Thursday, December 27, 2012

gleðilega hátíð kæru lesendur loppunnar. 
leti og tímaskortur (samt aðallega leti) hafa gert það að verkum að ég hef ekki gefið mér tíma fyrir nein skrif, hvorki hér né á jólakort. aldrei þessu vant sendum við bara örfá kort í ár, rétt til nánustu ættingja okkar beggja. vinirnir fengu að sitja á hakanum og fá bara kveðjur seinna eða hérna á rafrænu formi. mér leiðast reyndar internetkveðjur álíka mikið og mér leiðist pestin, en það verður bara að hafa það.

þessi segja því gleðileg jól til allra og óska ykkur farsældar á komandi ári.
við höfum haft það ósköp gott og notalegt síðustu daga. 
aðfangadagskvöldi eyddum við með yndislegum vinum. við átum á okkur gat og drukkum að sjálfsögðu gott vín með, reyndum að taka settlega jólamynd (sem tókst ekki*) og náðum ekki að brúna kartöflurnar fyrr en í 3. tilraun. ég gleymdi að setja á mig varalit og maskara og ískexin voru aldrei étin. en það kom alls ekki að sök því kvöldið var eins krúttlegt og það gat orðið. við horfðum þó hissa á hvert annað eftir að öllum gjöfum hafði verið komið undir tréð. okkur þótti magnið ekki alveg í takt við fjórar fullorðnar manneskjur!

*hér má sjá nítjándu, og jafnframt síðustu, tilraun okkar til að ná mynd af okkur öllum við tréð. hún verður að duga.
við lína erum samt sætar, sama hvað!

jóladagsmorgun var svo vinnudagur hjá fraukunni og kvöldinu var eytt í matarboði og spileríi. á tímabili sat mitt lið uppi með þessa hér stafi í skrabbúl. þó svo að þeir gefi ferlega mörg stig þá eru þeir ekki til neins svona allir í einu. kex í fleirtölu virkar ekki (köx) og það vantaði ð til að mynda orðið þæfð. annað var bara eitthvað rugl og ekkert gekk upp. 

en að máli málanna. þetta ofurkrúttaða besta-dýr-í-heimi er 1 árs í dag. þvílík endalaus lukka og hamingja að hafa rambað á þennan hund. og ég sem er bæði hrædd við hunda og líkar illa við þá. glæsilegt!




Sunday, December 9, 2012

ég sit á þjóðarbókhlöðunni og læri. er hérna tilneydd en annars læri ég alltaf heima hjá mér, finnst það á allan hátt mikið betra. þar get ég hlaupið á klósettið án þess að eiga það á hættu að einhver taki tölvuna mína (eða svo það gerist ekki dröslast með allt dótið á dolluna). heima get ég líka fengið mér að borða hvenær sem er og á meðan ég læri ef út í það fer. þegar ég er heima þá er ég ekki blá af kulda og með sultardropa eins og hér. heima er enginn sem sendir „djöfullskalégkýlaþig“ svipinn þegar ég hnerra. þar er heldur ekki jafn óbærileg þögn og er hér, þannig að hvert brak er eins og byssuhvellur.

...

þið náið þessu. mér finnst g.l.a.t.a.ð. að læra á bókhlöðunni.
en hér er ég í dag og stemningin er vægast sagt undarleg. próftíminn genginn í garð og allir greininlega með hlutina álíka mikið á hælunum og ég. strákurinn við hliðina á mér er til dæmis að bryðja á sér tennurnar og stelpan hinu megin við ganginn er annað hvort að gráta eða alveg að fara að gráta. ég er ekki með gleraugun á mér þannig að ég sé það ekki alveg nógu vel. 
það er líka það mikið af fólki hérna að eina borðið sem ég fann er eiginlega í forstofunni. sem betur fer á ég góða úlpu og ég tók ullarsokka með mér. 

þessi aðstaða og ömurlegheit gera það þó að verkum að ég er búin með stóran hluta af skýrslunni, sem ég hefði annars dólast með í allan dag í hitanum og góðærinu heima. því hef ég ákveðið að restin af próflestrinum skal fara fram úti í garði (já, það er skárra en hér. svo lengi sem engin er að senda mér svipi eða stela tölvunni). bara svona til að speed things up!

prófráð til ykkar kæru lesendur. út í garð og þið verðið enga stund að þessu!

Saturday, December 1, 2012

kannski smá farin að gleyma og trassa þetta blogg!
muniði í fyrra, þegar ég var í jólaprófunum?
já það er svipuð stemning hérna núna - samt ekki alveg svona akút ástand eins og þá. ég fór til dæmis í sturtu rétt áðan og hef enn ekki fengið frunsu, er þó með tvær bólur. 

í þetta sinn eru líka bara þrjú lokapróf og eitt stórt verkefni.
ég vinn reyndar töluvert á milli prófa, en það kemur ekki að sök. álagið er töluvert minna og lesturinn eftir því (og áhorf youtube myndbanda og þið vitið, alls konar stöff sem skiptir ekki máli).

tel niður í 17. desember því þá kemst ég í jólafrí. hér hefur ekki verið sett upp svo mikið sem einn jólaálfur og hvað þá eitthvað sem glitrar eða lýsir. ójólalegasta heimili í póstnúmeri 105 gjössovell. 


Monday, November 19, 2012

einhver sérstök ástæða fyrir því að ég á ekki þessa peysu haldiði?
væri samt brilliant ef ég myndi finna hana í svörtu. og svo enn meiri snilld ef ég gæti fengið svona slaufu fyrir flóka. hann á jú afmæli í kringum jól!



uppfærsla:
SLAUFAN ER FUNDIN!

Friday, November 9, 2012

hæ!
það er alveg tryllt að gera þessa dagana, svona eins og nóvember sæmir. áður en önnin byrjaði settist ég niður með sjálfri mér (eða nei, ég hugsaði þetta bara á meðan ég labbaði... en allavega) og ákvað að þetta misseri yrði ekki eins og öööll hin. þennan vetur ætlaði ég að vera toppnámsmaður og svitna dugnaði. þess vegna ætlaði ég sko að:
- læra á föstum tímum, alla daga, lengur ef ég var ekki að fara að vinna.
- mæta lesin á fyrirlestra, alltaf. 
- uuu... mæta í tíma, alltaf.
- sleppa því að vera í tímaþröng með verkefni og skila tíu mínútur í miðnætti, alltaf. 

að sjálfsögðu hefur ekkert af þessu staðist, nema þetta með mætinguna. (klapp á mitt bak frá mér). svo tók ég einhvern veginn ekki inn í formúluna, þegar ég átti þetta samtal við sjálfan mig í september, að 50% vinna er alveg frekar mikið með svona mörgum einingum. ég gæti ekki mætið lesin og verið með fasta námsklukkutíma í sólahringnum þó það væri milljón í boði (ó þetta minnir mig á að nú ætla ég að kaupa lottó!).

en staðan er að skána. ég er búin að skila verkefnum vikunnar og langt komin með annað. ég er búin að opna leslistann fyrir einn áfangann og sjá hvað það er sem ég á eftir að gera (!) (hefði hugsanlega ekki átt að gera það á annars ágætum föstudegi).
og síðast, en ekki síst, er ég búin að sækja um BA skrif. 5 ára grunnnámi mínu (sem er samt bara 3) fer senn að ljúka. og nei, þetta eru ekki ýkjur og nei ég er ekki að læra lækninn. ég bara byrjaði að læra í danmörku, fyrir mörgum árum. flutti svo heim og þurfti að taka pásu í 2 ár af því að kæró var að klára námið sitt úti og annirnar milli landa sköruðust og alls konar sjitt. og svo fékk ég bara 68 einingar metnar, af 120 sem ég var þegar búin með. samasem, 3 ára nám varð að milljón.

og það er að klárast! (eða sko, í júní á næsta ári).

Monday, October 22, 2012

ó hvað það er gott að eiga góða tónlist til þess að hlusta á þegar það dimmir orðið svona snemma og yfir manni hanga endalaus verkefni og ritgerðir. 
ásgeir trausti gerði náttúrlega allt tryllt þegar hann gaf út plötuna sína um daginn, skiljanlega. ég hlusta mikið á hann þegar ég er að bugast og langar að gráta aðeins (djóklaust þá græt ég voða mikið þegar ég er að skólabugast og set svona hugljúfa og rólega tónlist á. græt smá og svo er ég bara góð og get farið aftur að læra. there, i said it! svona hefur þetta alltaf verið, alla mína skólagöngu. oh ég er svo hörð af mér!).

tónlistin hans minnir mig á svo margt. hann hefur aldrei farið leynt með það sjálfur að bon iver er í miklu uppáhaldi hjá honum og innblásturinn er greinilegur. ég heyri það sérstaklega í lagi númer 5 - hljóða nótt. það er líka mjög gott grátlag ef út í það er farið. 
nokkur stef minna mig á sigur rós og rafhljóðin í hærra og að grafa sig í fönn eru svipuð þeim sem má heyra í eldgömlum hjaltalínlögum.

en fyrst og fremst er hann náttúrlega bara hann sjálfur og á algjörlega skilið alla þá athygli sem hann hefur fengið undanfarið. þvílíkur talent sem þessi strákur er! svo er plötuhulstrið líka fínt.




þetta er uppáhaldið mitt, án efa!

Monday, October 8, 2012

meistaramánuður er einhvern veginn ekki minn tebolli. bæði finnst mér nafnið fremur hallærislegt og þar að auki þykja mér markmið þátttakenda flest öll eins. það virðist því ekki þurfa frumlegheit og sjálfstæða hugsun til þess að fá titilinn meistari, ef allt er sem sýnist. það sem ég sé hvað mest af eru plön um að vakna fyrr, drekka minna (og jafnvel ekkert) áfengi og hreyfa sig meira. fyrir mér hljómar þetta nú bara eins og eitt stórt samviskubit sem fólki finnst það þurfa að saxa aðeins á. (svo held ég að þetta geri október bara leiðinlegri... og alla þreytta). 

ég ætla þó ekki alveg að henda þessu í flórinn (ó! þetta er nýr málsháttur sem ég bjó til rétt í þessu) og bæta því við að sum markmiðanna sem ég hef séð eru bara frekar flott. breytir því ekki að mér finnst þau bara eiga að tilheyra öllu árinu en ekki bara 1 mánuði af 12, en ég tek viljann fyrir verkið. til dæmis finnst mér bara fallegt þegar fólk setur sér það sem markmið að hringja oftar í ömmu sína og afa, vera jákvæðari eða duglegri að sýna vinum sínum hvað þeir eru manni dýrmætir. það er alveg kúl! ég er alveg að reyna að taka svona ákvarðanir líka, þó svo að ég nenni ekki að flokka það sérstaklega sem markmið októbermánaðar. 


þið fattið hvað ég er að fara, er það ekki..?

en nú ætla ég að koma með hugmynd fyrir alla, hvort sem að þeir eru að taka þátt í meistaraverkum næstu daga eða ekki.
mér finnst að allir ættu að taka þetta til sín og hafa sem hluta af komandi dögum. pæla aðeins, glugga og skoða til þess að vera tilbúin þann 20. október. 




og ef þú ert að hugsa núna að þú vitir ekkert um þetta og þetta komið þér ekki við, hættu því þá. þetta kemur þér við og það er auðvelt að kynna sér um hvað málið snýst!
þetta er stjórnarskráin - hún kemur öllum við.

að lokum. góðan október, meistarar sem og aðrir! 

Sunday, September 23, 2012

þrátt fyrir að eiga bestu fjölskyldu í heiminum og gommu af yndislegum vinum, þá finnst mér svo gott að vera ein og í friði að þið trúið því ekki.
ég tek reyndar svolítið dramatísk tímabil hvað þetta snertir og kannski ögn róttækari en meðaljóninn, en þá daga nenni ég engu, ekki einu sinni kaffihúsi og köku. þegar ég er í þeim gírnum þá vil ég bara frið, ullarsokka og bók og allt ónæði fer bara hreinlega í taugarnar á mér. sama hver á í hlut og hvað afþreyingin sem boðið er uppá inniheldur... ég er bara fúl á móti og nenni varla að svara viðkomandi!
mér finnst þetta reyndar pínulítið leiðinlegt, þá aðallega fyrir þá sem að lenda í því að reyna að draga mig út á meðan ég læt svona, en ég vil heldur ekki breyta þessu. einveran fer mér voðalega vel. fólk er líka farið að læra svolítið inn á þetta.
en eftir því sem tækninni fleygir fram þá er alltaf auðveldara og auðveldara að koma sér í samband við fólk og finna út hvar það er hverju sinni. þetta gjörsamlega fríkar mig út og ég finn að nútíminn tekur ekkert tillit til þessarar persónuleikaröskunar minnar. eins mikið og ég elska snjallsímann minn þá fer hann líka í taugarnar á mér. hann gerir það að verkum að það er alltaf hægt að ná á mér. hringja - sms - email - facebook... þetta er allt í tækinu sem er alltaf í vasanum mínum! dropinn sem fyllti mælinn kom svo í fyrradag þegar ég setti upp nýtt kerfi í honum. með þessu nýja kerfi kom forrit sem heitir „find my friends“ og það gerir akkúrat það sem nafnið gefur til kynna. þú einfaldlega skráir þig og þá er bara hægt að finna hvar þú ert, hvenær sem er! (það er kannski ástæðulaust að taka það fram, en ég skráði mig ekki!).
ég hef því hugsað mér að taka upp gömlu símavenjur mínar, pre iphone. það felst einfaldlega í því að vera ekki alltaf með símann á mér og jafnvel hafa hann á silent þegar ég nenni ekki að fá meldingu um leið og ég fæ einhvers konar skilaboð. ég bara kíki á símann þegar ég nenni að sjá þær.

þetta, kæru vinir, var update fyrir ykkur. ekki láta ykkur bregða ef ég svara ekki strax - ég hreinlega nenni því ekki. 

Monday, September 17, 2012

það er þrennt sem ég vil tala um.
1) hvaða vespuæði er að eiga sér stað hér á landi íss og elda?! þetta er algjör fásinna og mér finnst mjög gáleysislega farið með þetta mál (og þá á ég við hvað foreldrar virðast bara rjúka út í búð til þess að kaupa vespu fyrir baby). ástandi er farið að minna mig á danmörku, þegar við bjuggum í gettóinu. þar var ekkert ungmenni töff nema eiga vespu og einn góðan hníf! þið getið rétt ímyndað ykkur sturlunina sem stundur var þar í gangi. 

mér finnst þetta vespurugl sem sagt gjörsamlega ó.þ.o.l.a.n.d.i!
þær vespur sem ekki fara hraðar en 25 km/klst eru í raun flokkuð sem reiðhjól - ekkert aldurstakmark er á þær og má bara keyra þær á göngu- og hjólastígum en ekki á götunni (það ég best veit). 
af hverju ekki að gefa krakkanum bara hjól?! hafa þau ekki bara gott af hreyfingunni?

ég veit ekki hversu oft ég hef næstum því verið keyrð niður af brjáluðum og hormónatjúlluðum unglingum þegar ég og flóki erum á okkar daglegu morgungöngu. 
oftar en ekki eru þau mörg saman og við vitum það öll að lítið mál er að dútla við gripinn þannig að hann fari hraðar en 25 km/klst.
GEEZ LOUISE!

2) ykkur er óhætt að lesa áfram. mér er runnin reiðin og þessi liður er mun skemmtilegri en þessi fyrsti. ég fann nefnilega aðra nýja seríu til að horfa á og hún er enn betri en ben&kate. þessi heitir the new normal og er brilliant! 

3) í dag skutlaði ég svo litlunni á vit ævintýranna. hún er að fara til LA, þar sem hún kemur til með að dvelja fram að jólum. ég reyndi hvað ég gat að halda kúlinu og klappa henni bara á kollinn. pínu erfitt þar sem litlan stóð bara stjörf með tár í augunum og rauðar kinnar og ég að drepast úr afbrýðissemi.
mikið sem ég hlakka til að fá myndir og sögur og skyperúnt. og vonandi mynd af kardashian systrum. (djók. samt ekki).

Monday, September 10, 2012

engar áhyggjur - skólarútínan er alveg komin í lag. 
þetta get ég sagt með 100% vissu af því að sjónvarpið er farið að spila meiri sess í lífi mínu en það ætti að gera og er það meðvituð ákvörðun sem ég tek til þess að eyða sem minnstum tíma í lærdóm. basic!

í dag horfði ég á fyrsta þáttinn af þessari nýju seríu og varð ekki fyrir vonbrigðum. ben&kate og eitt stykki sjúklega krúttlegt barn í veseni og látum. mæli með því að þið skoðið þetta.
svo ég læri nú örugglega lítið á morgun líka þá er ég að fara í smá bæjarsnatt. aðalverkefnið er að ná í jón í lit. það er þessi fína síðbúna afmælisgjöf (ég er ömurleg kærasta og skilaði gjöfinni (helmingnum) frá sjonna og fékk mér svona í staðin) sem fer beint á myndaveginn. voða voða fínt.

Wednesday, September 5, 2012

fyrsti í skóla var á mánudaginn og það má með sanni segja að fraukan hafi ekki alveg verið til í slaginn. rétt fyrir strætódeadline stóð ég á miðju forstofugólfinu með allt niður um mig. ég hafði ekki hugmynd um hvar skólataskan mín var og þar að auki fattaði ég að ég átti ég ekki neitt strætókort. ég varð því að laumast í nýja sparibaukinn (sjá mynd + útskýringu neðar á síðu) til þess að geta nýtt mér almenningssamgöngurnar. um leið og ég hlammaði mér í sætið í vagninum fattaði ég að fréttablaðið var ekki með í för, en vanalega gríp ég það með og les það í vagninu.
skólarútínan sem sagt smávegis off þennan daginn en það dróg ekkert úr gleðinni. gleðinni sem fylgir því að komast í skólann og fá að borða í HÁMU! 
dálæti mitt á hámu og allt sem við henni kemur nær ekki nokkurri átt. mér finnst þetta sjúklega næs búlla og ég elska súpurnar. og smurðu brauðin. og salötin. og djúsana. og bústin. og fröllurnar sem er hægt að fá í prófum. er hægt að biðja um meira?! þetta er allt svooo gott.sökum þessarar áráttu minnar fékk ég fallega og snotra afmælisgjöf frá frænku minni sem auðveldar mér að halda utan um hámueyðsluna, sem oft er meiri en góðu hófi gegnir. ég kynni því hér með stolti - heimagerða hámubaukinn!


ég fer aftur í skólann á morgun og finn að það verður allt annað líf. ég lærði af mistökunum. nú á ég strætómiða, kem til með að muna eftir dagblaðinu og hef fundið skólabakpokann góða (hann var bara uppi í skáp, á sínum stað. í panikkinu á mánudaginn var ég bara of æst til að fatta það). allt þetta er mjög jákvætt. til að bæta enn frekar á gleðina keypti ég mér svo skólaskó í dag.  voðavoða fína gönguskó sem koma til með að halda tánum þurrum og hlýjum (hugsanlega í fyrsta sinn sem þetta dúó á við hjá mér. ég er oft með þurrar tær en samt kalt (túttur) og stundum eru þær votar en samt ekkert of kaldar (loðskórnir með gatinu á)). get ekki beðið eftir því að nota þá!
fyrir utan allt þetta góða, þá eru fleiri hlutir sem benda til þess að ég sé tilbúinn í skólann. hin árlega "þaðerkominnseptember" frunsa mætti á svæðið í nótt. svæðið sitt* - hún kemur alltaf á sama stað og hún kom sko með látum. í gærkvöldi var ég bara með smá ónot en í morgun fann ég ekki fyrir vörinni. frunsan nær frá gómi og yfir alla vörina. það er mér líklega ekki til happs að vera frekar varastór þegar september gengur í garð. eins og staðan er núna er hún enn að stækka og mér er virkilega illt. skil ekki hvernig það getur endalaust bæst við hana þarna neðst.
mikið hlakka ég til þegar hún fer að verða að sári og gróa (NOT!).

...

fór og tók mynd og ákvað bara að sýna ykkur hana! finnst hún svo sjarmerandi stundvís alltaf.
*spurning til ykkar sem hafið eitthvað vit á svona. ég fékk fyrst frunsu fyrir tæpum sex árum síðan, þá mætti hún spræk á gamlárs akkúrat fyrir miðju á neðri vörina. síðan þá kemur hún reglulega og bara þar. er það alveg eðlileg? ég hef aldrei fengið svo mikið sem hint af frunsu á efri vörina (7-9-13). svör óskast.
jæja nóg af hangsi. ég ætla að kaupa mér ís - aðallega til þess að kæra vörina (eða svona... þið vitið).

Tuesday, September 4, 2012

eitt, tvö, þrjú - það varst þú!
lífið er nákvæmlega þannig, eins ógnvekjandi og það er. 
þótt skammarlegt sé að segja frá því þá er það ekki oft sem að ég tek þátt í fjöldasöfnun eða fjáröflunarátaki af einhverjum toga. ég veit ekkert af hverju, en vonandi lagast það samhliða því sem ég viðurkenni slugsháttinn og innkoma heimilissins eykst. 

þessi auglýsing gerði það þó að verkum að ég rauk út í hagkaup og keypti mér gloss. hún gjörsamlega tók mig heljartökum og mjúka litla röddin í lokin gerði útslagið. ég hvet ykkur til þess að gera slíkt hið sama. í ár er safnað fyrir börnum sem eru með sjaldgæfa, alvarlega og ólæknandi sjúkdóma.  

það er þó ekki bara hægt að leggja hönd á plóg með því að kaupa sér varagloss. nú eru líka til sölu snuð (sem eru þó í takmörkuðu magni) og svo er auðvitað alltaf hægt að leggja inn á reikninginn þeirra. allar upplýsingar er hægt að finna á http://www.aallravorum.is/


margt smátt gerir eitt stórt.
ætli ég þurfi ekki að læra að nota gloss eftir þetta. maður á ekkert dior sem bara hangir ofaní skúffu!

Friday, August 31, 2012

PAYDAY!

voðalega óskaplega sem það er alltaf upplífgandi og fínt að fá útborgað. gerir mig harvey-specter-glaða (já, það er nýi frasinn minn og já, hugsanlega er ég með þessa þætti á heilanum).
af þessu tilefni ætla ég að koma með 4. kafla af celebsökkernum. í dag er það fyrirsætan, runway módelið, örleikkonan og undirfatahönnuðurinn (?) rosie huntington-whiteley sem ég skoða hvað mest. hún trónir nú á toppnum á "uppáhaldsmódelin mín" listanum eftir að erin wasson hrapaði niður um sæti, sælla minninga.
en þó svo rosie mín falli ekki beint undir staðalímynd breskra kvenna þá er hún frá englandi, fædd árið 1987 og hefur gert svona skrambi margt. ég er sko ári eldri en hún og hef ekki einu sinni náð að klára BA námið mitt.
 ojæja.
hún kemur voðalega vel fyrir í viðtölum, virðist vera þokkalega jarðbundin og róleg. reyndar finnst mér leikaratilraun hennar hafa verið feilspor, en af því að hún fékk toppeinkun í bæði youtube-, upplýsinga- og myndaprófinu (sem þarf til að komast í celebsökkerinn) þá sleppur það nú til. 
hérna er hún lítil og svona voða snotur.
hér er hún unglingur og orðinn enn snotrari ef eitthvað er.
hér er hún að reyna að gretta sig og vera kjánaleg, en það tekst ekki af því að hún er bara of falleg.
voðalega glöð með flúr sem mig langar að stela. einfalt og fallegt, og á rosalega fínum stað.
á leiðinni í hagkaup og samt svona fííín! eðlilegt.
haha - pylsuhundarnir hennar tveir. þeir eru svo asnalegir að ég varð að setja mynd af þeim með.
rosie huntington-whiteley. naaaaamm!


eftir að hafa skoðað hana töluvert held ég að ég geti sagt að hún sé fallegasta stelpa, fædd árið 1987 (aðeins að þrengja þetta), í heiminum.

Thursday, August 30, 2012

þetta er gömul tugga og árleg umræða, en ég ætla engu að síður að taka hana upp hér. 
ég trúi því ekki að sumarið sé á enda. ég skil ekki hvernig tíminn getur liðið svona hratt! mér fannst ég finna fyrstu graslyktina í síðustu viku og nú heyri ég tala um „síðustu tónleika sumarsins“ í útvarpinu. vooooðalegt!
í morgun voru svo 5° þegar ég fór út með flókann og það var alveg nístandi kuldi í loftinu. meira að segja á meðan ég hljóp (og þá á manni nú að vera töluvert heitt, ekki satt). svo heyrði ég í búðinni af einhverju sem neyddist til að skafa framrúðuna á bílnum sínum áður en sá hinn sami hélt af stað til vinnu. 
ég legg ekki meira á ykkur!

mig langar því voðalega að hlaupa út í næstu búð og kaupa mér þykka og góða kaðlapeysu. helst stærri en ég þarf svo ég geti hnoðast í henni á alla kanta.
hugmyndir:




nammnamm! ég á eftir að taka þennan vetur í nefið!

Tuesday, August 28, 2012

fyrir nokkrum dögum helltist yfir mig furðulega mikil vetrartilfinning, alveg þannig að hausinn á mér hélt virkilega að það væri desember! myrkrið fór beint inn í bein og ég skildi vel af hverju allir virtust vera svona skammdegisþreyttir (sem var alls ekki raunin, ég held að fólk hafi bara verið hresst og ég bara svona dramatísk. eins og svo oft áður). svo datt ég allt í einu aftur inn í ágúst. fríííkííí!
fyrsti skóladagurinn fer svo að bresta á og ég er að vinna í því að gíra hausinn upp. það felst meðal annars í því að hætta að horfa á youtube myndbönd og lesa skáldsögur daginn út og inn, en reyna í staðinn að finna efni í BA ritgerð. það gengur því miður ekki nógu vel og ég er smá að fríka út. hvernig fer fólk að þessu? af hverju er engin svona BA-skrif-þjónusta útí bæ?

það sem hins vegar róar mig í þessu BA-panikki mínu (sem er samt enn bara vægt, þannig að þið skuluð bara vara ykkur) eru þessi dásamlegu atriði.

a) ARION APPIÐ. það er sjúk snilld (þetta er ekki kaldhæðni). sem og auðvitað snjallsíminn minn, en það er nú svo augljóst að ég eyði ekki einu sinni tíma í það. það sem ég er orðin tæknivædd... jæja!
rjómaostur með hvítlauk. ég vildi að það væri til sjeik úr þessu.
brauð með svona og ólífum og basil og tómötum er bara eins og himnasending.
þessir þættir, sem ég var að uppgvöta. tók mig ekki langan tíma að fara í gegnum fyrstu seríuna og verða ógeðslega skotin í harvey (þessum til hægri). hann er ekkert dauðsætur í þáttunum en það er samt eitthvað við hann. voðalega mikið. þetta er maður með allt á hreinu (og hann er alltaf í suit!) og hann er alveg sætur.
hún leikur líka í þessum þáttum. sjáiði þetta andlit! um leið og ég panikka yfir lokaritgerðarskrifum þá bara skoða ég þetta fína fína andlit. sjá'ana!

æ flóki vill leika! 
bæ.

Monday, August 20, 2012

þetta eldlínutal og lof um reglulegar uppfærslur var kannski orðum ofaukið. hér er að minnsta kosti frekar lítið að gerast.
þrátt fyrir það hafa sex snjallsímaæfingar hafa bæst við frá síðustu skrifum og bæði fraukan og hundur eru farin að finna á sér örlítinn mun. samt aðallega hundurinn, mér finnst þetta enn mjög erfitt og gleðin er því miður frekar takmörkuð! það sem heldur mér gangandi er hressa röddin í eyrunum á mér sem segir mér hvað ég á að gera. sérstaklega gleður það mig þegar hún segir mér að æfingunni sé lokið. 
þetta fer þó allt skánandi og hef þrátt fyrir allt staðið mig að verki við það að hlakka til útihlaupsins. það er skref í rétta átt!
bráðum á mér eftir að finnast þetta gaman, svona þegar þetta fer að verða alvöru áskorun með tímatöku og fíneríi. ég kvíði því þó að sama skapi þegar æfingarnar fara að þyngjast og þegar það hugsanlega  kemur að því að ég ráði ekki við verkefnið. púha.

svo ætla ég að taka til baka síðustu hlaupamynd. ég er EKKERT eins og stelpan á þeirri mynd. hins vegar fann ég aðra sem minnir meira á mig.

Wednesday, August 8, 2012

í ljósi mikillar pressu lesenda eftir síðustu skrif (sjá kommentakerfi á færslunni hér að neðan) hef ég ákveðið að segja ykkur fyrstu hlaupafréttir. ég hef einnig velt því fyrir mér að endurnefna bloggið og gefa því titillinn eldlínan, svona af því að hér gerast hlutirnir hratt og þið komið til með að fá mjög reglulegar hlaupauppfærslur, en ég ætla að sofa aðeins á því.

en svo við snúum okkur aftur að þessu með hlaupið.

tvær æfingar búnar og ég er alveg að gefast upp þetta er svo leiðinlegt.
sú fyrri var án snjallsímaforrits en með hundi (í sínu fyrsta trimmi). ég hljóp, móð og másandi, eins langt og ég gat en gekk reyndar aðeins inn á milli. ástæðurnar voru tvær: flóki var alltaf að létta á sér og ég var að kafna. mér fannst ég samt sem áður vera á góðum spretti en sá fljótlega að það stóðst ekki þar sem að hvolpsgreyið við hliðina á mér náði að vera samferða mér með því einu að ganga rösklega. hann þurfti ekki einu sinni að hlaupa og lappirnar á honum eru svona 30 sentímetrar (reyndar fjórar en ekki tvær eins og mínar, en það gildir einu). 
fljótlega neyddist ég til þess að fara bara heim á leið, þar sem ég var komin í andnauð. þar gerði ég fimm armbeygjur við mikil mótmæli hunds. hann skildi ekkert hvað gekk á enda aldrei á sinni ævi séð slíkar æfingar!

eftir afrekið og mont við sigurjón ákvað ég nú að kanna hvað spottinn hefði verið langur. í hjarta mínu var ég viss, þetta voru pottþétt svona 3 kílómetrar. 
í stuttu máli sagt skal ég ekki treysta á hjartað þegar kemur að vegalendum þar sem að túrinn mældist aðeins 1400 metrar.
og ég svona þreytt.
góð byrjun! (NOT!)

í gær fórum við hins vegar í fyrsta snjallsímahlaupið. það munar miklu að vera með þjálfara í eyrunum og fá bara skipanir með jöfnu millibili. ég hljóp mun lengra (eins og það sé afrek) og var aðeins bjartsýnni en eftir fyrri ferð. 
nú hefur markmið verið sett á blað og ég ætla mér að ná að fara 10 kílómetra. (ég man ekki alveg hvaða tímaramma við sigurjón settum á þetta - það kemur seinna).

eins og pabbi segir - hálfnað verk þá hafið er!

Wednesday, August 1, 2012

oh það er svo margt sem ég þrái að eignast og gera. kræst.


mig langar svo að kaupa mér íbúð!
og þegar ég er búin að kaupa mér íbúð langar mig í svo margt fallegt í hana... til dæmis þetta ljós. þyrfti reyndar sérlega rúmgóða stofu með hátt til lofts, en ég læt bara sjonna smíða húsið og það vesen er þá úr sögunni. með því að fara þá leið get ég líka pantað walk in closet. (nei, þetta er ekki óraunhæft og frekjulegt tal).
mig langar líka óskaplega í akkúrat þetta gallavesti. með akkúrat þessum hauskúpum á.
reyndar langar mig líka að vera eins og stelpan sem klæðist vestinu... af augljósum ástæðum!
eins og staðan er í dag eigum við eins síma OG eins sófa þannig að ég er á réttri leið. þarf bara að fara í síló, safna hári, hætta að borða og láta lengja á mér leggina, búa til tískublogg, verða fræg og láta senda mér alls konar fína skó og föt og þá er þetta bara komið! 
skil ekki hvað ég er að væla stundum. hálfnað verk þá hafið er eins pabbi segir alltaf.

nú - þegar þetta allt er svo komið í hús (þetta nýja sem ég ætla að láta sigurjón teikna og gera) þá langar mig að panta mér sólarlandaferð með vinkonum mínum og liggja á ströndinni og lesa bók allann daginn (og kannski vera með kokteil við hliðina á mér).

en fyrst langar mig að komast í gott form. 
fyrsta skrefið er komið. ég hætti að borða óhollt í 3 vikur (sprakk þá og grét mig í svefn) en hef ákveðið að reyna að koma mataræðinu í eitthvað jafnvægi. sá það einn daginn, þegar klukkan var að ganga sex, að ég hafði ekkert borðað nema nammi, snakk og kók frá því að ég vaknaði. þá fékk ég nóg af sjálfri mér! (sérstaklega þar sem þessi dagur var ekkert einsdæmi).
en mig langar líka að reyna að hlaupa. það er það allra leiðinlegasta sem ég geri og ég hef ekki dropa af áhuga, en mig langar. til þess ákvað ég að nota nýju símagræjuna mína og ná mér í app (er ekki til eitthvað fallegra orð. snjallsímaforrit?) sem ég las mér til um fyrir nokkru. hvort það kemur til með að virka er þó ekki gott að segja. 

hér með hef ég ákveðið að segja ykkur bara hvort það tekst eða ekki. getur iphone látið mig hlaupa? (lengra en út í pylsuvagn). verð ég svona í laugardalnum í lok sumars? oojá krakkar. það held ég nú!

Tuesday, July 24, 2012

ég er hér!
sumarið er bara ekkert sérstaklega bloggvænn tími, þið fyrirgefið.
margt hefur þó gerst á þessum dögum sem hafa liðið frá síðustu skrifum, en svo sem ekkert stórvægilegt. merkilegast er samt að sjálfsögðu afmæli fraukunnar! loksins orðin tuttuguogsexý.
fyrirhugaðri afmælisútilegu okkar hjónaleysa var þó frestað, bæði vegna veðurs en einnig spilaði svæsið ofnæmi þar stórt hlutverk. þar að auki föttuðum við sigurjón hversu tjúllaðslega kjút og skemmtilega vini við eigum í borginni og ákváðum við því að fara hvergi og njóta helgarinnar með hópnum. ég fékk  afmælismat, drykk úr afmælisglasi og rosalegustu afmælissúkkulaðiköku seinni ára. hún smakkaðist jafn vel og hún lítur út fyrir að gera! (því miður var ég samt ekki klædd í þetta gamla afmælisdress mitt). 
gaf sjálfri mér að sjálfsögðu afmælisgjöf og í þetta skiptið uppfærði ég símagírinn. ógeðslega er ég montin. hólímól.
stiklað á stóru og ég ætla að láta myndirnar tala sínu máli!
fór á útitónleika í hljómskálagarðinum. 
fór norður á akureyri.
gæsaði þennan snilling!
drakk mojito í heitum potti.
skrifaði aumingjalegasta kort í heiminum. 
 hélt austur í sveitina til tengdó og var þar handlangari smiðsins.
á meðan flóki hljóp frjáls um túnin, át skít, mýs og gras. eins og gefur að skilja liggur hann í þunglyndi eftir að við komum aftur heim. greyið.