Sunday, May 5, 2013

rómantík loðir lítið við okkur hjónaleysin og við förum afar sjaldan eitthvað fínt út að borða. (ekki það að rómans sé bara fólgin í því að úða í sig dýrum mat á vel skreyttum veitingastað, þvert á móti, en þið vitið hvað ég meina). við gerum okkur sem sagt sjaldan dagamun hvað þetta varðar, svona rétt á meðan fjárhagurinn er enn svolítið námsmannalegur og flatur. ég á því erfitt með að mæla með góðum veitingastöðum þegar gestir og gangandi spyrja mig og bendi því bara á subway og dominos. á þessu hefur orðið nú drastísk breyting! 

þannig er mál með vexti að vinna spúsa míns bauð okkur út að borða á dögunum, sem sárabætur af því að við komumst ekki með í endurmenntunarferðina til rómar. við fórum, ásamt fríðu föruneyti, á grillmarkaðinn og vorum  hreint ekki svikin. staðurinn er mjög flottur og skemmtilega innréttaður og maturinn enn betri, enda flest allt hráefni beint frá bónda. við prófuðum smakkseðilinn, sem samanstendur af 8 réttum (að mig minnir). meðal þess sem við fengum var djúpsteiktur harðfiskur (delish), andasalat, lamba t-bein og einhver sá allra besti eftirréttur sem ég hef smakkað. ég er náttúrlega alltaf hundrað sinnum spenntari fyrir eftirréttinum en nokkru öðru svo að það er kannski ekki alveg að marka mig, en þetta er samt sem áður lýsingin af matseðlinum: 
Súkkulaðikúla með rjómaostakremi, volgri karamellu og kaffiís. 
karamellusósunni var sko hellt yfir kúluna þannig að allt bráðnaði í dísætan djús. í alvöru, besta djús heims. það var heill hellingur í viðbót á eftirréttardiskinum en ég einblíndi svolítið á þessa dásemd. 
eftir þetta akfeita kvöld okkar get ég  hætt að benda bara á sjoppufæði og farið að beina fólki á þennan stað (nei ég er ekki á prósentu, ætti samt að vera það). 

No comments:

Post a Comment