Sunday, September 15, 2013

það eru náttúrlega allir komnir með leið á þessu útilegubloggi frá því fyrir löngu. líka þeir sem hafa ekki lesið það! 

jæja. ekki nóg með það að ég sé komin heim úr útilegunni heldur er haustið sem ég talaði um hér síðast eiginlega bara búið og veturinn kominn á fullt, það er frostlykt í loftinu á morgnana og kuldinn er farin að narta í kinnar. í skólanum hef ég lokið við fimm hefðbundna kennsludaga og er strax komin svo langt á eftir í lesefninu að ég hef íhugað það alvarlega að segja bara upp störfum. eða þið vitið, hætta í skólanum. mér fallast hreinlega hendur! í mastersnámi er ekkert sem heitir mjúkleg byrjun - fólk er bara hent út í sjóinn. (ég er ekki dramatísk).

en það sem er þó öllu merkilegra en haugur af ólesnum fróðleik eru nýjustu kaup mín og skuldbinding. þegar maður verður vitni af óléttri vinkonu sinni fara í spinning oft í viku, alveg þar til hún ákveður að eiga barnið (án alls djóks) (lína, sæl) þá getur maður ekkert annað gert en að fá bilað samviskubit yfir rassafarinu í sófanum og hauglötum hjartsláttnum. í einhverju kastinu rauk ég því út í world class og keypti mér áskrift. sú áskrift gildir einmitt í jafn langan tíma og heil meðganga varir. ég kenni línu líka um það. gat ég ekki bara keypt mér mánaðarkort, nú eða hreinlega vikupassa svona til að byrja með. þurfti ég í alvöru að kaupa mér kort sem gildir í níu mánuði!?

ég kem til með að láta ykkur vita þegar ég þarf að selja þetta kort mitt aftur. það fer ódýrt!