Tuesday, December 20, 2011

það er ennþá smá sæluvíma í kroppnum á mér frá því á föstudaginn. jólafrístilfinningin er engu lík! (ég er dramatísk í desember eins og sjá má á myndinni að neðan, sorrý).


mér gekk vonum framar í prófinu sem að gerði daginn enn sætari. þar að auki keypti ég mér "tilhamingjumeðpróflok" leðurjakka (hef aldrei átt leður!) og ég fann nammi í skólatöskunni á leiðinni heim! gerist nú ekki mikið betra en það...
ég fattaði líka leyndó háskóla íslands. þannig er mál með vexti að ég get ekki haldið einbeitingu allan þann tíma sem ég sit inni og þreyti próf, bara alls ekki. hugurinn fer alltaf á flug og ég fer að fylgjast með öllum í kring um mig. athuga hvort að fólk sé með penna eða blýant, hvort það sé að fríka út eða skrifa á fullu og hverjir fara úr skónum og setja fæturnar upp í stól. undantekningalaust hef ég séð einhvern sem er búinn á fáranlega stuttum tíma! reglurnar eru svo þannig að enginn má yfirgefa stofuna fyrr en klukkustund er liðin af próftíma þannig að viðkomandi situr bara og dillar löppunum í sirka hálftíma. í mínum haus er ekkert venjulegt að klára 3 tíma próf á 30 mínútum!
þetta, lesendur góðir, eru prófhérar háskólans! þeir virkar svona eins og hérarnir í langhlaupum, sem að eru með góða forrystu þar til hlaupið er langt komið og þá rjúka þeir af brautinni. prófhérar virka alveg eins. þeir skrifa og skrifa og skrifa... stroka út á milli með miklum látum og skrifa svo aðeins meira. þykjast örugglega fara yfir prófið, pakka svo öllu og eru tilbúnir þannig að allir sjá það. þetta setur ákveðna pressu á okkur nemendur (hérinn er ekkert alvöru nemandi) og við skrifum enn meira og enn hraðar. hvort þetta lætur okkur skrifa eitthvað af viti hef ég enn ekki alveg náð að skilja, en ég fæ örugglega svar við þeirri spurningu minni á vorönn.
hvar ætli maður sæki um þetta starf?

Monday, December 19, 2011

jólafríið mitt er byrjað.
nýbakaðar smákökur, mjólk og bíómynd.
töluvert meira krúttlegt en síðasta færsla...

Tuesday, December 13, 2011

framhald síðastu skrifa:


hárið á mér er enn hreint og ég er með mjög fínan púls. borða bara ísblóm með kókópöffsi (já blandað saman og það er gúrme!) og syng með morgunútvarpinu. set svo í þvottavélina og helli upp á. inn á milli les ég svo smá og glósa ef mér finnst það við hæfi þann klukkutímann.
en hvað er það sem að gerist þegar svona langt er í próf og tíminn virðist endalaust?
jú, góðir hálsar - maður fer að mindmappa (íslenskað: kortleggja) í höndum þrátt fyrir að eiga fullt af efnilegum og fínum glósum!



við sjáum það líklega öll hvert þetta stefnir, er það ekki? ég gaufast svona og föndra fram á síðustu stundu og þarf svo að vaka nóttina fyrir próf því í raun hef ég ekkert lært af þessu dúlleríi. aldrei get ég lært af mistökunum! ég skrifa bara um þau.

ps. ef þið haldið að ég sé aftur komin í kaffióefni, þá er það ekki tilfellið. augun á mér eru svona af því að ég er að gera "ég-er-brjálað-hissa-á-sjálfri-mér" svip. hann er svona eins og o í laginu og einhvern veginn verða augun líka eins og o.
ok. gæti verið að ég sé líka smávægilega kaffitjúllið, viðurkenni það.

Monday, December 12, 2011

síðasta vika er sem betur fer liðin, hún var viðbjóður. fjögur lokapróf á átta dögum er engan veginn eitthvað sem hljómar spennandi... eða það hljómar kannski einhvern veginn en það er alls ekki spennandi. 
þið, kæru lesendur, græðið þó á þessu eins og svo oft áður því að ég ætla að gera fyrir ykkur lítinn lista, sem í raun er 5. kafli í "what not to do" bókinni minni.


a) ekki slugsa alla önnina, halda að þið séuð miklu klárari en þið í raun eruð og vera svo með allt niður um ykkur nokkra klukkutíma fyrir próf. ég var svolítið svona, það endaði bara illa og púlsinn fór aldrei niður fyrir 300 alla síðustu viku. þá er ég að tala um hvíldarpúlsinn, ekki eftir kaffiþamb og gym. það er voðalega óþægileg staða.


b) ekki mæta (nánast) ósofin í próf. þetta er nú gömul og klisjukennd tugga en hún er bara alveg hreint hudrað prósent sönn! ég prófaði þetta, tvisvar, og var allan próftímann á varðbergi hvort ég væri að fá blóðnasir (það væri þá heilinn að leka.  var þetta of ógeðslegt?) og þurfti að halda augunum opnum með puttunum og þá gat ég ekkert skrifað á meðan, sem kom mér í klemmu!


c)  ekki sleppa því að borða, þó að ykkur sé óglatt af svefnleysi og stressi. reyniði nú að koma einhverju niður! ég prófaði þetta líka tvisvar... sömu tvö skiptin og ég svaf ekki svona ef þið tengduð það ekki og það truflaði mig mjög. ég varð svöng þegar prófið byrjaði og stressið hvarf og þá byrjaði allt að gaula. lætin!


d) ekki gleyma því að taka lýsi! (hérna ætlaði ég að skrifa - takiði lýsi en mundi svo að þetta er what not to do listi).


listinn er kannski voðalega venjulegur og eitthvað sem við höfum öll heyrt en mér fannst betra að koma með svona konkrít dæmi til að þið gætuð tengt betur við þetta.


eitt próf eftir og nægur tími til að lesa undir það. voðalega er ég hamingjusöm hvað það varðar. hárið á mér hreint, ég get fengið mér að borða og hent í þvottavél og samt er púlsinn fínn. 

Tuesday, December 6, 2011

hárið á mér er að detta af.
ég er með fjórar bólur og eina hálffrunsu.
ofninn í stofunni er bilaður, það er -10 gráður úti og því er ég klædd í um það bil öll fötin mín.
próf í dag, próf á morgun og lítill svefn á milli.


hæ desember! ætlum við aldrei að ná að vera vinir?