Thursday, May 31, 2012

nú hefur heldur betur dregið til tíðinda. 
þrátt fyrir að það styttist óðum í fyrsta helgarfrí sumarsins, og þeirri dásamlegu slökun og útsofi sem þeim fylgir, þá er friðurinn á heimilinu samt sem áður farinn. þegar ég óð inn í herbergi áðan tók flóki á móti mér. það er nú kannski ekki merkilegt í sjálfu sér, heldur frekar sú staðreynd að hvolpsálfurinn var uppi í rúmi. hann hefur fundið með sér krafta og sjálfstraust til þess að hoppa þangað sjálfur og nýtir sér þessa nýju kunnáttu nú óspart. 
víj fyrir því! (not).
annars ætlaði ég að skrifa eitthvað um veðrið en hætti við. sumarið er komið og því ber að fagna. ég setti allavega á mig skært og appelsínugult naglalakk. 


þarf ekki bara að fagna svona fríum með því að kaupa pils?
ég er svo mikill pilssökker - mér finnst þau mun skemmtilegri en kjólar. það er hægt að nota þau svo hundraðsinnum meira og á fjölbreyttari hátt!


okei talandi um pils! (þetta var í alvöru ekki fyrirfram ákveðið heldur passar þetta bara svo akkúrat inn í umræðuna. sollý). vill ekki einhver kaupa þetta? það er frá h&m og er nr. 38. passar samt betur á 36, er alveg nýtt og ónotað. MEÐ VÖSUM!
nú eða skó. það má nú alltaf!

Tuesday, May 29, 2012

lífið gengur sinn vanagang hér í húsinu á horninu. kvöldin verða alltaf bjartari og bjartari, það eina sem virðist vera í fréttum eru skot og pistlar varðandi komandi forsetakosningar og svíþjóð sigraði í júróvisjon. ég hef reyndar ekkert vit á þeirri keppni og eins og þið kannski munið þá er ég enginn sérstakur aðdáandi hennar heldur. ég ætla samt að segja að mér fannst sigurlagið ekki ógeðslega leiðinlegt, eins og svo oft, og finnst þessi stelpa bara heldur mögnuð. hún er með dúndrandi rödd sem að ég fíla og kirsuberið á kökunni er þetta náttúrlega fallega lúkk og auðvitað attitúdið. virðist vera sniðug þar sem hún blandaði saman söng og jógaæfingum, sem er að öllum líkindum bara tímasparnaður og gott dagsskipulag hjá snótinni. gerir það að verkum að eftir keppni þarf hún ekki að fara í heilsurækt, hún er búin með það... á sviði! þetta dularfulla útlit fangaði mig alveg og eftir töluverða umhugsun fattaði ég hverjum hún líkist. 
mér finnst eins ronja ræningjadóttir sé þarna loksins vaxin úr grasi og móðir hennar sé engin önnur en pocahontas. hún er algjör samblanda af þeim!
það er bara eitthvað pínulítið heillandi við þessa mannveru, án þess þó að ég geti sett fingurinn á hvað það er sem mér finnst svona yfirmáta aðlaðandi.
en það er svo sannarlega eitthvað!
ég verð að gerast pennavinur hennar.

Friday, May 25, 2012

mikið sem það er gott að hafa ykkur til halds og trausts í málum sem þessum (sko, hár&bókamálum). takk fyrir!
ég ákvað í gær að panta tíma í klippingu og fékk samdægurs. það var því ekki langur tíminn sem ég fékk til umhugsunar, en ég var samt komin með ákveðnar hugmyndir í kollinn. þrátt fyrir að flest ykkar hafi nefnt skellaskáláhausinn stutt, þá ýtti ég því fljótlega frá mér. ég horfði á myndina í smá stund og mundi skyndilega að ég er með skelfilega krumpuliðað hár. pottalúkkið hefði því haft í för með sér gríðarlega mikla þörf fyrir sléttun og blásun á hári og því nenni ég bara hreint alls ekki. hitt langaði mig eiginlega bara jafn mikið í... nema kannski minnst ginnifer. 


þessu romsaði ég einhvern veginn upp úr mér í stólnum og strákurinn sem ég hafði fengið tíma hjá varð alltaf undarlegri og undarlegri í framan. að lokum sagði hann bara „ég skil eiginlega ekkert hvað þú ert að meina...“ þá ákvað ég að dæla í hann nokkrum nöfnum, eins og robyn og anna rakel og meðfylgjandi handapat fylgdi að sjálfsögðu. hann starði forviða á mig og að lokum gafst ég upp og bað hann bara um að klippa mig stutt. ég nennti ekki að vera með hár lengur. 


það gerði hann svo sannarlega. ég gleymdi sjálf svolítið að fylgjast með og áður en ég vissi af var ég orðin eins og nýleg útgáfa af miu farrow, með úr sér vaxna greiðslu. það er keimur af hinum og þessum týpum af mér og ég á ferlega erfitt með að ákveða hvort mig langi að rokka þetta eða bara vera með hatt í allt sumar. 



hér fáiði svolítið dannaða útgáfu af þessu, allt greitt bara vel niður með hliðum og ekkert búið að gíra það neitt til. ég get vissulega verið nokkrir karakterar; rokkaða stereólesbían, hanakamburinn og haltukjaftihvaðégnenniekkiaðgreiðamér eru þær sem auðveldast er að kalla fram. nú og svo þessi, sem er bara dönnuð og látlaus, kórdrengjalúkkið eins og ég hef ákveðið að nefna það.

ég er enn að fríka smá.

Tuesday, May 22, 2012

það er alltaf eins og skólafólk sé laust úr margra ára prísund og pyndingum þegar prófum líkur. þetta er í alvöru svona á hverri önn - alltaf! dramatíkin er í hámarki (sko, í töluvert meiri mæli en þegar prófin sjálf eiga sér stað, sem er líka mjög dramakenndur tími) og gleðin tekur öll völd. ég er enn í þessum fasa, hann nær að vera svo langur á vorin, þegar ekkert tekur við nema bjartar nætur og enginn heimavinna... og ekkert samviskubit. 
stóð lengi fyrir framan bókahilluna í fyrradag, með valkvíða yfir því hvaða bók ég ætti að lesa sem ekkert tengdist námi á nokkurn hátt. í ljósi þess að ég er ekki enn byrjuð á næturvöktum og er komin með varðhund á heimilið valdi ég yrsu, mundu mig. ég er komin á kafla 6 og bókin er strax orðin viðbjóðsleg. ætli ég sjái ykkur ekki bara aftur í haust, þegar ég er búin að jafna mig á taugaáfallinu? 
næst ætla ég svo að glugga í óreiðu á striga (vill einhver lána mér? nei ég á ekki bókasafnskort, því var stolið) og svo einhverja sem ég les á hverju ári, sölku völku eða góða dátann. 
eins og þið kannski heyrið hef ég dregist aftur úr í lestri, flestir eru búnir með þessar bækur, en svona er þetta að fara til danmerkur, maður missir taktinn.
allar góðar bókahugmyndir eru því vel þegnar.
en að öðru. 
ég þarf að láta klippa á mér hárið. ástæðurnar eru margar, það er til dæmis of þunnt til þess að vera með það langt auk þess sem ég fer svo úr hárum að það er að gera sigurjón vitlausan. hann fer alveg að flytja út! ég ákvað því að vega og meta kostina og vil heldur vera stutthærð en fráskilin (ég ákvað að nota það orð frekar en single, mér fannst það neikvæðara). vá hvað það væri leiðinlegt ef stutt færi mér svo bara ógeðslega illa og sigurjón myndi dömpa mér... þá væri ég bæði! 
en jæja - nú þarf bara að ákveða hversu stutt og hvernig stutt!?
twiggy stutt?
riri stutt, sem er twiggi stutt með fyrirferðameiri topp?
carey milligan stutt? (hún er svo brjálað falleg að ég get ekki horft á hana!)
ginnifer goodwin stutt? (ég þyrfti aldrei að greiða mér, sem er PLÚS).
skellaskáláhausinn stutt? (þyrfti ekki að fara á stofu).
mia farrow méreralvegsamahvaðykkurfinnst stutt?

eða bara hætta þessu masi og fá mér kiwiklippingu? þið vitið að það hefur alltaf blundað í mér.


til að draga saman það sem fram hefur komið: hvernig á ég að klippa mig og hvaða bók ætti ég að lesa?

hjálpiði mér, plís!
gott að ég get tekið sjálfstæðar ákvarðanir.

Sunday, May 13, 2012

það er sko heil vika síðan ég skrifaði hér inn og þið virðist ekkert sakna mín! eruði með svartar sálir eða hvað? 
djók.


ég hef verið á kafi. 
fór í síðasta prófið 10. maí og rauk beint á vakt eftir það. ég hef ekki enn fagnað sumarfríinu almennilega, sem er náttúrlega skömm. ég bæti það vonandi upp komandi helgi eða eitthvað. memm? annars fagna ég gríðarlega í hvert sinn sem ég kíki á uglu og sé að það er komin einkunn. enn sem komið er hafa þær verið skínandi fínar!


það er ekkert að frétta. sigurjón með pest, ég skiptist á að éta á mig gat hér heima eða í vinnunni og flóki vex og dafnar. hann hefur fulla trú á því að hann sé varðhundur mikill og hafi verið fenginn inn á heimilið til að verja alla íbúa hússins á horninu fyrir óvelkomnum gestum. vandinn er bara að hvolpsgreyið er enn á stærð við stígvél og gæti í mesta lagið varið okkur fyrir flugu. hann reyndi það meira að segja um daginn en mistókst eiginlega, af því að flugan settist bara á nefið á honum og kitlaði hann. flóki vissi að sjálfsögðu ekkert hvernig hann átti að bregðast við aðstæðunum og hnerraði bara og hristist til.
hálslangimangi á vaktinni. klikkar ekki!

Sunday, May 6, 2012

í fyrradag vaknaði ég og sá fyrir mér peningalítið og atvinnulaust sumar, en í gær byrjaði ég skyndilega í nýrri vinnu. svona geta hlutirnir gerst á súperhraða! fékk stöðu á hjúkrunarheimili hérna í grenndinni og ekki nóg með að að staðurinn sé bæði heimilislegur og rólegur þá er þar til glás af sveskjugraut (sem og öðru gómsætu, JÉSS). vinnan er stutt frá að ég er ekki nema eitt lag á ipodnum að hjóla þangað. hef unnið við þetta áður og kann vel við mig í svona störfum - ég get því ekki verið annað en vera hæstánægð með þetta fyrirkomulag og elskað nýja djobbið!
VEI!


það hefur svo varla farið framhjá nokkrum manni (að minnsta kosti þess sem á facebookprófíl) að í dag er megrunarlausi dagurinn. ég hef alltaf haldið þennan dag mjög hátíðlegan og ætla mér að gera það um ókomin ár. finnst þetta stórsniðugt enda leiðist mér ekkert meira en megranir og endalausar umræður um kaloríur og melónukúra. hollusta og hreyfing er reyndar alls ekki mitt áhugamál, ef út í það er farið.
ég þjófstartaði reyndar aðeins í gær og fékk mér ís með poppi (já - hreinlega stráði ég poppi yfir ísinn og það er geggjað. alveg eins og ís með kókópöffsi er góður!). kórónaði svo daginn með því að panta pítsu og ostabrauðstangir sem ég át þar til það leið næstum yfir mig. þá fékk ég mér bara gos.


í dag hef ég verið frekar róleg hvað þetta varðar. það er þó alltaf stórhætta að vinna í öldrunargeiranum á sunnudegi, því þá er boðið upp á heitt kakó og bollur meðí. ég að sjálfsögðu drekkti mér næstum í kakópottinum og ætlaði aldrei að hætta að laumast í kexið. en ég meina - það er megrunarlausi dagurinn! 
nú mælist ég til þess að þið gúffið einhverju fíneríi í ykkur, sleppið því að pæla í fitulagi og stíga á vigtina. þetta skiptir í alvöru ekki svona miklu máli (nema þetta sé hreinlega farið að ógna heilsunni í alvöru. þá er að sjálfsögðu um að gera að hætta að gúffa í sig).
æ þið hljótið að skilja hvað ég á við!

Wednesday, May 2, 2012

þeir dagar sem byrja á ísköldum sveskjugraut með ísköldum rjóma, geta bara ekki klikkað! (nei, ég er ekki með hægðartregðu heldur finnst mér þetta bara sjúklega gott. engu að síður eru sveskjur góðar við þeim kvilla, jafnvel maukaðar saman við kíví. jáh... það var margt sem maður lærði á því að vinna á hjúkrunarheimili. átið er þar með talið!)


ég ætti, samkvæmt öllu, að vera að lesa og læra fyrir síðasta prófið en ég bara kem mér ekki í það. í staðin geri ég allt annað - finn mig knúna til þess að setja í endalaust margar þvottavélar  og þrífa handryksuguna (ekki grín) svo eitthvað sé nefnt. fæ líka alltaf óhugnalegan áhuga á kertum og kertavaxi þegar ég á að vera að læra. það flokkast nú líklegast bara sem eitthvað syndrome! 
ég er enn að sækja um vinnur en vona að það sé að komast á hreint. auðvitað byrjaði ég allt of seint á því, óvön svona löngu sumarfríi frá því sem var úti í danmörku. skólanum þar lauk oftast ekki fyrr en í júlí þar og byrjaði aftur 1. september. þetta með að vera að fara í sumarfrí í maí er þess vegna ekki alveg orðin samþykkt staðreynd í mínum litla haus! fólk rekur alveg upp stór augu þegar ég segist ekki hafa byrjað að sækja um í febrúar. ég tek þetta bara með trompi á næsta ári í staðin sko...


en að allt öðru... við fórum með flókann til ræktandans um daginn í snyrtingu, ekki veitti af. þar fengum við að heyra að hann brýtur eyrun á sér vitlaust... ég hef því miður ekki tök á því að útskýra það neitt frekar þar sem ég hef ekki vit á þessum málum en þetta segja sérfræðingarnir. sökum þessa fórum við með teipaðan flóka aftur heim, það á að laga þetta eyravesen, sem og nuddleiðbeiningar.
það er dekrað við þennan hvolp, svo mikið get ég sagt ykkur!


svona horfði hann bara á okkur... „ætliði í alvöru að láta mig vera svona? plís takiði þetta“

en svo gleymdi hann að nota þennan dauðasvip sinn þegar hann fattaði að það var eitthvað að gerast úti á götu. beinustu leið út í glugga - gamli skröggur.

mikið vildi ég geta teipað bara yfir það sem er í ólagi hjá mér! kaupa bara duglega af teipi og skella því um rassinn og mittið í von um að það myndi fegra svæðin. líma niður nefið og gera eitthvað við hárið (veit ekki alveg hvernig teip reddar þessum hárlufsum mínum). það er alveg spurning um að prófa!
oh ég gæti tekið upp titilinn áhugalýtalæknir. æði!