Thursday, December 27, 2012

gleðilega hátíð kæru lesendur loppunnar. 
leti og tímaskortur (samt aðallega leti) hafa gert það að verkum að ég hef ekki gefið mér tíma fyrir nein skrif, hvorki hér né á jólakort. aldrei þessu vant sendum við bara örfá kort í ár, rétt til nánustu ættingja okkar beggja. vinirnir fengu að sitja á hakanum og fá bara kveðjur seinna eða hérna á rafrænu formi. mér leiðast reyndar internetkveðjur álíka mikið og mér leiðist pestin, en það verður bara að hafa það.

þessi segja því gleðileg jól til allra og óska ykkur farsældar á komandi ári.
við höfum haft það ósköp gott og notalegt síðustu daga. 
aðfangadagskvöldi eyddum við með yndislegum vinum. við átum á okkur gat og drukkum að sjálfsögðu gott vín með, reyndum að taka settlega jólamynd (sem tókst ekki*) og náðum ekki að brúna kartöflurnar fyrr en í 3. tilraun. ég gleymdi að setja á mig varalit og maskara og ískexin voru aldrei étin. en það kom alls ekki að sök því kvöldið var eins krúttlegt og það gat orðið. við horfðum þó hissa á hvert annað eftir að öllum gjöfum hafði verið komið undir tréð. okkur þótti magnið ekki alveg í takt við fjórar fullorðnar manneskjur!

*hér má sjá nítjándu, og jafnframt síðustu, tilraun okkar til að ná mynd af okkur öllum við tréð. hún verður að duga.
við lína erum samt sætar, sama hvað!

jóladagsmorgun var svo vinnudagur hjá fraukunni og kvöldinu var eytt í matarboði og spileríi. á tímabili sat mitt lið uppi með þessa hér stafi í skrabbúl. þó svo að þeir gefi ferlega mörg stig þá eru þeir ekki til neins svona allir í einu. kex í fleirtölu virkar ekki (köx) og það vantaði ð til að mynda orðið þæfð. annað var bara eitthvað rugl og ekkert gekk upp. 

en að máli málanna. þetta ofurkrúttaða besta-dýr-í-heimi er 1 árs í dag. þvílík endalaus lukka og hamingja að hafa rambað á þennan hund. og ég sem er bæði hrædd við hunda og líkar illa við þá. glæsilegt!




2 comments:

  1. Gleðileg jól bæði tvö. Það væri indælt að sjá ykkur sem fyrst.

    ReplyDelete
  2. Fax má alveg vera í fleirtölu finnst mér.

    ReplyDelete