Tuesday, June 25, 2013

heyrðu okei. ég er enn að hreyfa mig, svo því sé nú alveg haldið til haga, en það er samt ekki það mikið að ég hafi tekið þátt í miðnæturhlaupinu. 

nú... þar fyrir utan er svo allt rjúkandi fínt! á laugardaginn útskrifaðist ég með BA gráðu í félagsráðgjöf og í haust tekur svo master-inn við. það er svona beggebland, nenn'ekki og hlakka til titringur í mér hvað þetta endalausa skólastand varðar. fínt að klára þetta og gaman að geta loksins titlað sig eitthvað merkilegt en það er ekki ein agnarsmá fruma í mér sem nennir að standa í mastersritgerð og öllu því sem henni fylgir. jésús minn á jörðu sem og himni, nei takk.

en bökkum aðeins, aftur að þessu fjöri þarna á laugardaginn. ég þarf nú að segja aðeins frá því. gamanið hófst fyrir alvöru seinnipart dagsins, eftir að útskriftarathöfninni var lokið. þessi seremónía leið eins og sjö heilir dagar hún var svo leiðinleg.

en þegar heim var komið (loksins) beið mín faðir, kærasti og krúttlegasta frænka í  heimi með fangið fullt af rjóma, kökum, pönnsum og gjöfum. ég var næstum því farin að skæla mér fannst þetta svo skelfilega fallegt og sætt af þeim, að vera með óvæntan kaffitíma. 

þegar þeirri átveislu lauk svo var haldið af stað í smá ferð sem hafði þann eina tilgang að borða. ekki það að við hefðum verið svöng, nei nei. foreldrar hrúguðu nú þrátt fyrir það dætrum og tengdarsyni út í bíl og óku af stað að laugarvatni. þar var búið að taka frá borð á yndislegum veitingastað sem heitir lindin. seinni átveislan var vel ferðarinnar virði, einstaklega góður matur og skemmtileg þjónusta sem þarna er að finna. eigandinn bauð okkur meira að segja í bíltúr á eldgamla en nýuppgerða land-rovernum sínum. (ég var því miður sérstaklega upptekin við að halda mér í allt sem ég sá þannig að myndir úr þeirri hasaferð eru engar. litla systirin náði aftur á móti nokkrum þrælgóðum af þeirri eldri. ég er alltaf svo elegant og sæt í framan... þó ekki sé meira sagt. smá bílveltur skemma ekki sjarmann).
mæðgur
glöð í bragði, enda athöfnin að baki og bjórinn kominn í krús
bakarinn hann faðir minn rjómaskreytti að sjálfsögðu kökuna sem helga kom með
dúllulætin, mínus allt dúllulega fólkið. ég tók alveg þannig mynd en hún fór eitthvað forgörðum.
hér höfum við nú upphaf alls, foreldrana sem kynntust einmitt í menntaskólanum við laugarvatn. úlalla!
pabbi fékk skot í villibráðaveislunni sinni. í staðinn fékk hann skot, af brennivíni. þetta kallar maður alvöru díl!
dolltið hallærislega roggin og stíf, en samt kjút.

Wednesday, June 19, 2013

muniði eftir stelpunni sem ætlaði að komast í brjálað gott hlaupaform og náði sér meira að segja í forrit í snjallsímann sinn til þess að takast þetta ætlunarverk sitt. muniði ekki? okei, ég skal hjálpa ykkur.
þetta byrjaði allt saman með þessu hér og endaði nokkrum vikum síðar, mjög snögglega. ég náði aldrei þessum 10 kílómetrum mínum, en mér til varnar dröslaðist ég alveg 6 (en sko, ég skreið alveg síðustu metrana samt). þarna var þolinmæði mín sumsé algjörlega á þrotum. ég fann engan mun á mér, fannst þetta enn ógeðslega leiðinlegt og sá engan tilgang með þessu. síðan þá hef ég barasta ekki hreyft mig!
nú er ég sem sagt aftur á byrjunarreit og er náttúrlega búin að dusta rykið af snjallsímaforritinu. ástæðan fyrir því að ég hef ákveðið að taka upp þráðinn er meðal annars sú að ég þurfti að taka pásu í uppvaskinu um daginn, svo lélegt er formið. ég var orðin svo móð og másandi að skrúbba leirtau að það var ekkert annað í boði en að taka smá time out í sófanum. þegar ég hlammaði mér á rassinn flaug sú hugsun í gegnum minn litla haus að þetta gæti nú ekki undir nokkrum kringumstæðum flokkast sem eðlilegt. blessi okkur bara að vera ekki ofar en á annarri hæð, ég þyrfti að sofa útí garði ef svo bæri undir.

en jæja. nú eru tvær æfingar búnar og lungun á mér örugglega fallin saman eftir það. fyrsta æfingin var meira að segja farin klukkan sjö að morgni, en það var svona hálfparinn af illri nauðsyn. ég þurfti líka að leggja mig seinna um daginn. þann dag lærði ég að hreyfing skal aldrei eiga sér stað fyrir hádegi.


Thursday, June 13, 2013

látum okkur sjá. ég er ekki mikil handavinnukona og geta bæði móðir mín og systir skrifað undir þá yfirlýsingu, með góðri og hreinni samvisku. þær eru aftur á móti afar lagnar og sauma á sig hverja flíkina á fætur annarri á meðan amma prjónar vettlinga á alla stórfjölskylduna. líka langamma. af þessari ástæðu einni er ég farin að gruna að einhver (ég) hafi verið ættleidd eða börnum hafi óvart verið víxlað á fæðingadeildinni. ég hef nefnilega í ófá skipti reynt að búa mér til einhvern fjandann sem oftast endar með skelfingu. pilsið mitt, sem var óvart í 2 lögum, er gott dæmi. það varð of stutt og því brá ég á það ráð að bæta bara öðru pilsi við innan undir. innra pilsið varð óvart á röngunni, allt of sítt og bara saumað á strenginn hér og þar. til að toppa þetta var allt saman ófaldað og alls ekki jafnt allan hringinn. þessi gripur verður seint stolt móður minnar og þaðan af síður ömmu. almáttugur hvað ég notaði þetta mikið, þrátt fyrir mótlætið. ég reyndi líka einu sinni að sauma á mig peysu, sem gekk vitaskuld ekki upp og pabbi klappaði mér á öxlinna og sagði "fínn trefill". hann var ekki að reyna að hughreysta mig eða gera gott úr hlutunum, hann hélt bara að þetta væri trefill. flíkin var vissulega ekkert eins og peysa, þannig að honum hefur verið fyrirgefið.
sömu sögu er að segja af prjónaskap fraukunnar. handavinnuverkefnin fóru vanalega samferða mér heim úr skólanum og komu fullunnin til baka viku síðar. ég hafði þá ekki snert þessa skrattans prjóna heldur hafði móðirin hlaupið í skarðið. ég braut að jafnaði eina saumavélanál (nýyrði) í hverri kennslustund og heklaði allt svo pikkfast að það var ekki nokkur leið að laga það.

en ég gefst ekki upp! nei!


í byrjun desember 2008 fékk ég bréf frá uppeldisvinkonu minni, sko uppeldisvinkonu minni sem er eiginlega svona hálf stóra systir mín. í bréfinu sagði hún mér frá því að hún væri ólétt og von væri á frumburðinum í maí. með hjálp frá móður minni gat ég safnað saman nauðsynlegum efnivið til þess að geta prjónað peysu á komandi kríli. ég gaf mér rúman tíma og ákvað að hafa peysugarminn í stærðinni "1 árs". í dag er ég komin upp að hálsmáli, á ermarnar eftir sem og frágang, hnappagöt og annað sem ég veit ekki hvað þýðir. ég skil ekki uppskriftina og stend á gati, þannig að frekara prjón verður að bíða eftir því að mamma komi í heimsókn. ég kann ekki að rekja upp, kann ekki að fella af og ekki laga villur í miðju verki. barnið er orðið rúmlega 4 ára og á nú orðið 2 yngri bræður.




tóa, þú veist þá allavega af því að tara kristín hefði getað eignast þessa fínu peysu. ég legg það ekki á emil tindra að klæðast svona bleiku, þannig að fjórða barnið verður bara að koma. hafðu það stelpu!

Tuesday, June 11, 2013

hæ! það er komið sumar, ef það er að fara framhjá ykkur.
ofnæmið er farið að láta á sér kræla, það er graslykt í loftinu og ég fór í göngutúr á peysunni í dag (reyndar fór að rigna stuttu síðar en við skulum alveg líta framhjá því. sumarið er samt komið og hananú).
undanfarnir dagar hafa verið algjört partý... bókstaflega! ég er enn að jafna mig á sál og líkama eftir þennan mikla fögnuð en hér var haldið upp á útskrift og afmæli um helgina. útskriftin var mín, afmælið sigurjóns. 
hér má svo sjá okkur á laugardagskvöldinu, rétt fyrir títtnefnd partýhöld, rómantískt úti að borða í pylsuvagninum fyrir utan húsið okkar. ástæðan fyrir þessu havaríi var nú enn eitt tilefnið, en við áttum sjö ára kæróafmæli þessa helgi. legg ekki meira á ykkur. (já, ég lít út fyrir að vera misþroska, afsakið það).
ég var svo ekki viss hvort ég kæmist fram úr í morgun og hefði að öllum líkindum ekki gert það ef ekki væri fyrir gólandi hund í hlandspreng, svo þreytt er fraukan. 

partýhaldi var þó formlega lokið á sunnudaginn, en þann dag nýttum við hjónaleysin í notalegheit. fundum hálfgerða sveit í miðri borg með kjarri og gönguleiðum, útsýni og mosabreiðum og gengum þar í mígandi regni og hita.
ekki verra að þarna var líka að finna hundasvæði þar sem flóki gat leikið lausum hala, frelsinu feginn. allir glaðir, allir græddu. helga frænka bauð svo í afmælisbrauð og söng.

nú bara verð ég samt að fara að sofa. það verður ekki bara hundur í spreng sem dregur mig fram úr á morgun heldur þarf ég sömuleiðis að mæta til vinnu. það sem ekki er á mig langt krakkar. svei mér þá! 
en þessi er sætur svo þetta er allt í himnalagi.