Wednesday, March 7, 2012

án þess að vita almennilega af hverju þá hef ég fundið mér splúnkunýtt áhugamál - ég elda og baka. skiptir næstum því ekki máli hvort það er, því að báðir flokkar gefa af sér eitthvað ætilegt (oftast) sem mér finnst jákvætt. sumir vilja meina að ástæðan fyrir þessu nýja hobbýi sé hreinlega sú að þetta renni í blóðinu, þar sem að pabbi minn er bakari og bróðir minn kokkur (heppin, ég veit!). því miður er það nú ekki raunin. þetta rennur alls ekkert í blóðinu og útkoman í mínu eldhúsi er langt frá því að vera svipuð þeirra feðga. svo langt frá því að ég get ekki einu sinni sett það í orð. 
ég skal samt gefa ykkur smá dæmi.


um helgina gerði ég gulrótaköku. það hefði átt að taka mig svona 2 klukkutíma, alveg frá fyrsta skrefi og þar til ég væri að smyrja kreminu á hana, slefandi af tilhlökkun. þetta tók min hins vegar hvorki meira né minna en 5 klukkustundir (svona slumpað). þið getið rétt ímyndað ykkur hversu gott kaffiboð þetta var! 
sko. þegar ég var búin að láta gulræturnar liggja í púðursykri (í það sem virtist hálfur dagurinn), mauka þetta allt saman og hræra fram og til baka var komið að skrefinu "setja deigið í form". ég ætlaði að setja þetta í tvö form og hafa krem á milli en á því augnabliki sem ég vaaaar að fara að hella úr skálinni, fattaði ég að ég var bara með eitt kökuform. helvítis ansans. hefði þetta gerst hjá bakara? aldeilis ekki.
jæja, ég var að nýta það sem til var og hellti öllu deiginu í eitt himinhátt form og skellti inn í ofn, sem er orðin mjög gamall og ansi lúinn. þar þurfi þetta sem sagt að malla í töluvert lengri tíma en gert er ráð fyrir og þarna var boltinn farinn að rúlla...
ég missti að lokum þolinmæðina og tók kökuna úr ofninu, vitandi það að hún væri ekki 100% tilbúin og enn svolítið klístruð. svo lét ég hana kólna... og kólna... og prófaði að setja kremið á, sem að bara bráðnaði náttúrulega af því að kakan var enn heit. þá missti ég þolinmæðina aftur og setti kökuna inn í ísskáp og lét hana kólna. tók hana út og kökuhelvítið var enn heitt. þolinmæðin farin í þriðja sinn og kakan var þá sett í frysti. enginn bakari á jörðinni gerir það! en ég gerði það og eftir smá stund var kakan ekki lengur 300° heit og ég gat sett krem á hana og boðið gestunum upp á klístraða köku með smá bráðnuðu kremi. það er að segja þeim gestum sem að höfðu þraukað alla biðina. 


ég hef líka prófað að gera brauðstangir, en þær voru meira eins og gömul og niðurskorin hrökkbrauð.
reyndi líka að gera lakkrístoppa, en það varð eins og eins stór lakkrísfrauðspizza. bragðaðist samt alltílæ þó bitarnir væru fremur óvenjulegir í laginu.
reyndar tókst mér að gera bananabrauð fyrir einhverju síðan (mér finnst nauðsynlegt að það komi fram að ég geti eitthvað í eldhúsinu).




ég gefst þó ekki upp og held ótrauð áfram. þetta kostar oft blóð, svita og tár en það bara hlýtur að koma að því að úr verði fínasta hnallþóra. eða brauð sem ég get boðið öðrum en mér og flóka .


HEY talandi um flóka (já ég var búin að lofa færri sögum, en ég get bara ekki þagað lengur og þess vegna smokraði ég honum inn í kökuumræðuna. og nei hann fær ekki brauð, það var lygi).
flóki er sem sagt besti hvolpur í heimi sem sest þegar honum er sagt að sitja, legst eftir pöntunum og kann að fara niður tröppur. er ekki einhver hundaverðlaun veitt á bessastöðum, eða hvernig er það. hundaorðan?





7 comments:

  1. eins gott að ég afþakkaði pent boð um gulrótarköku. matareitrunin mín greinilega rétt slapp fyrir horn.. btw, ég hefði viljað fá flóka með mér heim, er farin að sakna hans eftir samveruna í dag.

    ReplyDelete
  2. Ég er með kenningu, hún samt eigilega fellur um sig sjálf, en kannski þá frekar skemmtileg hugleiðing:)

    Getur verið að þetta splunkunýja áhugamál tengist einmitt Flóka (shitt fokk hvað hann er sætur). Einhver dulin móðurtilfinning að brjótast í gegn, farin að baka og elda og verða alvöru húsmóðir????

    nú get ég samt ekki skrifað meira, ég var með eh góða hugmynd en myndin af Flóka drepur mig.. ég verð að fara að kaupa mér svona hund!!!!

    ReplyDelete
  3. Hahaha! Þetta var mjög gott kaffiboð Dagný, svona tvíréttað. Brauðið fyrst og gulrótarkakan í kvöldmat, ótrúlega fínt. Og hún bragðaðist snilldarvel :) Elsku Flóki, sennilega mjög gáfað dýr en á góða húsbændur í þokkabót, þessvegna gengur honum svona vel að vera fyrirmyndarhvolpur!

    ReplyDelete
  4. ÞESSI MYND!!

    Kveðja,
    Erla Karlsdóttir.

    ReplyDelete
  5. Meiri krúttukvolpurinn! Og áfram þú í eldhúsinu!! ;)

    ReplyDelete
  6. Ég held að standardinn sé of hár með foreldrana mennta í þessu. Ég þekki þetta þar sem pabbi minn er bakari, mér hefur líka tekist að gera bananabrauð og það hefur líka mistekist af Ástríðar sögn. Hún vildi meina að ég væri að eitra fyrir henni. Ég held að við séum bara vanar því besta og sættum ekkert okkur við að þurfa að vinna okkur eitthvað upp ;)

    ReplyDelete
    Replies
    1. HAHAH!
      leiðinlegt að heyra með bananaeitrið. þetta kemur örugglega bara með æfingunni. verður bara að finna önnur fórnarlömb en ástríði og gefa henni svo þegar þú ert orðin fáranlega góð.

      Delete