Friday, August 31, 2012

PAYDAY!

voðalega óskaplega sem það er alltaf upplífgandi og fínt að fá útborgað. gerir mig harvey-specter-glaða (já, það er nýi frasinn minn og já, hugsanlega er ég með þessa þætti á heilanum).
af þessu tilefni ætla ég að koma með 4. kafla af celebsökkernum. í dag er það fyrirsætan, runway módelið, örleikkonan og undirfatahönnuðurinn (?) rosie huntington-whiteley sem ég skoða hvað mest. hún trónir nú á toppnum á "uppáhaldsmódelin mín" listanum eftir að erin wasson hrapaði niður um sæti, sælla minninga.
en þó svo rosie mín falli ekki beint undir staðalímynd breskra kvenna þá er hún frá englandi, fædd árið 1987 og hefur gert svona skrambi margt. ég er sko ári eldri en hún og hef ekki einu sinni náð að klára BA námið mitt.
 ojæja.
hún kemur voðalega vel fyrir í viðtölum, virðist vera þokkalega jarðbundin og róleg. reyndar finnst mér leikaratilraun hennar hafa verið feilspor, en af því að hún fékk toppeinkun í bæði youtube-, upplýsinga- og myndaprófinu (sem þarf til að komast í celebsökkerinn) þá sleppur það nú til. 
hérna er hún lítil og svona voða snotur.
hér er hún unglingur og orðinn enn snotrari ef eitthvað er.
hér er hún að reyna að gretta sig og vera kjánaleg, en það tekst ekki af því að hún er bara of falleg.
voðalega glöð með flúr sem mig langar að stela. einfalt og fallegt, og á rosalega fínum stað.
á leiðinni í hagkaup og samt svona fííín! eðlilegt.
haha - pylsuhundarnir hennar tveir. þeir eru svo asnalegir að ég varð að setja mynd af þeim með.
rosie huntington-whiteley. naaaaamm!


eftir að hafa skoðað hana töluvert held ég að ég geti sagt að hún sé fallegasta stelpa, fædd árið 1987 (aðeins að þrengja þetta), í heiminum.

Thursday, August 30, 2012

þetta er gömul tugga og árleg umræða, en ég ætla engu að síður að taka hana upp hér. 
ég trúi því ekki að sumarið sé á enda. ég skil ekki hvernig tíminn getur liðið svona hratt! mér fannst ég finna fyrstu graslyktina í síðustu viku og nú heyri ég tala um „síðustu tónleika sumarsins“ í útvarpinu. vooooðalegt!
í morgun voru svo 5° þegar ég fór út með flókann og það var alveg nístandi kuldi í loftinu. meira að segja á meðan ég hljóp (og þá á manni nú að vera töluvert heitt, ekki satt). svo heyrði ég í búðinni af einhverju sem neyddist til að skafa framrúðuna á bílnum sínum áður en sá hinn sami hélt af stað til vinnu. 
ég legg ekki meira á ykkur!

mig langar því voðalega að hlaupa út í næstu búð og kaupa mér þykka og góða kaðlapeysu. helst stærri en ég þarf svo ég geti hnoðast í henni á alla kanta.
hugmyndir:




nammnamm! ég á eftir að taka þennan vetur í nefið!

Tuesday, August 28, 2012

fyrir nokkrum dögum helltist yfir mig furðulega mikil vetrartilfinning, alveg þannig að hausinn á mér hélt virkilega að það væri desember! myrkrið fór beint inn í bein og ég skildi vel af hverju allir virtust vera svona skammdegisþreyttir (sem var alls ekki raunin, ég held að fólk hafi bara verið hresst og ég bara svona dramatísk. eins og svo oft áður). svo datt ég allt í einu aftur inn í ágúst. fríííkííí!
fyrsti skóladagurinn fer svo að bresta á og ég er að vinna í því að gíra hausinn upp. það felst meðal annars í því að hætta að horfa á youtube myndbönd og lesa skáldsögur daginn út og inn, en reyna í staðinn að finna efni í BA ritgerð. það gengur því miður ekki nógu vel og ég er smá að fríka út. hvernig fer fólk að þessu? af hverju er engin svona BA-skrif-þjónusta útí bæ?

það sem hins vegar róar mig í þessu BA-panikki mínu (sem er samt enn bara vægt, þannig að þið skuluð bara vara ykkur) eru þessi dásamlegu atriði.

a) ARION APPIÐ. það er sjúk snilld (þetta er ekki kaldhæðni). sem og auðvitað snjallsíminn minn, en það er nú svo augljóst að ég eyði ekki einu sinni tíma í það. það sem ég er orðin tæknivædd... jæja!
rjómaostur með hvítlauk. ég vildi að það væri til sjeik úr þessu.
brauð með svona og ólífum og basil og tómötum er bara eins og himnasending.
þessir þættir, sem ég var að uppgvöta. tók mig ekki langan tíma að fara í gegnum fyrstu seríuna og verða ógeðslega skotin í harvey (þessum til hægri). hann er ekkert dauðsætur í þáttunum en það er samt eitthvað við hann. voðalega mikið. þetta er maður með allt á hreinu (og hann er alltaf í suit!) og hann er alveg sætur.
hún leikur líka í þessum þáttum. sjáiði þetta andlit! um leið og ég panikka yfir lokaritgerðarskrifum þá bara skoða ég þetta fína fína andlit. sjá'ana!

æ flóki vill leika! 
bæ.

Monday, August 20, 2012

þetta eldlínutal og lof um reglulegar uppfærslur var kannski orðum ofaukið. hér er að minnsta kosti frekar lítið að gerast.
þrátt fyrir það hafa sex snjallsímaæfingar hafa bæst við frá síðustu skrifum og bæði fraukan og hundur eru farin að finna á sér örlítinn mun. samt aðallega hundurinn, mér finnst þetta enn mjög erfitt og gleðin er því miður frekar takmörkuð! það sem heldur mér gangandi er hressa röddin í eyrunum á mér sem segir mér hvað ég á að gera. sérstaklega gleður það mig þegar hún segir mér að æfingunni sé lokið. 
þetta fer þó allt skánandi og hef þrátt fyrir allt staðið mig að verki við það að hlakka til útihlaupsins. það er skref í rétta átt!
bráðum á mér eftir að finnast þetta gaman, svona þegar þetta fer að verða alvöru áskorun með tímatöku og fíneríi. ég kvíði því þó að sama skapi þegar æfingarnar fara að þyngjast og þegar það hugsanlega  kemur að því að ég ráði ekki við verkefnið. púha.

svo ætla ég að taka til baka síðustu hlaupamynd. ég er EKKERT eins og stelpan á þeirri mynd. hins vegar fann ég aðra sem minnir meira á mig.

Wednesday, August 8, 2012

í ljósi mikillar pressu lesenda eftir síðustu skrif (sjá kommentakerfi á færslunni hér að neðan) hef ég ákveðið að segja ykkur fyrstu hlaupafréttir. ég hef einnig velt því fyrir mér að endurnefna bloggið og gefa því titillinn eldlínan, svona af því að hér gerast hlutirnir hratt og þið komið til með að fá mjög reglulegar hlaupauppfærslur, en ég ætla að sofa aðeins á því.

en svo við snúum okkur aftur að þessu með hlaupið.

tvær æfingar búnar og ég er alveg að gefast upp þetta er svo leiðinlegt.
sú fyrri var án snjallsímaforrits en með hundi (í sínu fyrsta trimmi). ég hljóp, móð og másandi, eins langt og ég gat en gekk reyndar aðeins inn á milli. ástæðurnar voru tvær: flóki var alltaf að létta á sér og ég var að kafna. mér fannst ég samt sem áður vera á góðum spretti en sá fljótlega að það stóðst ekki þar sem að hvolpsgreyið við hliðina á mér náði að vera samferða mér með því einu að ganga rösklega. hann þurfti ekki einu sinni að hlaupa og lappirnar á honum eru svona 30 sentímetrar (reyndar fjórar en ekki tvær eins og mínar, en það gildir einu). 
fljótlega neyddist ég til þess að fara bara heim á leið, þar sem ég var komin í andnauð. þar gerði ég fimm armbeygjur við mikil mótmæli hunds. hann skildi ekkert hvað gekk á enda aldrei á sinni ævi séð slíkar æfingar!

eftir afrekið og mont við sigurjón ákvað ég nú að kanna hvað spottinn hefði verið langur. í hjarta mínu var ég viss, þetta voru pottþétt svona 3 kílómetrar. 
í stuttu máli sagt skal ég ekki treysta á hjartað þegar kemur að vegalendum þar sem að túrinn mældist aðeins 1400 metrar.
og ég svona þreytt.
góð byrjun! (NOT!)

í gær fórum við hins vegar í fyrsta snjallsímahlaupið. það munar miklu að vera með þjálfara í eyrunum og fá bara skipanir með jöfnu millibili. ég hljóp mun lengra (eins og það sé afrek) og var aðeins bjartsýnni en eftir fyrri ferð. 
nú hefur markmið verið sett á blað og ég ætla mér að ná að fara 10 kílómetra. (ég man ekki alveg hvaða tímaramma við sigurjón settum á þetta - það kemur seinna).

eins og pabbi segir - hálfnað verk þá hafið er!

Wednesday, August 1, 2012

oh það er svo margt sem ég þrái að eignast og gera. kræst.


mig langar svo að kaupa mér íbúð!
og þegar ég er búin að kaupa mér íbúð langar mig í svo margt fallegt í hana... til dæmis þetta ljós. þyrfti reyndar sérlega rúmgóða stofu með hátt til lofts, en ég læt bara sjonna smíða húsið og það vesen er þá úr sögunni. með því að fara þá leið get ég líka pantað walk in closet. (nei, þetta er ekki óraunhæft og frekjulegt tal).
mig langar líka óskaplega í akkúrat þetta gallavesti. með akkúrat þessum hauskúpum á.
reyndar langar mig líka að vera eins og stelpan sem klæðist vestinu... af augljósum ástæðum!
eins og staðan er í dag eigum við eins síma OG eins sófa þannig að ég er á réttri leið. þarf bara að fara í síló, safna hári, hætta að borða og láta lengja á mér leggina, búa til tískublogg, verða fræg og láta senda mér alls konar fína skó og föt og þá er þetta bara komið! 
skil ekki hvað ég er að væla stundum. hálfnað verk þá hafið er eins pabbi segir alltaf.

nú - þegar þetta allt er svo komið í hús (þetta nýja sem ég ætla að láta sigurjón teikna og gera) þá langar mig að panta mér sólarlandaferð með vinkonum mínum og liggja á ströndinni og lesa bók allann daginn (og kannski vera með kokteil við hliðina á mér).

en fyrst langar mig að komast í gott form. 
fyrsta skrefið er komið. ég hætti að borða óhollt í 3 vikur (sprakk þá og grét mig í svefn) en hef ákveðið að reyna að koma mataræðinu í eitthvað jafnvægi. sá það einn daginn, þegar klukkan var að ganga sex, að ég hafði ekkert borðað nema nammi, snakk og kók frá því að ég vaknaði. þá fékk ég nóg af sjálfri mér! (sérstaklega þar sem þessi dagur var ekkert einsdæmi).
en mig langar líka að reyna að hlaupa. það er það allra leiðinlegasta sem ég geri og ég hef ekki dropa af áhuga, en mig langar. til þess ákvað ég að nota nýju símagræjuna mína og ná mér í app (er ekki til eitthvað fallegra orð. snjallsímaforrit?) sem ég las mér til um fyrir nokkru. hvort það kemur til með að virka er þó ekki gott að segja. 

hér með hef ég ákveðið að segja ykkur bara hvort það tekst eða ekki. getur iphone látið mig hlaupa? (lengra en út í pylsuvagn). verð ég svona í laugardalnum í lok sumars? oojá krakkar. það held ég nú!