Monday, May 13, 2013

lífið gengur í sveiflum, fer upp og niður og út og suður. ég reyni þó að skrifa bara þetta skemmtilega inn á loppuna, enda held að það væri hvorki spennandi fyrir mig né þig ef öfugt væri að farið. 
að þessu sögðu ætla ég að monta mig svolítið (mikið...).
í síðustu viku kom einkun fyrir BA ritgerðina inn á uglu! (ég var á leið í sjónmælingu þegar ég athugaði stöðu mála og ég er nokkuð viss um að ég hafi látið mæla mig vitlaust. missti algjörlega einbeitinguna á því sem ég átti að vera að gera og jánkaði bara út í bláinn, þannig að það verður bara að fá að koma í ljós hvort að nýju brillurnar séu yfir höfuð nothæfar eða hvort þær endi á bland.is). viðbrögðin þegar ég sá einkunina voru líka mjög hallærisleg og það var smá eins og ég hefði unnið fegurðarsamkeppni (sem ég nota bene hef enga  reynslu af). það eina sem ég gat hugsað var "ómægad" og "vá hvað ég bjóst ekki við þessu" og til að toppa þetta þá tók ég fyrir munninn eins og sætu stelpurnar upp'á sviði þegar þær fá kórónuna á hausinn. heppilegt að ég var stödd í smáralindinni með hálfri reykjavík þegar þetta átti sér stað. heppilegt með meiru, en mér leið bara eins og það væri einhver að setja kórónu á kollinn á mér. ég fékk nefnilega hæstu einkun og fannst ég hafa sigrað heiminn. (monti lokið). (sko ekki hæstu einkun á skalanum 1-10, heldur hæstu einkun sem gefin var fyrir BA ritgerðirnar - bara svo enginn misskilji neitt. einkunin hljóðaði upp á 9).

en yfir í annað gleðiefni og eiginlega ekki síðra, lóan er komin! ég, að sjálfsögðu, æpti upp yfir mig og lét öllum illum látum, kallaði mömmu út í garð og klappaði fyrir vorinu. sæluhrollur þessa árs er þannig yfirstaðinn. ég er með algjört blæti fyrir fyrsta lóukvakinu, sorrý með mig!

síðasta skemmtilega atriðið var sauðburðurinn sem ég fór í. ég heimsótti vinkonu mína um helgina, sem býr á bæ lengst inni í eyjafirði, og þar stóð sauðburður sem hæst. ég er ekki mikil sveitatútta (lesist: engin) og hef aldrei verið vitni að því þegar að rolla ber og því var þetta bara töluverður áfangi fyrir frauku litlu. ég mætti galvösk í leðurjakka og með sólgleraugu og spurði spurninga sem fékk bændurna til þess að rúlla augunum í marga hringi. ég rak upp gól, samhliða því að rollurnar gáfu frá sér einhverjar stunur, því ég vorkenndi þeim svo að fá enga mænudeyfingu (ekki það að ég viti hvernig það er að fæða). gerði allt sem ég gat til þess að skilja hvað var í gangi, hvenær lömb læra að ganga, hvaða hljóð komu frá hvaða dýr og svo varð ég náttúrlega að reyna að halda sönsum um leið. dýr hafa aldrei verið mér að skapi, þannig að ég var logandi hrædd á meðan á öllu havaríinu stóð. þegar klukkan sló kaffi var ég því dauðslifandi fegin að fá að skottast bara inn í stofu og fá mér kex og mjólk. ég er samt voða glöð yfir því að hafa geta farið í heimsókn og sérstaklega glöð að sjá hversu dugleg ábúendur eru!

en leðurjakkinn hefur vissulega munað sinn fífil fegurri...

2 comments:

  1. Þarna varstu aldeilis dugleg! (Ritgerð og sauðburður) og við erum fullkomlega á sama máli með lóuna.

    ReplyDelete
    Replies
    1. takk fyrir ella! ég gerði reyndar ekkert gagn í sauðburðinum, en ég fékk samt að sjá þetta allt saman. það var voða gaman.

      annars er gott að vita að ég og móðir mín erum ekki einar í lóubiluninni ;)

      Delete