Sunday, February 26, 2012

aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi eignast hund. sko, aldrei! ég er nefninlega hrædd við dýr, ekki bara hunda, heldur bara dýr almennt. 
ástæða: þú veist aldrei hvað þau eru að hugsa! þau horfa á þig og það er ekkert hægt að lesa úr augunum á þeim. þau geta snappað hvenær sem er. þau geta verið geðsjúk alveg eins og við, nema það er ekkert sem heitir dýrageðlæknir. eru dýr greind andleg vanheil, eða kemur það bara í ljós þegar þau bíta hausinn af litlu barni? af hverju ættu þau ekki að bíta okkur, við erum ekki sami flokkur! þau bara stara á okkur og svo bíta þau... eða tryllast... eða hver veit! fattiði hvert ég er að fara með þetta..?
þetta er ástæðan fyrir því að ég er hrædd við ketti, hunda, hesta, rollur, páfagauka, slöngur, beljur og seeeemí hamstra (þeir geta alveg bitið líka).


en! hundar hafa verið ofarlega á óskalista sigurjóns síðastliðin fimm ár eða svo, mér til mikillar mæðu. ég var búin með allar afsakanir og neitanir í heiminum og sagði því já við hundi. (ástæða: við leigjun íbúð í fjölbýli, ég hélt að þetta færi aldrei í gegn! en að það var að sjálfsögðu ekkert mál).
mig langaði samt ekkert í hund. það er ekki góð lykt af þeim, þeir geta verið háværir og svo spilaði þetta með hræðsluna svolítið inn í líka.
en svo kom flóki til okkar og ég sver það, ég kem til með að falla í skólanum! ég get ekki hætt að atast í þessum aumingjans hvolpi, leika við hann og reyna að kenna honum nafnið sitt, kyssa hausinn hans og klóra honum á maganum. þegar hann er vakandi þá langar mig að leika við hann og þegar hann er sofandi þá langar mig að vekja hann. en ég tími því samt ekki alltaf, því hann liggur bara og sýgur á sér tunguna. 


getur einhver plís bankað í mig þegar þetta er orðið of mikið hundaæði, alveg þannig að enginn vill vera vinur minn lengur. ég veit að þetta er orðið ansi nálægt því... en annað er ekki hægt!



hvernig er í alvöru ekki hægt að tryllast yfir þessu dýri. mother of all that is pure and glad, hann er ekkert venjulega krúttlegur.


flóki fór svo í sína fyrstu langferð áðan (hringinn í kring um húsið) og það þurfti að halda á honum seinni hluta leiðarinnar. svona litlir fætur ráða ekki beint við mörg skref í einu. nú er flóki greyið rústir einar, smokraði sér undir teppi og ég held að hann stefni bara yfir móðuna miklu! ég allavega býst ekki við miklu frá honum fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudaginn.




ok. flókasögur búnar í bili! lofa.

Thursday, February 23, 2012

hjartans þakkir til þeirra sem hjálpuðu mér í stóra internetkrísu-málinu. þungu fargi af mér létt og ég get nú loksins skoðað facebook án þess að fríka út af skilningsleysi.
gleður mig mjög.

en það er margt sem gleður mig þessa dagana og þar ber sértaklega að nefna hvað daginn hefur tekið að lengja. mér hefur alltaf leiðst myrkrið og veturinn alveg óskaplega, alveg frá því að ég var krakki. ég gat bara ekki skilið allt þetta myrkur og fannst hundleiðinlegt að gera snjókarla sem sáust ekki! þegar ég var svona fimmtán fór svo vinkona mín að tala um hvað þetta væri notalegt, að sjá stjörnurnar og láta myrkrið faðma sig. en það faðmaði mig andskotann ekki neitt heldur fékk ég bara sjúka innilokunarkennd.
mér finnst erfitt að vakna í myrkri og sérstaklega þegar það birtir bara rétt í smá stund áður en það verður dimmt aftur. það eru alveg nokkrar vikur á ári þar sem ég er gegn eiginlega bara í svefni af því að ég næ varla að rifa augun. vá hvað ég er fegin að það tímabil sé búið! 


svo í gær, framan á fréttablaðinu, var geysilega hress mynd og textinn undir sagði að nú væri bjart frá kl. 9 og fram til að verða hálf7. það er mun meira en það var 1. febrúar - það birtir nefninlega helvíti hratt eftir að það byrjar á annað borð. voðalega sem það er geggjað!

ég get ekki beðið eftir vorinu og vondu lyktinni sem því fylgir. þá klæða enginn sig í samræmi við veður, því fólk er svo spennt og heldur að það sé sumar. máltíðirnar verða öðruvísi og flestar grillaðar. birtan nær fram á kvöld. skólarnir fara í frí og krakkar fara að kríta.
náiði því hversu mikið ég elska vor og sumar? og hversu miiiiiikið mér er í nöp við veturinn!

ég er sko með semí fiðring í tánum af tilhlökkun, enn djók.

Tuesday, February 21, 2012

nú er svo komið að ég þarf ykkar hjálp, kæru lesendur. 
málin standa þannig að ég er hætt að skilja helminginn af því sem ég sé á internetinu. ástæðurnar geta verið nokkrar; ég er ekki góð í slangri og þoli ekki ljóta íslensku. svo hefur tækni hefur aldrei verið mín sterkasta hlið, ég átti aldrei myspace, á ekki iphone og ég twitta  (heitir það twitta?) ekki og kann ekki á pinteres. það er sjaldan sem ég set svona "þettagerðistídag" mynd inn á facebook, örugglega af því að ég á ekki myndasíma.
já, ég veit heldur ekki hvað bluetooth er.


en svo við komum okkur að efninu.
ég hef undanfarið orðið vör við það að fólk setur myndir inn á facebook og skrifa undir þær setningar á borð við "elska ískalt kók" og svo er mynd af kóladós (þetta dæmi er uppspuni. ég vona að enginn sé að setja svona leiðinlegt stöff á netið). en svo vandast málin þegar ég les áfram og sé þetta merki hér #. þá stendur oft með myndinni #fíkill #bumbubaninnkominnífrí #laugardagsdekrið
fyrsta spurning til ykkar er því, hvað merkir #?


fyrir utan þetta þá er önnur tegund af myndum sem ég skil ekki. tökum annað dæmi. stúlka tekur mynd af vinkonu sinni með risastóran latté bolla. undir stendur @hrönn hatar ekki karamellukaffið. (þetta með "hatar ekki" er reyndar efni í annað blogg, en ég nenni því ekki núna. það er ekkert rangt við það að segja þetta, bara óskaplega mikið notað). 
spurning tvö er sem sagt, hvað þýðir það þegar @ er fyrir framan nafn. 


næsta spurning er meira málfræðilegs eðlis, en hún brennur engu að síður á mér.
þegar fólk segir "er að meta þetta" er það þá virkilega að meina að það ætli að taka sér smá tíma til að fara yfir stöðu mála, gera sér grein fyrir kostum þess sem um er rætt og leggja svo fram mat á málinu? eða er fólk bara að reyna að segja "ég kann að meta þetta" af því að það er þakklátt eða glatt?


ég eiginlega verð að fá svör við þessu svo ég geti haldið áfram að eyða tíma mínum á facebook. það fer alveg með mig að vita ekki hvað þetta allt er!
já og kannski eitt í viðbót þá. af hverju er fólk farið að sleppa úr orðum og skrifa bara "stundum að..." og svo endar setningin á t.d. vera góður, slappa af, sofa út eða hanga einn á lesstofunni. það vantar greinilega eitthvað í þessar setningar og ég skil ekkert af hverju þær þykja flottari svona en bara réttar?


spurning um að ég fari á tölvunámskeið eða reyni að fylgjast betur með öllu þessu nýstárlega  dóti sem er í boði í heiminum. eitt er víst, ég er laaaangt á eftir! (enn ein ástæðan fyrir því að ég þurfi að hætta í skólanum, til þess að hafa tíma til að halda í við heiminn). 
p.s. ef það eru málfars- og innsláttarvillur í mínum skrifum þá er það alveg óvart, ekki viljandi vitlaus íslenska. þannig að, ef þið sjáið svoleiðis þá þykir mér það leiðinlegt.

Wednesday, February 15, 2012

celebsökker, kafli 3.
það er svolítil kúnst hvernig ég vel celebvini mína. einhverra hluta vegna virðist þetta flest allt vera kvenkyns stjörnur, en ætli ég laðist ekki bara meira að þeim? viðkomandi þarf að vera geysilega sjarmerandi og fagur, annars tek ég ekkert eftir honum og gef mér alls ekki tíma í upplýsinga- og myndaöflun. þar að auki þarf litla sjarmatröllið að koma vel fram í viðtölum, því að eftir myndagúggl og leit að ævisögu fer ég iðulega inn á youtube og sé stjörnuna í fullu fjöri. það kemur oft óvart hve mismunandi niðurstöður sama persónan fær úr þessum 2 prófum hjá mér!
(dæmi: kim kardashian. hún var eiginlega bara í síðasta celebkafla af því að ég elska stóru systur hennar svo mikið og hinar tvær fylgdu bara svona í kjölfarið. kim er mjög snoppufríð og fékk góða einkunn í myndaprófinu, en féll svo algjörlega á youtube prófinu. þess vegna hefði hún aldrei komist á sykurloppuna bara ein síns liðs. aldrei!)

en í þetta sinn er stjarnan, rachel bilson.
ég varð fyrst skotin í henni í the o.c., af augljósum ástæðum: hún er sjúklega sjúklega fáránlega sæt! reyndar fannst mér hún alltaf svolítið undarlega nefnmælt og hélt á tímabili að hún væri bara illa kvefuð, en það er líklega ekki því hún er búin að vera svona í 9 ár. 
mamma hennar er kynlífsfræðingur og þá náttúrulega fannst mér hún enn meira spennandi og til að toppa þetta svo allt saman þá eru svín uppáhaldsdýrin hennar. hver í fjandanum velur sér svín sem uppáhaldsdýr! segja ekki bara allir annað hvort köttur eða hundur? mér fannst þetta allavega fyndið.
hún fékk líka b+ á youtube prófinu.
niðurstaða: við yrðum sjúklega góðar vinsur ef til þess kæmi.
þetta er myndin sem að á aðallega að sýna ykkur hvað hún er falleg. hún hefur þetta bara allt. sérstaklega þessi fínu brúnu augu.



 þessar þrjár myndir áttu að sýna hvað hún er smekkvís og klæðir sig fínt!

þess er með til að sýna ykkur hvað hún er fín í laginu stelpan. ef ég væri svona þá get ég lofað ykkur því að smekkvísi og fatastíll væri ekki það sem fólk væri að taka eftir því ég væri aldrei í fötum.


og að lokum til að benda á að rakel (hún elskar þegar ég kalla hana þetta) er líka ágæt í svarthvítu og er alls ekkert alltaf pen og prúð þó hún sé með stór möndlulaga augu!

prófiði bara að grafa upp gömlu o.c. eða horfa á hart of dixie. ég þori að veðja að allir verða skotnir í henni!


Tuesday, February 14, 2012

VARÚÐ! þessi skrif munu ekki koma til með að kæta þig. ef þú vilt halda í gleðina og valentínusarskapið þá ráðlegg ég þér að loka þessari síðu strax.
_____________________________________________


þegar fjórar klukkustundir voru liðnar af gærdeginum var ég komin með nóg af fólki. mig langaði bara heim að lesa bók og forðast samskipti í töluverðan tíma. 
þetta byrjaði þegar ég kveikti á útvarpinu hér heima, stuðið hélt áfram alla strætóferðina og var stanslaust í eyrunum á mér á meðan ég beið eftir því að tíminn í skólanum byrjaði. það eina sem hægt var að tala um virtist vera júróvisjón og kosningarnar á laugardaginn. (reyndar voru líka einhverjar stelpur að tala um heilsudrykki og hörfræ, en ég leiddi það hjá mér af því að ég veit ekki hvað það er og fylgdi því ekki samræðunum).


fólk er sem sagt alveg tryllt yfir því að lagið sem fer út hafi fengið 0,9% færri atkvæði en blár ópal, sem lenti í öðru sæti. vægi dómnefndar var í þetta sinn nefninlega helmingur á móti greiddum atkvæðum og vildu hún greiiinilega ekki fá þessa strákpjakka til að flytja unglingapopp þarna ytra (no worries, mér fannst ekkert um þetta lag frekar en önnur). 
en! hvernig var þetta aftur þegar silvía nótt fór út? þá var engin dómnefnd og því bara farið eftir atkvæðum sem bárust í gegnum síma (sem er það sem að fólk er að biðja um núna). og ef við rifjum nú aðeins upp hvernig það fór... jú! það varð allt brjálað. "af hverju er engin dómnefnd til að koma í veg fyrir svona vinsældarkosningar hjá unglingum" var setningin mánudaginn eftir júró það árið. 
sjáiði hvert ég er að fara með þetta..?
muniði líka þegar það var hvorki dómnefnd né kosnins, heldur valdi rúv bara hvaða lag átti að fara. æj, þá voru líka allir brjálaðir.


rilí krakkar. rilí?!


mín tillaga er sú að við sleppum þessu júrói í smá tíma og spörum okkur vesenið og vælið og nokkrar milljónir og reynum bara að halda okkur í þokkalegu skapi. koma okkur svo  smám saman upp úr mesta volæðinu og kreppunni. væri til dæmis ekki úr vegi að leggja peningana sem að fara í júróvisjón til menntamála. nú eða heilbrigðismála, svo að ekki þurfi að leggja niður líknardeildir hér og þar!
hægt væri að halda í söngvakeppni sjónvarpsins og því væri enn hægt að halda partý og fara á fyllirí, fyrir þá sem það vilja.


en fyrir alla muni, hættum nú að tala um þessar guðsvoluðu kosningar (já, ég er að gera það núna en það mun aldrei gerast aftur) og gefum næsta manni hjartakort í tilefni dagsins. 
við gætum hvort eð er aldrei haldið þessa keppni, en það er nú önnur ella.



Wednesday, February 8, 2012

síðan hvenær hafa íslendingar svona mikinn áhuga á super bowl?
aldrei hef ég horft á þetta (nema stundum rekist á skemmtiatriðin á youtube eða eitthvað) og ég varla veit um hvaða íþrótt er að ræða. í ár hins vegar virtust allir bara hafa poppað og keypt kók, sérstaklega til að eiga yfir super bowl..!
ef við ætlum að vera eins og kanarnir (sem við viljum alltaf meira og meira sýnist mér), þá finnst mér að við ættum að taka það alla leið. ég myndi koma og horfa á þennan íþróttaviðburð, fullorðna menn í slag, ef að innifalið væri stórgott teiti og þessi kaka!




það gæti alveg gerst. sjáiði bara halloween partýin sem urðu til fyrir 3 árum. þau eru orðin roooosaleg!

Thursday, February 2, 2012

ég hef komist að hræðilegum hlut, þetta er sko skelfingin ein...
allar þær myndir, sem eru annað hvort teknar að mér óaðvitandi eða það snögglega að ég næ ekki að setja upp sparibrosið (sem ég er reyndar enn að vinna í...) eru hryllilegar. ég er svo reið á svipinn og fúl að ef ég myndi mæta mér úti á götu þá færi ég að skæla! 
ég bretti brýnnar óspart en ekki í þeim tilgangi að lýsa vanþóknun á einhverju eða vera í fýlu, það er bara svona eins og hvíldarsvipurinn minn. þar að auki píri ég augun meira en góðu hófi gegnir, af því að ég sé ekki nógu vel og gleraugun eiga það ansi oft til að gleymast í húsinu á horninu. toppurinn minn gerir mig heldur ekki beint vingjarnlega.


nú eruði flest komin með ágæta mynd í kollinn af þessum ófögnuði, en ég ætla samt að koma hérna með ferskt og brakandi gott dæmi:



þetta er mynd sem er tekin úti í hrísey. þetta var yndislegur dagur og ég skemmti mér konunglega með móður minni og systur. ekki með nokkru móti get ég útskýrt það af hverju andlitið á mér er svona! þetta er ekki góður svipur og ég get sagt ykkur það að ég fótósjoppaði hrukkuna á milli augnanna af (sem sigurjón kallar andlitsrass) til þess að ég þyrfti ekki að segja aldurstakmark á loppuna, því fyrir fótósjopp er þessi mynd ekki öllum aldri bjóðandi. 
fyrir ykkur sem ekki vitið það þá er ég verðandi félagsráðgjafi og hefur mig alltaf langað að vinna með börnum... hvernig á það eftir að ganga?


"krakkar komiði til mín" segir konan sem er eins og svangur úlfur á svipinn.
æjh... ætli ég verði ekki bara að treysta á guð(?) og lukkuna.

Wednesday, February 1, 2012

eins og í flestu öðru koma tískubylgjur í bloggum. 
fyrst fór slatti af stelpum að setja inn svona outfit of the day myndir (ísl: klæðnaður dagsins) sem mér persónulega fannst virkilega skemmtilegar, en síðan þróuðust þær út í inspiration of the day (ísl: innblástur dagsins). þann flokk skildi ég hins vegar aldrei, því í mínum augum voru það bara random myndir sem ég gat ekki með nokkru móti tengt við venjulegan skóla-/vinnudag hjá fólki og hvað þá séð hvernig þær veittu höfundum innblástur. en það er líklega af því að ég er svo einföld sál. stuttu síðar komu do it yourself, eða DIY færslur, (ísl: gerðu það sjálfur, eða GÞS) þar sem að lesendum var kennt í einföldum og skýrum skrefum að föndra eitthvað ægilega fínt. ég hafði mjög gaman af þessu tímabili og reyndi hvað ég gat að föndra. það tókst nú samt sjaldnast. 


nú er svo komið að matur og uppskriftir eru geysivinsælt efni í bloggskrif. það finnst mér mjööög skemmtilegt og nýti mér það óspart. ég er að taka eitthvað smá lífstímabil þar sem eldamennska og bakstur á hug minn allan, frekar en sjónvarp og bækur. mér finnst snilldar gaman að grúska í eldhúsinu og bjóða í mat, eða bara baka smotterís brauð sem hægt er að narta í með súpum. ef ég hefði allan tíma í heiminum væri ég sem sagt í yfirþyngd og rúmlega það með krónískt subbulegt eldhús (þetta er ekki beint heimilisvænt hobbý þegar kokkurinn er fraukan). en þar sem þetta tímabil mitt er bara á byrjunarstigi og hæfileikarnir eftir því og þess vegna koma þessar matarfærslur sér feikivel!


stundum er samt fínt að henda bara í pakkapönnsur og vera með huggulegan helgarbröns. það þarf ekkert alltaf að vera fínt og flókið!




þrátt fyrir að ég taki lítinn þátt í þessu sveiflukennda vinsældarþema (sem aðallega má skýra með gríðarlegu þekkingarleysi og takmörkuðu magni af fötum) vil ég endilega biðja ykkur hin sem haldið úti bloggsíðum að feta áfram þessa braut. sérstaklega þessari með matinn!