Tuesday, January 29, 2013

ég tek svona smávægileg maníutímabil af og til. einu sinni ætlaði ég til dæmis að verða bítboxari og æfði mig stíft (sem betur fer bara í nokkra daga. það var bæði mjög erfitt að æfa og svo fékk ég hræðilegan hausverk af því). svo langaði mig að vera djúsgerðakona og gerði ekkert nema búa til einhverja drykki handa mér og sjonna. það gekk líka frekar hratt yfir, enda á ég enga djúsvél og sumt bara var ekki hægt að gera í blandara. eitthvað af drykkjunum endaði þess vegna ekki aaaalveg eins og þeir áttu að vera... en það er nú önnur saga. svo tók ég daga þar sem mig langaði að vera eins og stjörnurnar í hollywood og ég fór bara endalaust (okei, nokkur skipti) í pilates. þetta er svona svipað og þegar mig langaði að vera aktív og fit eins og svo margir og fór að reyna að hlaupa voða mikið í haust. það gekk heldur ekkert sérlega vel og ég gafst fljótlega upp á þeim bransa, enda leiðinlegra en allt!
nú hef ég startað nýrri maníu og það er súpugerð, sem er örugglega besta tímabilið hingað til. það er fljótlegt, ódýrt, auðvelt og gaman að gera súpur. þær heppnast líka allar voða vel, sko bragðlega séð, en ég þarf aðeins að æfa mig að láta þær líta betur út!
mér finnst líka svo gaman að gera súpur sem verða fallegar á litinn (ég reyndar elska súpur og hef alltaf gert!). ég ætla að gefa ykkur dæmi af því hvernig síðustu skammtar hafa verið. allt svo skært og fallegt.
hér má sjá paprikusúpu. hún var reyndar svona mesta brasið, af því að það þurfti að hita paprikurnar og leggja aðeins til hliðar, pilla svo húðin af (sem var BRAS) og voða kúnstir... en hún var voðalega skær og fín á litin!
brokkolísúpa var næst og ég var mest spennt yfir henni, bæði af því að ég var svo æst yfir því að sjá hvernig hún yrði á litinn og svo líka af því að mér finnst brokkolí fáranlega gott. hér má samt alveg bæta útfærsluna. ætlaði að skreyta með svona bitum, en þeir mega greinilega ekki vera risastórir því þá bara fara þeir á kaf. þetta allavega leit töluvert betur út á myndinni sem fylgdi uppskriftinni, enda bara svona stráð yfir. man það næst.
í gær gerði ég svo tómatsúpu með basilikku. NAMM! af þessum þremur fannst mér hún best, enda forfallin basilikkufíkill. þarna mátti ég líka aðeins vanda mig betur með skrautið, það kemur ekki vel út að kaffæra svona laufi í súpu... less is more, eða eitthvað þannig. 

eini mínusinn við þetta er að súpurnar virðast oftast vera í matinn á mánudögum, sem þýðir að ég kem alltaf lyktandi eins og laukur á kóræfingu. sollý!

ef þið lumið á djúsí uppskrift, sendiði mér!
sjáum svo hvað þetta tímabil endist. ef þið drollið við að deila uppskriftum þá gæti það verið um seinan. þá kannski er ég farin að hekla dúllur eða eitthvað.

Thursday, January 24, 2013

uuu, okei halló nútími sem ég á stundum svo ógeðslega erfitt með að sætta mig við. 
ég hef eina agnarsmáa spurningu...
hvenær varð það bara gert að meginreglu að hafa "ilm" í öllum tegundum dömubinda?! (sorrý viðkvæmir lesendur). en sko öllum, ekki bara litlum hluta af dömubindaframboðinu á íslandi. form, stærð, lögun, vængir, rakadrægni, merki... skiptir engu máli. öll dömubindi eru komin með lykt!

...

(nema kannski þessi eina tegund sem ég keypti í gær, en ég var líka heillengi að finna þau).

ef það er eitthvað sem ég vil ekki hafa í nærbuxunum mínum þegar að ég hef á klæðum þá er það sápu/blómailmur sem ég veit ekkert úr hverju er gerður eða hvað verður af honum. bara alls alls ekki!

um daginn sendi ég sigurjón í búðina til þess að kaupa þessar mánaðarlegu vörur og var ekki skemmt þegar hann kom heim með fullan poka af einhverju sem lyktaði eins og gólfsápa. þetta neyddist ég til þess að nota þar til ég gat skipt draslinu út fyrir lyktarlaust ladystuff. 

boðskapur: lesið vel á umbúðirnar á öllu því sem þið eruð að kaupa ykkur. nútíminn leynist alls staðar!
kveðja,
p.s. ég er ekki bara að skrifa þetta af því að ég er svo úrill, heldur til að hjálpa ykkur krakkar. hjálp til karlanna sem eru sendir út í búð svo þeir kaupi ekki vitlaust og fái þar með skammir í hattinn og hjálp til kvenna sem eruð á hraðferð og ætlið bara að grípa næsta pakka af dömubindum. ohh no no no!
svo er ég líka að vonast eftir starfi á bleikt.is ef ég verð með svona ráðleggingar öðru hvoru.

Wednesday, January 16, 2013

hvernig í ósköpunum stendur á því að það er alltaf jafn erfitt að byrja í skólanum? byrja á fyrsta verkefninu og bara taka sér tak! önnur vika er langt komin og ég hef ekki gert handtak. vissulega hef ég gert ótal margt hérna heima og drepið tímann með ýmsum athöfnum. dæmi: ég er búin að lesa 2 bækur (skáldsögur takið eftir, ekki neitt fyrir skólann). ég er búin að endurraða í svefnherberginu, henda út einum stól, tölvuborði og einhverju andskotans plastdrasli sem var undir stólnum svo hann myndi ekki skemma parketið. ég er búin að skúra veggina inni á baði (ha?) og svona til að kóróna þetta þá sló ég til og skráði mig í kór og fór á mína fyrstu æfingu á mánudaginn var. 

þetta  með kórinn er kannski frekar handahófskennt en helga frænka dró mig með sér, ekki nauðuga samt og ég var alveg allsgáð og þannig. en mikið sem ég er ánægð með það framtak hennar. ég er titrandi spennt yfir þessu öllu saman, sigurjóni til mikillar kátínu. það sem er merkilegast við þetta er samt að ég hef bara einu sinni verið í kór og mig minnir að það hafi staðið yfir í alveg örfáa daga. sko teljandi á fingrum annarrar handar fáa. (mamma, mannstu þetta?). það sem er líka svolítið spes við þessa ákvörðun mína er að ég kann ekkert að lesa nótur og því síður veit ég hvaða rödd ég syng. flestir myndu telja þetta fremur krúsjal atriði, en ég ætla bara að vona að þetta komi með tímanum og nótnalesturinn sé mér bara í blóð borinn! fullt af tónlistarfólki í ættinni og svona.

að sjálfsögðu er ég farin að velta því fyrir mér hvernig við komum til með að vera dressaðar á vortónleikunum (stay tuned!). strax komin með nokkrar þrusugóðar hugmyndir sem ég ætla að bera á borð svona þegar líða fer á önnina og ég er farin að kynnast öðrum meðlimum kórsins.
okei hér er þessi elegant týpa með hárskraut og allt í stíl. ofboðslega sæt en kannski fullt þungt og mikið svona fyrir tónleika sem haldnir eru til að fagna vori.
þessi virkar á mig sem léttur og þægilegur, ekki of heitt og heftir mann ekki á nokkurn hátt. liturinn er toppnæs en ég hef smá áhyggjur af sniðinu, klæðir ekki alla nógu vel og gerir mörgum engan greiða.
okei, þessar komu upp við leitina. ég sé ekkert kórlegt hér á ferð, meira bara svona þrjár vinkonur á leið á „prom“. þær virðast engu að síður mjög svo sáttar og glaðar þannig að kannski að ég hafi þessa hugmynd á lofti. flott líka að hafa svona regnbogaþema!
 að lokum datt svo svarið upp í hendurnar á mér, eins og með svo margt annað. hver vill ekki sjá flennistóran kvennakór með alla meðlimi klædda upp sem engla? ég bara spyr. 

Wednesday, January 9, 2013

síðasta önnin í ba náminu mínu er formlega hafin og ég sé loksins fyrir endann á þessu. námið hefur aldeilis dregist á langinn og á tímabili langaði mig helst að kasta þessu öllu út um gluggann og byrja í einhverju allt öðru, alveg frá grunni. en ég er fegin að ég gerði það ekki. mér finnst námið skemmtilegt og áhugavert og þetta er það sem ég vil gera, þó svo að það hafi kostað hálflukkaða ferð til danmerkur, tveggja ára pásu, mikla peninga og allt of fáar metnar einingar í háskóla íslands. ég verð að líta björtum augum á hlutina og áætla að ég hafi lært mikið af þessu flakki, meira en ef ég hefði bara farið hefðbundnu leiðina. 

á mánudaginn mætti ég sumsé spræk á fyrsta ba-ritgerðar-fundinn minn. eftir tímann var ég svo yfir mig buguð og stressuð að ég taldi fatakaup vera það eina rétta í stöðunni. stefnulaust arkaði ég búð úr búð í kringlunni og reyndi hvað ég gat að finna eitthvað til þess að gleðja mig. það mission reyndist erfiðara en það hljómar því ég er ekki mikil útsölumanneskja í eðli mínu. mér finnst oftast of mikið um að vera og fólksfjöldinn yfirþyrmandi, tónlistin finnst mér oftast allt of hávær og fötin svo mörg og hrúgurnar svo stórar að ég veit aldrei hvar ég á að byrja. útsölur eru held ég allt of kaotískar fyrir kassalaga persónur og reglupésa eins og mig.
það er þó alltaf gaman að ramba á góða hluti á spottprís og "spara" þannig nokkrar krónur og það var akkúrat það sem gerðist, lukkunnar pamfíll sem ég er.

þennan blazer/tuxedo jakka sá ég snemma í haust og tók andköf, mig langaði svo í hann. það voru 2 ástæður fyrir því að ég keypti hann alls ekki þá.
a) hann kostaði nærri 19 þúsund
b) ég hélt því statt og stöðugt fram að ég væri komin með leið á blazer jökkum (þrátt fyrir að hafa bara átt einn, sem var keyptur á slikk hjá rauða krossinum fyrir 8 árum), enda búnir að vera í tísku lengi og ég nennti ekki að fá mér þannig. 

í október sá ég svo skrattans jakkann aftur, þá á 15 þúsund. mátaði hann að sjálfsögðu aftur en þrjóskan tók völd og ég skildi hann bara eftir á slánni. en hvað haldiði? nú arka ég inn í kringluna í öngum mínum á mánudaginn var og er ekki gersemin á klikkaðri útsölu og falur fyrir nokkra þúsundkalla.
nú á ég þennan fína fína jakka með leðri og allt og "græddi" í rauninni fullt af pening! (reyndar hélt ég áfram að kaupa og fann pils, ekki á útsölu, og bók, ekki á útsölu, sem mér fannst nauðsynlegt að taka með mér heima líka. en það þarf ekkert að fylgja sögunni).

nú má bara fara að vora og hætta að rigna svo ég geti notað tuxedo-inn minn.
félagsráðgjafi í tuxedo, það er eitthvað.

Wednesday, January 2, 2013

ó þið þekkið mig. mér hafa alltaf þótt áramótin skemmtilegri en jólin, af ótalmörgum ástæðum. undanfarið hef ég samt verið að tengjast jólunum meira og meira. til að mynda þóttu mér jólaljósin í fyrsta sinn ekki ömurleg þetta árið - ég hlakkaði bara til að hengja þau upp og skoða í annarra manna glugga. vanalega hefur mér alltaf þótt þessar skreytingar frekar niðurdrepandi, sérstaklega ef þær eru blikkandi eða illa upp settar. ég held hreinlega að þetta sé þroskamerki (og að sólarupprásalampinn sem mamma gaf mér sé að virka og ég þess vegna ekki að væla yfir mig af þunglyndi).
en áramótin er alltaf skemmtileg! það er svo gaman að líta yfir farinn veg, rifja upp fyndin atvik og átakanleg, rýna í pólitík liðinna mánaða, skoða hvaða lög voru mest spiluð og kjósa alls konar fólk ársins. 

nú verður stokkið hratt yfir ár íbúa hússins á horninu. 
þar ber fyrst að nefna útskrift sigurjóns í lok janúar þar sem hann nældi sér í byggingafræðititilinn. kjartan litli var hjá okkur á lokasprettinum og sátu þeir félagar sveittir í stofunni að læra, nánast allan sólahringinn. að sjálfsögðu stóðu þeir sig báðir með stakri prýði!
í febrúar fórum við norður í árlegt þorrablót fjölskyldunnar. þar spila bræður mömmu og afi live músík og þykir þetta hin besta skemmtun og mikil veisla. eins og vera ber var líka dansað af mikilli innlifun.
seinna þennan sama mánuð gerðist svo undur og stórmerki, næstum því merkilegra en gráðan hans sjonna! FLÓKI MÆTTI Í HÚSIÐ Á HORNINU! sætari hvolp hef ég náttúrlega ekki hitt. sjá þennan dúllubangsa.
mars og apríl eru svo frekar ómerkilegir, fyrir utan það að foreldrar mínir eiga þá afmæli... en hvað um það. við eyddum páskunum í reykjavík og elduðum eitthvað innbakað rugl, mjög svo gott og settum hatt á flóka af því að hann er uppáhaldið okkar.
í maí fékk ég nóg af hárinu á mér og klippti á mig fermingjadrengjakolla. (vá hvað þetta ár er viðburðasnautt!)
í júní fóru svo hlutirnir að gerast og við skröltum af stað í fyrstu útilegu sumarsins. í góðra vina hópi héldum við að seljalandsfossi og tjölduðum þar í töluverðu roki en mikilli sól. daginn eftir fundum við svo góða laut í haukadal og láum þar eins og hrúgur í sólbaði. seinna sama mánuð átti sjonni afmæli, við fórum á ískalda þjórshátíð, héldum kosningavöku sem endaði í miðbænum þar sem þóra var kysst í bak og fyrir... hehemm...
júlí er minn mánuður því þá á ég afmæli (og ég eignaðist snjallsíma. jibbí og já það er sko eitthvað til að ræða). viktoría, arna dís og elías bökuðu fyrir mig afmælistertu og ég fékk að drekka úr afmælisglasi hjá þeim og svo héldum við á tónleika á miklatúni um kvöldið. frekar ljúft allt saman!
stóru hlutirnir gerðust síðar í júúúlííí.
yndislegu vinir mínir, kristín og ottó giftu sig og frúin var að sjálfsögðu gæsuð fyrir þann tíma. eins og við var að búast var veislan hin glæsilegasta. borðin svignuðu undan veitingum og víni og eftir miðnæti voru afar fá glös í notkun, en í staðin gengu flöskurnar á milli manna í risastórum danshring sem myndast hafði á gólfinu.
ágúst var reyndar fremur döll. töluvert um næturvaktir í vinnunni og því aðeins minna um gleði, glens, kaffi og grín með vinum. meira bara svona sof. ég reyndi samt að taka mig á og reyndi að fara reglulega út að hlaupa. eftir að ég náði 6 km. takmarki mínu þá hætti ég - fannst þetta allt of leiðinlegt og tímasóun þar að auki. fannst ég ekkert léttast eða líta betur út og enn síður fann ég mun á þolinu. síðan þá hef ég ekki hreyft mig, nema til að labba út á subway og kaupa mér mat. ég ætla að reyna að laga þetta á komandi ári (eins og alltaf). verð bara að finna mér hreyfingu sem ég hef gaman af - eftir að ég hætti í frjálsum þá hef ég ekkert fundið sem hentar mér!

venju samkvæmt hófst skólinn í september, flóka til mikillar mæðu. heimanám er ekki honum að skapi (frekar en mér svo sem) og gerði hann í því að vera uppáþrengjandi. þetta gekk þó allt eins og í sögu og enn sem komið er hafa einkunnirnar verið hinar ágætustu og flóki er enn sæll og glaður og á lífi.
ég fór líka í fyrsta sinn á októberfest í háskólanum og varð ekki fyrir vonbrigðum þar! blómfríður litla, eða erla rán, hélt á vit ævintýranna og fór til LA sem au pair. hún kom við í borginni til að kveðja stóru og gera hann ponsu meira abbó. það gekk alveg eftir bókinni og fraukan varð græn í framan þegar kom að kveðjustund.


í október og nóvember gerðist nú ekki margt merkilegt - ég vann töluvert mikið og sigurjón líka auk þess sem að mikið var um verkefni og skil í skólanum. nefið var því mest ofan í skruddum og ekki frá mörgu að segja.

í desember komu svo próf og allt það sem þeim fylgir. sigurjón byrkaði líka í nýrri vinnu á arkitektastofu í nágrenni við hraunteig. það er allt hið besta mál.
jólin voru í huggulegri kantinum þetta árið, haldin með góðum vinum og þann 29. fór ég norður í mömmu og pabbahús til að eyða áramótunum með fjölskyldunni. helga litla lucie var með og allt var brilliant þar til ég fékk magapest. hún er nú að líða hjá, 7 - 9 - 13. að sjálfsögðu var hattaþema á gamlárs og allir kátir. pabbi var í spánýrri jólarúllukragapeysu og hinu sígilda jólavesti sem amma prjónaði á hann. í ár náðum við að skrifa árið með stjörnuljósum (annað en í fyrra). því má þakka myndahæfileikum brósa míns.



gleðilegt ár til ykkar allra, kæru lesendur. megin gæfan fylgja ykkur og gleðin vera með í för. takk fyrir allt liðið, samveru, lestur, komment, faðmlög, huggun og pepp.
nýárskveðja,
dagný.