Thursday, May 30, 2013

halló heimur!
ég var að koma úr vikulangri berlínskri stelpuferð og þegar svoleiðis er þá gefst sko enginn tími til þess að vera atvinnubloggari eins og ég er nú vanalega. (hehemm). 
ferðin var eins og draumur og demantar, fyrir utan það að ég tók vegabréf mannsins míns með mér út á völl og skildi mitt eftir heima. tittlingaskítur. en við komumst ytra og þræddum glaðar götur berlínarborgar, versluðum heilan andskotans helling, drukkum bjór og misgóða kokteila, hlóum á okkur magavöðva og dilluðum okkur. en tilgangur ferðarinnar var þó meiri og merkilegri en svoleiðis slæpagangur. sagði einhver tónleikar á beyoncé? rétt!
muniði þegar ég skrifaði þetta
ég er enn skotnari í henni núna. alveg milljón stigum. ég tók upp opnunaratriðið hennar og gerði þau miklu mistök að horfa á vídjóið með spúsa mínum eftir að ég kom heim. óhljóðin sem ég gef frá mér þegar konan kemur á svið eru álíka þeim sem heyrast þegar kona eignast barn. grínlaust. nú er ég viss um að sjonni er að plana það að fara frá mér því hann heldur að ég sé að ljúga til um aldur og ég sé í alvöru bara 12 ára gelgja. það verður þá bara að hafa það, ég hef allavega hitt (já, ég ætla að segja hitt) beyoncé. 

kveðjur frá katalógstelpunni.


Tuesday, May 14, 2013

ég lofa að svona montfærslur eins og þessi hér að framan verða ekki fleiri. þetta var alveg óvart!

næsta mál á dagskrá er mánudagur í myndum, vol.2 - það er fyrir lifandi löngu síðan kominn tími á það.
þegar ég gerði vol.1 var ég í miðjum BA skrifum og skólinn var við það að drepa mig (í þeirri færslu getiði séð intro-ið/skýringuna á mánudegi í myndum, svona svo ég líti ekki út fyrir að vera 100% biluð (heldur bara svona 67%, því þetta er jú fremur bilað dæmi)). þessi mánudagur var helgaður húsmóðurinni í mér og því kannski ekkert sérstaklega spennandi heldur. næsti mánudagur verður því funday, díll? 
hefjum leikinn á fremur up close and personal morgunmynd (tekin í fuglasöng). veit ekki alveg hver hugsunin var hér, af hverju ég tók hana ekki aðeins fjær það er að segja, en eins og sjá má er ég töluvert hressari en ég var á ræstíma í febrúar. þar gat ég ekki opnað augun fyrr en ég hafði staulast inn á bað til að pissa og rak svo tannburstann óvart í þau því með lokuð augun hitti ég ekki upp í mig. nú opnast þau bara á meðan ég er enn uppí rúmi! 
æ þú elsku vor og mikla birta, lovjú.
jæja, nóg af ást og kossum. 
hundi fékk að ganga fyrir þennan daginn, enda tjúlli múlli og í miklum spreng. við skunduðum því í langa göngu, fyrir morgunmat! (þarna var ég líka að reyna að viðra leðurjakkann sem lyktaði fremur furðulega frá því í sauðburðinum sælla minninga). 
á móti okkur tók sólin og sælan. og fuglasöngur. 
foreldrar fá stórt hrós frá mér fyrir að láta þarfir þessara krakka alltaf í fyrsta sæti. mér fannst ég vera að fórna mér gríðarlega að fá mér ekkert að borða áður en við hundur héldum í göngu. sársvöng þegar ég kom heim og hrærði mér egg. af hverju þau eru svona einkennileg á litin á þessari mynd veit ég ekki, en hrærð egg er það besta sem ég fæ þannig að hér fáiði að sjá lúxus morgunverð fraukunnar.
eftir át fór húsmóðirin í ham og réðst á þvottafjallið (ég ryksugaði líka og skúraði, en það var bara of leiðinlegt myndefni. samt klapp fyrir mér að vera geggjó mikið húsó). hey, hundraðkall fyrir þann sem finnur flóka!
smá stund á milli stríða. lestur og kaffi og hlýir sokkar. hey, hundrað kall fyrir þann sem finnur flóka! (hann er í alvöru svona uppáþrengjandi, alltaf. elsku litli). 
þetta bara varð að nást á mynd, því hér toppaði ég mig algörlega. síðan hvenær sápuþvæ ég bíla? eins og ég segi þá var þessi dagur sérstaklega tileinkaður alls konar svona brasi og dugnaði og þetta bara gerðist. rétt eftir að ég tók svo þessa mynd fór að hellirigna. þar með ákvað ég að standa aldrei aftur í þessu kjaftæði enda ekki til neins. bílinn er strax orðin haugskítugur. en sigurjón var ægilega ánægður með spúsu sína (eðlilega).
smá holl! við turtildúfurnar erum pínu að reyna að sparka í rassgatið á okkur hvað mataræði varðar. sem betur fer finnst mér svona grænir djúsar delish, þannig að so far, alltílæ! (ekki so good, ég er ekkert það dugleg. en svona alltílæ).
ég sá það í hendi mér að leðurjakkinn þyrfti að fá einhverja meðhöndlun þar sem að tveggja daga viðrun og göngutúr hafði ekkert að segja. hann lyktaði enn eins og nýborið lamb og fraukann tók til hendinni. hann hangir enn úti á svölum eftir þetta bað og ég þori ekki fyrir mitt litla líf að athuga hvort að hann sé bara orðin að sveitajakka. æjh, ég væri þá allavega alltaf þokkalega fín í sveitinni. það er jákvætt!
þökk sé ástríði veit ég núna að réttir dagsins hjá lifandi markaði fara á 2fyrir1 tilboð eftir klukkan fjögur á mánudögum og föstudögum. (þetta er ógeðslega skrýtin setning, en ég nenni ekki að vesenast í henni). við nýtum þessi flottheit óspart, enda mjög góður og hollur matur og ekki skemmir fyrir að skammtarnir eru risastórir! (en samt aðallega af því að þá þarf enginn að elda og uppvaskið verður bara pínulítið).
kvöldgangan. ég ætlaði að gera svona kanínueyrudjók á hund en það er bara eins og ég sé að klóra mér. hefði samt verið fyndið hefði það heppnast betur, er það ekki?
 ástmaðurinn kom með. alltaf sætur! skil ekki hvað ég á sætan mann.
mánudagar eru algjörlega bestu dagar vikunnar. þá eru æfingar hjá kötlunum og þaðan fer maður endurnærður og raulandi hress. 
fyrir svefninn. sá að ég átti inni 4 þætti! VEI!
... best að horfa á næstu þrjá. 

Monday, May 13, 2013

lífið gengur í sveiflum, fer upp og niður og út og suður. ég reyni þó að skrifa bara þetta skemmtilega inn á loppuna, enda held að það væri hvorki spennandi fyrir mig né þig ef öfugt væri að farið. 
að þessu sögðu ætla ég að monta mig svolítið (mikið...).
í síðustu viku kom einkun fyrir BA ritgerðina inn á uglu! (ég var á leið í sjónmælingu þegar ég athugaði stöðu mála og ég er nokkuð viss um að ég hafi látið mæla mig vitlaust. missti algjörlega einbeitinguna á því sem ég átti að vera að gera og jánkaði bara út í bláinn, þannig að það verður bara að fá að koma í ljós hvort að nýju brillurnar séu yfir höfuð nothæfar eða hvort þær endi á bland.is). viðbrögðin þegar ég sá einkunina voru líka mjög hallærisleg og það var smá eins og ég hefði unnið fegurðarsamkeppni (sem ég nota bene hef enga  reynslu af). það eina sem ég gat hugsað var "ómægad" og "vá hvað ég bjóst ekki við þessu" og til að toppa þetta þá tók ég fyrir munninn eins og sætu stelpurnar upp'á sviði þegar þær fá kórónuna á hausinn. heppilegt að ég var stödd í smáralindinni með hálfri reykjavík þegar þetta átti sér stað. heppilegt með meiru, en mér leið bara eins og það væri einhver að setja kórónu á kollinn á mér. ég fékk nefnilega hæstu einkun og fannst ég hafa sigrað heiminn. (monti lokið). (sko ekki hæstu einkun á skalanum 1-10, heldur hæstu einkun sem gefin var fyrir BA ritgerðirnar - bara svo enginn misskilji neitt. einkunin hljóðaði upp á 9).

en yfir í annað gleðiefni og eiginlega ekki síðra, lóan er komin! ég, að sjálfsögðu, æpti upp yfir mig og lét öllum illum látum, kallaði mömmu út í garð og klappaði fyrir vorinu. sæluhrollur þessa árs er þannig yfirstaðinn. ég er með algjört blæti fyrir fyrsta lóukvakinu, sorrý með mig!

síðasta skemmtilega atriðið var sauðburðurinn sem ég fór í. ég heimsótti vinkonu mína um helgina, sem býr á bæ lengst inni í eyjafirði, og þar stóð sauðburður sem hæst. ég er ekki mikil sveitatútta (lesist: engin) og hef aldrei verið vitni að því þegar að rolla ber og því var þetta bara töluverður áfangi fyrir frauku litlu. ég mætti galvösk í leðurjakka og með sólgleraugu og spurði spurninga sem fékk bændurna til þess að rúlla augunum í marga hringi. ég rak upp gól, samhliða því að rollurnar gáfu frá sér einhverjar stunur, því ég vorkenndi þeim svo að fá enga mænudeyfingu (ekki það að ég viti hvernig það er að fæða). gerði allt sem ég gat til þess að skilja hvað var í gangi, hvenær lömb læra að ganga, hvaða hljóð komu frá hvaða dýr og svo varð ég náttúrlega að reyna að halda sönsum um leið. dýr hafa aldrei verið mér að skapi, þannig að ég var logandi hrædd á meðan á öllu havaríinu stóð. þegar klukkan sló kaffi var ég því dauðslifandi fegin að fá að skottast bara inn í stofu og fá mér kex og mjólk. ég er samt voða glöð yfir því að hafa geta farið í heimsókn og sérstaklega glöð að sjá hversu dugleg ábúendur eru!

en leðurjakkinn hefur vissulega munað sinn fífil fegurri...

Sunday, May 5, 2013

rómantík loðir lítið við okkur hjónaleysin og við förum afar sjaldan eitthvað fínt út að borða. (ekki það að rómans sé bara fólgin í því að úða í sig dýrum mat á vel skreyttum veitingastað, þvert á móti, en þið vitið hvað ég meina). við gerum okkur sem sagt sjaldan dagamun hvað þetta varðar, svona rétt á meðan fjárhagurinn er enn svolítið námsmannalegur og flatur. ég á því erfitt með að mæla með góðum veitingastöðum þegar gestir og gangandi spyrja mig og bendi því bara á subway og dominos. á þessu hefur orðið nú drastísk breyting! 

þannig er mál með vexti að vinna spúsa míns bauð okkur út að borða á dögunum, sem sárabætur af því að við komumst ekki með í endurmenntunarferðina til rómar. við fórum, ásamt fríðu föruneyti, á grillmarkaðinn og vorum  hreint ekki svikin. staðurinn er mjög flottur og skemmtilega innréttaður og maturinn enn betri, enda flest allt hráefni beint frá bónda. við prófuðum smakkseðilinn, sem samanstendur af 8 réttum (að mig minnir). meðal þess sem við fengum var djúpsteiktur harðfiskur (delish), andasalat, lamba t-bein og einhver sá allra besti eftirréttur sem ég hef smakkað. ég er náttúrlega alltaf hundrað sinnum spenntari fyrir eftirréttinum en nokkru öðru svo að það er kannski ekki alveg að marka mig, en þetta er samt sem áður lýsingin af matseðlinum: 
Súkkulaðikúla með rjómaostakremi, volgri karamellu og kaffiís. 
karamellusósunni var sko hellt yfir kúluna þannig að allt bráðnaði í dísætan djús. í alvöru, besta djús heims. það var heill hellingur í viðbót á eftirréttardiskinum en ég einblíndi svolítið á þessa dásemd. 
eftir þetta akfeita kvöld okkar get ég  hætt að benda bara á sjoppufæði og farið að beina fólki á þennan stað (nei ég er ekki á prósentu, ætti samt að vera það). 

Friday, May 3, 2013

hér þarf sko aldeilis að fara að grípa í taumana, því frá því að síðast var skrifað hefur heilmargt gerst. það er ekki vinnandi vegur að skrifa eitthvað sérstaklega ítarlega um alla þessa atburði (og hvað þá að lesa um þá) og því hef ég ákveðið að stikla bara aðeins á stóru í þessum efnum.

í fyrsta lagi!
kvennakórinn katla er með mörg járn í eldinum þessa dagana og því hafa æfingar verið stífar upp á síðkastið. bakaradóttirin gerði sitt besta þegar kom að því að leggja hönd á plóg hvað kaffimál varðar á stórri æfingu og bakaði laglegt heilsubrauð af því tilefni. sex tíma æfingar geta nefnilega tekið á og því þarf stórt hlaðborð! 
en fréttir af kötlunum felast ekki bara í æfingum, því á sumardaginn fyrsta héldum við litla sæta vortónleika. tvenna meira að segja. þeir heppnuðust eins vel og hugsast gat og það var glaður hópur kvenna sem skálaði í þjóðmenningarhúsinu um klukkan hálf tíu þetta sama kvöld. 
hægt er að sjá nokkur myndbönd af tónleikunum á facebook-síðu kórsins, hér! og það er líka hægt að læk'ana. (*hint*).

í öðru lagi!
mamma, frænka, systir (ávallt meidd) og móður komu í heimsókn og voru í borginni í nokkra daga. það voru fáar ónýttar mínútur á meðan á dvöl þeirra stóð. leikhúsferðir (í fleirtölu), kaffihúsaspjall, kaffi, verslunarleiðangrar og lúxus ber þar hæst á góma. svo var að sjálfsögðu mikið tíst og hlegið. ó, ef þessi fjölskylda ætti bara öll heima á sama stað... þá væri lífið næs!

í þriðja lagi!
ég er búin með BA námið. ég er þegar búin að fá út úr öllum prófum en á mánudaginn kemur bomban, einkun fyrir lokaritgerðina sjálfa. ég er einhvern veginn furðulega spennt og stressuð og mjög svo hrædd og veit ekki alveg hvernig ég á að halda út helgina. ætli ég supli ekki bara dugleg og reyni að róa taugarnar með því gamalreynda ráði? o sei sei.