Wednesday, April 17, 2013

vor í gær, vetur í dag.
veðrið er jafn óútreiknanlegt og sveiflukennt og skap fraukunnar (aumingja sigurjón og hans ört fjölgandi gráu hárum).

nú er það helst í fréttum að öllum verkefnum annarinnar er lokið, með naumindum þó. ég byrjaði á því að skila inn vitlausu eintaki af BA ritgerðinni. það var samt alls alls ekki mér að kenna, en því var bjargað fyrir rest. nokkrum mínútum (ekki grín) áður en að prófdómararnir hittust var ég að skjögra inn í háskólann með síðustu eintökin mín. rétt eintök í það skiptið. hasarinn var svo mikill að það kæmi mér ekki á óvart ef ég hefði bara fyrir rælni skilað inn símaskránni en það verður bara að fá að koma í ljós.
ástandið var lítið skárra á mánudaginn var, en kortér í skil reyndi hópurinn minn að tjösna saman bæði kaflaheitum og heimildum í ritgerðina sem að skila átti fyrir miðnætti. 23:58 opnuðum við uglu og stutt seinni fór ritgerðin á sinn stað. enn í dag hefur engin okkar þorað að skoða hvernig í skrattanum þessi ritgerð leit út þegar þarna var komið. það verður líka bara að koma í ljós. 

margt sem þarf að koma í ljós.

nú er ég bara að hanga. hangi allan daginn og finn mér uppskriftir sem ég ætla að prófa að baka, les bækur, naglalakka mig og gef föt í rauðakross gáma. í gær gekk þetta meira að segja það langt að ég tók vorhreingerningu í eldhúsinu. allt var skrúbbað og skúrað og pússað. veit ekki alveg tilganginn með því, hundleiðinlegt verkefni, sem ég kom mér í algjörlega í sjálf. en það er búið og þarf alls ekkert að koma í ljós eins og allt hitt.

Wednesday, April 10, 2013

hvað haldiði..? ég er loksins farin að sjá fyrir endann á þessu ba-námi. það hlaut að koma að þessu, því vissulega byrjaði ég haustið 2008! síðan þá hef ég reyndar flutt á milli landa og þurft að taka mér óhjákvæmilega pásu, en það skiptir ekki máli. nú er þetta allt í áttina.

í dag skilaði ég sumsé inn lokaverkefninu og á nú aðeins eftir að skila 2 litlum ritgerðum á þessari önn. svo fer ég, í fyrsta sinn á ævinni held ég bara, í aðeins eitt agnarsmátt lokapróf! formlega líkur því þessari önn 24. apríl! og þá er ekki einu sinni komið vor. aldrei hef ég lent í öðru eins. vinnuveitandi minn hélt líka að hefði dottið á höfuðið þegar ég sagði henni frá því hversu snemma ég væri búin í skólanum, en þetta er víst enginn lygi. sumardaginn fyrsta verð ég bara formlega komin í sumar"frí". og hananú.
þessu var að sjálfsögðu fagnað í dag, með tvennum hætti. 
fyrripartsgjöfin.
 síðdegisgjöfin (samt alveg eftir klukkan fjögur sko).
hef aldrei skilað svona settlegri ritgerð áður! þetta eintak fær því að dúsa í húsinu á horninu en ekki í höndum prófdómara í háskóla íslands. maður verður að eiga svona flottheitt, afþvíbara.
svo eyddi ég kvöldinu með þessum bjálfa, sem sá hest í sjónvarpinu og gat ekki með nokkru móti áttað sig á því hvað væri í gangi og í hvern fótinn hann ætti að stíga (enda með fjórar fætur, svo það er nú um eitt og annað að ræða).

Wednesday, April 3, 2013

ó hæ!
það mætti halda að ég væri námsmaður, upptekin við að gera verkefni og lokaritgerð og því með bloggið neðarlega á forgangslistanum mínum. engar áhyggjur, það er ekki raunin. vissulega er ég námsmaður mað hundrað verkefni á herðunum en það er ekki ástæða bloggleysis. eina afsökunin sem ég hef fyrir mér í þeim efnum er leti (og internetlausir páskar). ég er svo löt að það nær ekki nokkurri átt. þessi verkefni hrúgast til að mynda bara upp og ekkert gerist!

en nóg um það! ýmislegt hefur á daga mína drifið. þessir páskar til dæmis, þeir voru nú eitthvað. 

við fórum í bústað með krúttlegu kompaníi og átum á okkur gat. eiginlega gerðum við ekkert annað en að úða í okkur einhverju rugli. og fara í pottinn, lesa og spila smá. annars ekkert nema át!
mörgum vikum fyrir brottför hófust umræðurnar um matseðilinn og þær hættu ekkert fyrr en á heimleið, svei mér þá. það var kjöt í öll mál og páskabjór á milli. sigurjón afrekaði það meira að segja einn daginn að vera búin að sporðrenna fjórum máltíðum, sem allar samanstóðu af kjöti, fyrir klukkan eitt. að degi til! það hlýtur bara að vera einhvers konar met, því ofan á allt saman vaknaði maðurinn klukkann ellefu. hangikjöt, pylsa, brauð með lambalæri ofan á (næstum því heilu læri sko) og club sandwich. fyrir flesta er þetta nú bara einn og hálfur dagur af næringu!
jæja, nóg um það. ég sýni ykkur bara myndir.


við keyptum allavega nóg af mat. þetta er bara frá okkur sigurjóni, við þetta bættist töluvert af fæði. hvort við höfum efni á restinni af apríl, húsaleigu og bensíni verður þó að liggja milli hluta.
 fimm sekúndum eftir komu var þetta ástandið.
það er nú alveg hægt að halda upp á hátíðisdaga þó maður sé hundur. út í móa með akfeitt bein.
 ekki svo óalgeng sjón, þessar dúkkur stóðu sig vel.
  það var eitthvað mjög einkennilegt við þessa bókakápu.
hundur og húsbóndi elda.
 MORGUNMATUR!
þetta var hápunktur ferðarinnar. grínlaust þá urðum við blá í framan af hlátri, gáfum hvort öðru fimmu og ræddum næstu skref þessa brandara í þaula. 
ugh, nú langar mig aftur!
í staðin ætla ég samt bara að lesa ritgerðina yfir í síðasta sinn, senda hana í lestur og henda mér í koju. hananú!

ó já. málsháttur!