Tuesday, August 5, 2014

ég verð bara að fá að vera væmin í smá stund til viðbótar og tala áfram um barnið mitt og mömmulífið. held að það sé best að láta bara allt flakka og tappa af þörfinni fyrir að ræða þessa hluti, reyna að komast aðeins yfir þetta og geta þannig farið að ræða eitthvað annað svona inn á milli.
sko. muniði þegar maður var unglingur að byrja með strák... eða stelpu. ég byrjaði svo sem bara með strákum. allavega! þegar maður er að fikra sig í átt að sambandi eigum við það til að verða voðalega leiðinleg því að það kemst ekkert annað að en nýi strákurinn. allt sem hann gerir og segir er bara það æðislegt að það verður að deila því með öllum. alltaf. alls staðar!
þetta er svoleiðis þegar maður eignast barn, nema svona trilljón sinnum ýktara. 

að þessari útskýringu lokinni er líklega best að halda barnamaníunni á lofti.

ég er ennþá svolítið að eyða dögunum í það að stara bara á sögu. allt sem hún gerir finnst mér annað hvort brjálæðislega fyndið eða merkilegt. það er alveg nákvæmlega sama hvað það er. hún fetti upp á nefið um daginn og ég vissi bara ekki hvert ég ætlaði. þvílíkt undur. svo velti hún sér af maga yfir á bak sjö vikna gömul og þið getið rétt ímyndað ykkur geðshræringuna sem að átti sér stað hjá móðurinni í kjölfarið. kannski telst þetta samt ekki með því hún sperrir sig bara svo mikið að hún missir jafnvægið og dettur til hliðar. engu að síður legg ég hana á magann og hún endar á bakinu, þarf ekkert að ræða atburðarrásina neitt frekar, er það? barnið veltir sér og hananú!

en svo eru það þær stundir þar sem ég er svo ekki að klappa fyrir meistaraverkum hennar en þá sit ég óttaslegin með sjálfri mér. lífið breytist nefnilega svo sannarlega við það að ganga með og eignast barn. ég var svo sem undir það búin, en þetta nýja líf okkar er endalaust að koma mér á óvart. ég sest til að mynda ekki upp í bíl án þess að súpa hveljur og naga á mér neglurnar af ótta við það að lenda í slysi. eða sko, ég er eiginlega svona ef ég bara fer út fyrir hússins dyr. það eru, að mati nýbakaðrar móður, hættur alls staðar. lausir hundar, dópaðir brjálæðingar, svifryk yfir mörkum, krakkar á vespu og svona gæti ég haldið áfram í allan dag. líkurnar á því að ég verði fyrir mjög alvarlegu og jafnvel lífshættulegu slysi eru því meiri en minni eins og heyra má. þessar hættur voru svo sem til staðar hér áður fyrr, en þá tók ég bara ekkert eftir þeim! nú stendur mér hreinlega ekki á sama.

en þetta eru sko ekki einu breytingarnar sem ég hef tekið eftir. nú get ég til dæmis klippt á mér táneglurnar og reimað skóna mína, eitthvað sem ég átti erfitt með undir lok meðgöngu. ég get líka legið á maganum þegar ég sef og velt mér í allar áttir. ó þvílík stund þegar ég henti mér upp í rúm og lá þar á maganum, með engan kodda og hendur upp fyrir haus. þannig ættu bara allir að sofa, alltaf. að fólk skuli bara velja það að sofa á bakinu get ég ekki á nokkurn hátt skilið.

öllu verri breytingar eru svo þær að ég get ekki hoppað, hnerrað eða hóstað án þess að undirbúa mig mjög vel því við þessar athafnir á ég það til að pissa ég á mig. eftir að hafa átt barn prófaði ég líka að missa tilfinninguna sem kemur upp þegar þvagblaðran er að fyllast (gleymdist reyndar alveg að segja mér að það væri eitthvað sem gæti gerst, takk heimur). ég, konan með ónýta grindarbotninn, fann sem sagt ekki fyrir því í nokkra daga að mér væri mál að fara á klósettið. þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það endaði. jú, ég skal bara segja það hreint út, ég pissaði á mig... oft. því var settur upp skemi og ég skikkuð á salernið á 2 klukkutíma fresti, svona til öryggis. sigurjón fylgdist líka vel með mér því hann vildi síður að ég myndi standa upp úr sófanum og pissa í uppáhaldsmottuna hans á stofugólfinu. til allrar hamingju slapp þetta allt saman og ég hef nú náð upp fyrri færni á ný á þessu sviði. þetta tók líka bara nokkra daga eftir að saga kom í heiminn, halelúja. 

metnaðurinn fyrir mastersritgerðinni minni er svo líka örlítið breyttur frá því fyrir burð, en við skulum nú vona að hann hrökkvi í sama farið fljótlega. með þessu áframhaldi útskrifast ég nefnilega bara alls ekki neitt. 

já krakkar. breytingarnar leynast víða!
ósköp er þetta kaotískur texti. fyrirgefa ekki allir svoleiðis, þegar kona reynir að gera sem mest á meðan barnið sefur. (ætti ég að vera að gera sem mest í ritgerðinni, vissulega. er ég að gera það, alls ekki).

8 comments:

  1. Replies
    1. dí hvað ég er fegin að einhver tengir ;)

      Delete
  2. Róleg Saga! Fólk er að eipsjitta þegar börnin eru að velta sér fyrir 4 mánaða aldur. Saga er bara eitthvert undur!
    Og það eru svo margar ósagðar sögur af móðurhlutverkinu í bland við allar lævísu lygarnar (sbr. og grindarbotninn bara kikkar strax inn eftir fæðingu) að engin kona ætti nokkru sinni að halda að hún viti hvað hún er að fara út í. Ég er ennþá að vanda mig að hnerra.
    Hnoðknús á línuna!

    ReplyDelete
    Replies
    1. oooo jéééss! fyrst að læknirinn (næstum) segir það þá er það bara heilagur sannleikur.
      saga er undur!

      :**

      Delete
  3. Þú hefur fullt leyfi til að finnast þetta allt saman.
    Mér finnst athyglisvert þetta með að sofa á maganum, fram að fyrstu fæðingu svaf ég helst á maganum, já fram á síðasta dag, en síðan ekki söguna meir, það kostaði þá bara stóran mjólkurpoll. Síðan hefur það einhvern veginn ekki hentað mér að sofa á maganum. Ég sakna þess oft.

    ReplyDelete
    Replies
    1. takk ella! :)
      ég gat bara sofið á vinstri hliðinni seinni hluta meðgöngunnar þannig að það var mjög kærkomið að geta aðeins rótað sér eftir að saga fæddist. ég var einmitt búin að heyra það frá mörgum hversu svekkjandi það væri að geta ekki sofið á maganum eftir fæðingu út af mjólkinni en ég á bara alls ekki við neinn mjókurbrjóstavanda að stíða og nýt þess í botn að liggja á maganum. það er kannski verið að bæta mér upp svefnvesenið á meðgöngunni ;)

      Delete
  4. Nei sælinú.

    Nú veit ég vel að þú átt ennþá barn en þessi mastersritgerð þín er löngu búin svo ég tel enga afsökun á þessu færsluleysi.

    Virðingafyllst,
    Ingoration.

    ReplyDelete