Thursday, July 24, 2014

hæ!
þið afsakið vonandi fjarveru mína, ég hef bara verið upptekin við að fæða barn og liggja svo og stara á það ásamt því að dásama lífið út í eitt undanfarnar sex vikur. (ég gef barninu samt líka alveg að borða og skipti á því og allt svoleiðis, svo því sé haldið til haga. ég bara stari rosa mikið inn á milli). 
umrætt barn heitir saga björk sigurjónsdóttir og hún kom í heiminn 11. júní síðastliðinn. saga björk er besta gjöf sem okkur sigurjóni hefur verið gefin og ég get ekki með nokkru móti fært þakklæti mitt og ást í orð. 

saga er hárprúð, skapmikil, brosmild og sérlega falleg. 

hæfileikar sögu eru nokkrir, þrátt fyrir mjög ungan aldur. hún er verulega sterk og frá fyrstu mínútu hefur hennar helsta markmið verið að halda höfði. það gengur vel hjá þessum litla sperripúka. hún er líka svakalega góð að kúka í naflann á sér (why?) og sjúga á sér þumalinn. hún er aftur á móti afar léleg að halda uppi í sér snuðinu, en með þjálfun ætti það að lagast. 
hér er stúlkan mánaðargömul og brjálæðislega sátt við lífið. 

hér að neðan er hún svo sex vikna og langt frá því að vera sátt við lífið. svo leið yfir þessu öllu saman að myndin varð að vera svart/hvít.
vaxtakippir fara sum sé illa í þessa litlu konu og hún lætur það alveg í ljós. undanfarið hefur hún líka verið aum í maganum og önug eftir því, svo að móðirin eyðir stórum hluta dagsins í það að reyna að finna orsök verkjanna og leiðir til að hugga þá stuttu. það sem hefur virkað hingað til er nudd og saga litla stynur af gleði á meðan það fer fram.
móðir hefur auk þess skoðað mataræði sitt og prófaði að sleppa kaffidrykkju og súkkulaðiáti, svo eitthvað sé nefnt, en við það var ástandið enn verra... bæði fyrir móður og barn. kannski sérstaklega móður samt. kaffið er því mætt í líf mitt á ný og ég neita mér ekki um súkkulaði frekar en fyrri daginn. það fer mér bara illa að vera kaffiþyrst og súkkulaðilaus.  

aaah. þetta mömmulíf.

noh. barnið er að vakna. 
hún ræður og þess vegna læt ég bara staðar numið hér. 
fleiri myndir og fréttir síðar.

kveðja, mamman!