrir. 

annars er ég svona aðeins farin að láta hugann reika, hreiðurgerðinn komin af stað. hef ákveðið að vera með þema í herberginu og í ljósi þess að sú stutta verður fær líklega viðurnefnið prinsessan þá ákvað ég að skoða svolítið mublur og skraut eftir því. samt bara látlaust, bara eitthvað svona! myndi örugglega sleppa lampanum en annars finnst mér þetta bara fullkomið. 

Monday, March 24, 2014

letin nær stundum svo föstum tökum á mér að ég nenni varla að draga andann og því miður er svoleiðis letiský yfir mér þessa dagana. ástandið er svo slæmt að ég rétt ræð við að svara tölvupóstum, hvað þá meira. að taka upp skólabók og lesa aðeins er mjög fjarlæg hugsun. stór hluti letinnar er samt veðrinu að kenna, alveg dagsatt. mamma og pabbi ætluðu nefnilega að koma í heimsókn um helgina en sátu í staðin föst á akureyri, þannig að ég er eiginlega enn miður mín. svo er allt svona frekar grátt hér í höfuðborginni og það er nú ekki til að kæta neina fýlupúka eins og mig.

en hvað um það. ég ákvað að vaska upp fyrir ykkur kæru vinir og taka mynd af hinum helming opna rýmisins - eldhúsinu.

við flóki litli erum sérstaklega sæt á þessari mynd - en hún er sú eina sem er til af eldhúsi fyrir flutninga og málningavinnu. (nb. ég kem aldrei til með að skilja almennilega líkamsstöðuna sem hundurinn er í þarna). 
þetta er sá hluti íbúðarinnar sem að kemur til með að fá hve mesta andlitslyftinguna. eldhúsinnréttingin virðist kannski ágæt í fjarska, en hún er eiginlega langt frá því að vera ágæt. á þessari mynd má til dæmis sjá 3 mismunandi viðartegundir í henni en í henni leynist meira að segja ein til viðbótar. skáparnir eru furðulega staðsettir og hún er farin að láta verulega á sjá. þegar við höfum safnað pening þá verður henni því skipt út, gert er ráð fyrir að það gerist árið 2043. 
hér má svo sjá eldhúsið eftir flutninga. það mátti reyndar strax sjá mikinn mun eftir að súlan var máluð en það rétt glittir í hana lengst til vinstri á báðum myndum. það tók okkur tengdamömmu ekki nema svona 10 klst. og brjálæðislega marga lítra af málningu að sigra þennan appelsínugula skelfi.
fljótlega verður svo haldin keppni á sogaveginum, þar sem einu þátttakendur verðum við sjonni. planið er að teikna eldhúsið upp í tölvunni og leika sér svo í því að hanna og raða, ásamt því að fá upp áætlaðan kostnað. ég ætla að sjálfsögðu að hafa það að mínu markmiði að vera með svona tómt gat fyrir uppþvottavél. finnst það svo sjarmó.

Tuesday, March 4, 2014

sko. mér finnst bara allt í lagi að ég hafi borðað heilan pakka af toffypops kexi. ég borða ekkert bollur (nema berlínarbollur) og hef því ekki fengið mér neitt svoleiðis góðgæti. kexið var þannig bara skaðabætur, í rauninni. 
hvað!?

eitthvað var ég búin að lofa myndum. þið fáið þær bara smám saman, eftir því hvernig ástandið er á íbúðinni hverju sinni. hér má sjá stofuna, galtóma og drungalega í janúar. myndin er tekin úr eldhúsinu, en stofan og eldhúsið er bara eitt stórt rými. það er eitthvað sem okkur langar að breyta í framtíðinni, loka eldhúsinu aðeins af, þó ekki sé nema með eyju eða einhverju smáræði. en það er nú seinni tíma hausverkur. 

þessi mynd var svo tekin í fyrradag, í birtu, sem er svolítið svindl. þetta er smá eins og árangursmyndir af fitnessdufti, seinni myndin fegruð en akkúrat og nákvæmlega ekkert gert fyrir þá fyrri.
svo hefði ég náttúrulega átt að taka myndina frá sama sjónarhorni og þessi að ofan, en ég geri það bara með næsta rými. hér fáiði allavega að njósna smá. sjónvarpið er á veggnum nær mér (og sést því ekki) og þar á string hillan umrædda að hanga... þegar ég hef eignast hana... aha! 
svo sést það kannski ekki en suðurveggurinn er málaður í öðrum lit en restin. hann átti upphaflega að vera dekkri, en við fengum ekki litinn sem við vildum. þessi fór því á en ég geri ráð fyrir því að mála hann áður en langt um líður (langt er samt teygjanlegt hugtak).
þið afsakið myndgæðin. þið lifið. ég veit það.

svo á pabbi afmæli í dag. hann er líklega besti pabbi í heimi.

Sunday, February 23, 2014

loks er allt að falla í ljúfa löð í rauða húsinu á sogaveginum.
hundurinn er í fyrsta lagi búinn að jafna sig. þegar á flutningum stóð fór hann í nokkurra daga hungurverkfall og upplifiði frekar áttavillt tímabil greyið. hann hefur nú náð áttum og farinn að haga sér í samræmi við greind og fyrri getu, sem sagt bara furðulega.
sjónvarpið er komið á vegginn, internetið er tengt og barnaherbergið er fullt af drasli. á það ekki annars að vera þannig, þó að barnið sé kannski ekki enn komið?
nú... eins og við var að búa þá vex bumban eftir því sem tíminn líður og barnið iðar sem aldrei fyrr. 

mynd máli mínu til stuðnings, 19 vikur og 23 vikur.

aftur að íbúðarmálum. mig sárvantar (langar. samt meira vantar. æ má maður!) hillur í stofuna. það eru enn nokkrir smáhlutir og bækur sem hafa ekki fengið viðeigandi stað og veggurinn sem ég hef í huga er frekar tómlegur og bjánalegur. fyrst langaði mig, eins og held ég bara allir á íslandi, í hansa hillur en ég bakkaði frá þeirri dellu jafnt og örugglega. í staðin langar mig í sting pocket hillur, sem fást til að mynda í epal. þær eru það fallegasta sem ég veit og hægt að velja sér lit og viðartegund, allt eftir smekk. eeeen (það er alltaf en) þær eru líka það dýrasta sem ég veit. draslinu sem er enn á vergangi hefur því verið troðið inn í barnaherbergi, að sjálfsögðu, og hvernig-get-ég-eignast-hillurnar missionið er í vinnslu. ég læt vita hvernig gengur. ég á um fimmhundruð krónur á kortinu mínu eins og stendur þannig að þetta gæti tekið smá tíma. verið þolinmóð, eins og ég, og njótiði þess að skoða myndir af þessum fallegu mublum á meðan.





þetta hillukerfi er sænskt, allt sænskt virðist vera fallegt, og er frá árinu 1949. það er vissulega smá hansa stíll á þeim, en mér finnst notalegt að geta valið viðinn. líkt og með hansa er svo hægt að bæta endalaust við og raða og púsla hingað og þangað. 




skref eitt í átt að hillukaupum, hætta að borða á sunnudögum?

Friday, February 14, 2014

þessi hundrað daga hamingjuherferð er falleg. ég held við höfum öll gott af því að skoða litlu hlutina í kringum okkur og vera ánægð og þakklát. ég nenni samt ekki fyrir mitt litla líf að taka þátt í henni og þess þá heldur að fylgjast með öllum hinum sem eru með. allar myndirnar á instagramminu mínu eru merktar #100happydays og það er strax orðið þreytt. samt er fólk bara búið með svona fimm daga. hjálpi mér. (fýlu lokið. má maður stundum vera fúll á móti. (ég er það reyndar mjög oft. en okei)).

ef ég væri með í þessu þá myndi ég afgreiða þetta á einu bretti. samkvæmt snjallsímaforritinu mínu eru 116 dagar í áætlaðan lendingardag barns. sumarsólstöður eru 21. júní (held ég). það þýðir að alla mína hundrað daga get ég tengt við hækkandi sól, meiri birtu og minna myrkur. #100happydays - done. 
það er ekkert eðlilegt hvað dagsbirtan gleður mig mikið.



Tuesday, February 11, 2014

við erum sem sagt ennþá netlaus, sem að þessu sinni skýrir fjarveru mína (og hin vanalega leti að sjálfsögðu). netleysi á sér tvær hliðar. það getur verið virkilega afslappandi og frelsandi að komast ekki á netið og eyða ekki endalausum tíma á facebook, mbl og youtube en að sama skapi getur það verið ólýsanlega heftandi og þreytandi. sérstaklega þegar 3g sambandið er af skornum skammti. (og þegar ástæðan liggur í tossaskap símafyrirtækisins og, að því er virðist, hugsunarleysi starfsmanna. í alvöru. ef að starfið þitt felst í að senda flutningsbeiðnir og þú færð meldingu um að sjonni og dagný hafi flutt frá A til B, hvernig dettur þér í hug að senda flutningsbeiðnina á A? ég skil ekki. er ekki frekar augljóst að við fluttum frá A til B, og netið þarf að koma á nýja staðinn?)

ég blótaði mjög mikið yfir þessu í gær og hélt því aðeins áfram í dag, en hef náð innri ró. eins og er. ég held samt að það sé aðallega af því að ég fékk mér þrist og kókómjólk áðan, sem er allra meina bót.

stutt lýsing af nýja hverfinu er þessi:
ótrúlegt en satt þá er þetta smá eins og að vera fluttur í sveitina. það er engin hávaði frá umferðinni, miklabrautin ómar úr fjarska en það er bara eins og lækjarniður. hér leika hundar lausum hala, sigurjóni og flóka til mikillar gleði. mér aftur á móti til mæðu. flóki hefur meira að segja eignast leikfélaga (ekki grín) því á hverjum morgni bíður hans hundur úti á tröppunum okkar. laus, að sjálfsögðu. þetta er svo fáranlega skrýtið. ég skil ekki af hverju það er svona mikið af lausum hundum hérna, og svona til að það komi skýrt fram þá eru eigendur hvergi sjáanlegir. þetta eru þó gæf dýr og gömul, með ól og þau fara alltaf heim eftir litla labbitúrinn sinn... en ég bara skil þetta ekki!
sjónvarpið er komið upp á vegg,  gardínur eru af skornum skammti og sigurjón nær að lokka mig fram úr með því að minna mig á gólfhitann. 

viljiði myndir?

Friday, January 31, 2014

okei, þetta er sem sagt staðan. ég er ekki dáin og ekki búin að gleyma þessu bloggi. ég er bara nýflutt og netlaus og allt í volæði! eða allavega nýflutt og netlaus. þetta með volæðið var bara lygi.
en þó svo ég sé ekki búin að gleyma blogginu þá virðist ég gleyma öllu öðru. hef alltaf haldið að sögurnar um pregnancy brain sé bara tómt rugl og mýta, en svo er ekki. ég hef víst lært það, erfiðu leiðina. tökum dæmi. í fyrradag fór ég í bónus, tók kortið mitt upp úr veskinu (sem ég skildi eftir úti í bíl) og verslaði. gott og blessað. fór heim, gekk frá vörunum og hljóp af stað í aðra sendiferð, í öðrum jakka. ástæðan fyrir því að ég fór heim á á milli var náttúrlega sú að ég gleymdi planinu mínu. gleymdi hvað ég var að gera. fattaði þegar ég var komin á bílastæðið á næsta áfangastað að veskið var enn heima. sem betur fer var stutt heim, svo þangað fór ég og greip veskið. aftur fer konan af stað, endar á bílastæðinu umrædda og fattar þá að kortið er alls ekkert í veskinu.
þið skiljið hvert ég er að fara með þetta, er það ekki? dagurinn fór sem sagt í smá hakk út af því að ég rúntaði bara fram og til baka til þess að ná í drasl sem ég gleymdi að taka með mér. ég kom engu í verk.

dagurinn í gær var svo ekkert skárri. ég fattaði undir vatnsbununni í world class að ég hafði gleymt handklæði heima. mæli ekkert sérstaklega með því að þurrka sér með klósettpappír.. þann dag gleymdi ég líka veskinu mínu (surprise) þannig að ég gat ekki keypt mér mat. svöng og útötuð í pappírskuski hélt ég því mína leið... leiðin lá því miður í borgarleikhúsið!

næsta mál á dagskrá er að kaupa mér lítið seðlaveski með bandi, sem ég get hengt um hálsinn á mér og leggja bílnum þar til heilinn fer að starfa eðlilega á ný. mér finnst ég hljóma eins og ógn fyrir samfélagið. 
en æ... fyrst þarf ég samt að fara eina ferð á sorpu… þið hin passið ykkur bara. ég er á hvítum yaris, rækilega merktum toyota akureyri (af augljósum ástæðum).

Tuesday, January 7, 2014

æ já. það var þetta með ársuppgjörið, alveg rétt.
ég sagði stay tuned og svo bara gerist ekki baun í bala. forlåt.

markmiðið var að gera þetta á gamlársdag. það tókst ekki. brá þá á það ráð að hafa þetta bara eins konar þrettándagleði. tókst ekki heldur... en nú kemur þetta. stutt og laggott, ég nenni ekki að fara yfir þetta mánuð fyrir mánuð heldur bara helstu hápunkta ársins.

- hóf síðustu önn BA námsins, skrifaði lokaritgerðina mína og útskrifaðist í júní.


- byrjaði í kvennakórnum kötlu, besta ákvörðun ever.

- ég fór í brilliant og ógleymanlega stelpuferð til berlínar og sá beyoncé. 


- hélt áfram að reyna að koma mér í form og fara út að hlaupa. hætti því.
- hélt áfram að reyna að prjóna peysuna sem ég byrjaði á árið 2009. hún er komin ofaní skúffu, again.
- fór í dásamlega sumarbústaðarferð í góðra vina hópi. erum strax farin að tala um ferðina sem verður farin í ár.

- átti dásamlegt sumarfrí með manni og hundi, gistum í tjaldi, hlíðargarði og nutum lífsins.

- tók jákvætt þungunarpróf (!) og sit nú með 18 vikna belg út í loftið.
- keypti mér íbúð.

æ, veit ekki með ykkur en mér finnst tveir síðustu punktarnir eitthvað standa upp úr. kannski er það bara ég!