Tuesday, June 26, 2012

bókagagnrýni.

mér finnst það hreinlega skylda mín að segja ykkur frá þessari bók. 
aftan á bókinni segir meðal annars að hún hafi farið sigurför um heiminn, hafi setið á metsölulista og hér sé um að ræða verðlaunaverk. auk þess stendur að þetta sé ein af þeim sögum sem að „ rauf múrinn milli spennusagna og fagurbókmennta“. 
þrátt fyrir heldur hátíðlega og dramatískar lýsingar fannst mér þetta virka eins og áhugaverð lesning sem ég ætti ekki að láta framhjá mér fara. þegar ég mætti svo með skrudduna í vinnuna fékk ég enn meiri áhuga á henni, þar sem að starfsfólkið tók andköf og fékk gæsahúð þegar það sá kápuna. allar voru kerlurnar sammála um að þetta væri yndisleg bók sem ég myndi aldrei gleyma. 
hún er ekkert sérstaklega löng, tæplega 200 þéttskrifaðar blaðsíður og ég gerði því ekki ráð fyrir því að vera lengur en 3 daga með hana. þar hafði ég rangt fyrir mér! lesturinn tók um viku (og hluti hennar innihélt næturvaktir!)

ég hef alltaf verið þannig að ef ég byrja á bók þá finnst mér ég verða að klára hana. það á líka við í þessu dæmi. kannski frekar óheppilegt þar sem að þetta er leiðinlegasta bók sem ég hef á ævinni lesið. (fyrir kannski utan veronika ákveður að deyja en af nafninu að dæma hefði ég kannski getað sagt mér það sjálf). ilmurinn fjallar í stuttu máli um mann með ofurnæmt lyktarskyn sem að býr til ilmvatn úr stúlkum sem hann drepur og sjálfur er nágunginn laus við alla líkamslykt. reyndar fer hann í nokkur ár til fjalla og gerir ekkert nema kúka úti í móa og drekka úr lækjum. þá var hann víst með mjög langar neglur líka. hún er ekki illa skrifuð, þvert á móti með yfirnáttúrulegar lýsingar á öllu mögulegu en allt annað fannst mér hörmung. það gerist ekki neitt í þessari bók, hún er mjög skrýtin og endar eiginlega ekki á neinu. ég beið alltaf eftir að eitthvað myndi ské, en sá þegar ég var hálfnuð með bókina að þetta var ekki ein af þessum sem er lengi í gang. hún fór bara aldrei í gang, heldur var bara ógeðslega skrýtin og leiðinleg (að mér fannst) frá upphafi til enda. oj!
ef ég fæ gæsahúð í framtíðinni við það eitt að sjá þessa bók þá vitiði af hverju það er... hryllingsgæsahúð!

nú verð ég samt að sjá myndina. ætli hún sé jafn ógeðslega döll og furðuleg?

Tuesday, June 19, 2012

ég hef með einhverjum ótrúlegum hætti náð að réttlæta fyrir sjálfri mér kaupum á snjallsíma. fyrr hélt ég nú að frysi í helvíti en að ég færi að eyða mánaðarlaunum í tæki sem hringir og sendir skilaboð, en svona er maður glær og áhrifagjarn. ég hélt heldur aldrei að ég myndi fá mér hund... en ég á flóka (eins og þið hafið orðið vör við geri ég ráð fyrir).
en jæja, aftur að símakaupum. til þess að sannfæra sjálfan mig um að ég þurfi á nýjum og stórdýrum síma að halda hef ég meðal annars notað eftirfarandi ástæður:
a) ég tek að mér aukavaktir og fæ þar með aukapening. stór plús.
b) aldrei hef ég eytt pening í litun og plokkun (já! það er alveg gild ástæða og já hugsanlega þyrfti ég samt að láta einhvern annan en mig plokka augabrúnirnar á mér...)
c) ég eignaðist fyrstu fartölvuna fyrir 3 árum. 
d) þeir farsímar sem ég hef átt í gegn um tíðina (5 talsins og þar af einn sem ég átti með mömmu) hafa samtals kostað undir 40 þúsundum. sver fyrir það!


svona gæti ég talið aðeins áfram, en þetta eru stærstu atriðin sem ég hef kosið að notast við. eftir þessa miklu réttlætingu og upptalningu fyrir sjálfri mér tók við annað vandamál - val á síma! (og reyndar kaup. einhver á leiðinni til bandaríkjanna? plís prittí plís?)


nú hef ég útilokað alla nema tvo, samsung galaxy s2 eða iphone 4s. ég hallast meira að öðrum þeirra en langar að fá almannaálit - hvor er betri krakkar!? er mikill munur, ég kann ekki svona tæknimál... hvor ætli endist betur? er maður að borga 40 þúsund auka fyrir bara merkið hjá iphone? DILEMMA!


svo held ég að það sé óþarfi að taka fram að mitt tryllitæki er til sölu. tek við öllum tilboðum en læt hann ekki á minna en 60 þúsund! algjört lágmark. það er smá rispa á skjánum og bakhliðin er límd á. svo slekkur hann reyndar stundum á sér upp úr þurru og tekur ekkert endilega við öllum skilaboðum - sérstaklega ekki myndaskilaboðum. annars er hann bara í mjög góðu ástandi og eins og sjá má á myndinni þá er þetta slide sími, en það er fítus sem hvorki iphone né samsung hafa. hann þolir líka högg mjög vel, það veit ég af reynslu. endilega hafiði samband.

Thursday, June 14, 2012

eftir því sem líður á vikuna hef ég orðið grárri í framan og augun þrútna dag frá degi (og það er ekki bara út af ofnæmi). næturvaktirnar eru erfiðari en mig grunaði og ég tek hattinn ofan fyrir fólki sem vinnur svona alla jafna. ég er fyrir löngu búin að tapa tímaskyninu og hef ekki minnstu hugmynd um það hvaða dagur er, í alvöru talað. nóttin er ekki lengur til og vikan virðist þess vegna bara vera einn langur sólahringur. síðasta vaktin er næstu nótt og svo tekur við helgarfrí og það af lengri gerðinni. óskaplega sem það verður gott og ég er strax farin að ákveðna hversu lengi ég ætla að sofa út og hvað ég ætla að borða í hádegismat. (þessi aukna dramatík er svo vonandi bara hluti af því að vera svefndrukkin... hún var nú alveg til staðar fyrir og það í þokkalegu magni og því ekki á hana bætandi!) það er nefninlega lítið hægt að sofa þegar heim er komið þar sem að verið er að gera garðinn í húsinu á horninu nýjan og fínan. það fylgir því hávaði að rífa niður tré og girðingar og ekki bætti úr skák að í gær (held ég) voru allir gluggakarmar pússaðir og málaðir. 

en þetta fyrirkomulag er samt ekki alslæmt, þvert á móti. það er nefnilega margt hægt að brasa í skjóli nætur, á meðan flestir sofa á sínu græna eyra. fyrir utan það að hlusta á útvarpið og lesa hef ég svalað kaupþorsta mínum með því að skoða búðir á internetinu. (það er svölun sem beita þarf þegar pyngjan er létt. alvöru kaup eru að sjálfsögðu ákjósanlegri í svölun og að öllu miklu miklu skemmtilegri, en svoleiðis kemur bara með haustinu). 
það sem mig langar mest að eignast þessa dagana er bakpoki. þeir virðast vera voðalega mikið í tísku og því ætti þetta mission að vera auðvelt. bakpokar eru á allan hátt betra fyrirbæri en hliðartöskur eða þær sem hanga á framhandlegg, ég hef alveg reynt að pæjast þannig, en það floppar oftast á fyrsta degi.
ég á einn eldgamlan fjällräven sem fer alveg að slitna í sundur og þarf því sárlega að finna nýjann til að fylla skarðið. 
lítum á það sem til er!


þessi finnst mér samt fallegri drapplitaður, ég get bara ekki sýnt ykkur hann. urban outfitters bannar mér það!



mætti vera nokkrum tónum minna bleikur... en jæja.





ég væri nú SVOLÍTIÐ fín með marc jacobs á bakinu. bara smá!

það er til ógrynnin öll af fínum pokum og ég gæti endalaust sett inn myndir, en ég ætla ekki að gera það. það yrði bara leiðigjarnt. þið fenguð allavega smjörþefinn af því sem ég hef séð og skoðað... vandamálið er að ég veit ekki hver selur helminginn af þessum pokum, ég man ekkert hvar ég fann þá!
jæja - best að byrja þá bara upp á nýtt.

Tuesday, June 12, 2012

hvað haldiði? virkir morgnar eru endurfluttir á nóttunni!
þessi uppgvötun mín var þvílíkur endalaus blússandi léttir og næturvaktirnar eru nú orðnar töluvert glaðlegri ásamt því að blóðþrýstingurinn er kominn í samt lag (eða svona næstum). virkir morgnar eru nefnilega uppáhaldið mitt.


hvað bækurnar varðar þá hef ég allt í einu tekið upp þá taktík að vera með margar í gangi hverju sinni. ég veit ekkert af hverju en með þessu móti finnst mér ég vera að græða rosalegan tíma og get líka bara lesið sögu eftir því hvernig skapið og veðrið er. þetta er reyndar mjög hentugt upp á það að gera. ekki jafn hentugt að ferðast með þetta allt saman... en það verður að hafa það.


annars langaði mig bara að sýna ykkur nýjasta heimilistækið og líklega þann hlut sem kemur til með að fullkomna búskap hússins á horninu. (allavega í þessari íbúð, ég veit ekki stöðuna hjá nágrönnunum). 
ég kynni hér með til sögunnar poppvélina sem ég hef ákveðið að kalla iðunni. megi hún færa okkur mikið af poppi, eftirspurnin á heimilinu er ekki eðlileg.

Friday, June 8, 2012

það að horfa á hryllingsmynd, til þess að drepa tímann á næturvakt, er sennilega ömurlegasta hugmynd sem ég hef fengið á ævinni! af hverju setti ég ekki bara stiklur í tækið? nú eða stillimyndina á rúv og las séð&heyrt svona samhliða þeim hasar? í staðin ákvað ég að horfa á bíómynd um morð og sat svo í lengri tíma og reyndi  að einbeita mér að einhverju öðru en öllum hljóðunum og brakinu sem virtist æpandi hátt (en var samt ekki til staðar. það brakaði ekki einum einasta hlut og þögnin var algjör og í raun virkilega friðsamleg). 


ég get ekki skilið hvaðan þessi hræðsla mín kemur, en hún er alls ekki ný af nálinni! ég er með sérlega gott draugaímyndunarafl og virðist vera furðulega fljót að hræðast aðstæður sem hugsanlega gæti lent í (samt alls ekki)... og þær eru aldrei fallegar, svona þegar ég er hrokkin í dramagírinn. einu sinni hélt ég til dæmis að eldri kona, í stórri kápu, væri morðingi með hníf sem vildi mig feiga. ekki djók! ég var svona 14 ára og mætti þessari saklausu manneskju á göngustíg á leið minni heim. þegar ég hafði svo spunnið upp þennan annars ágæta karakter úr henni hljóp ég í burtu á tíma sem hefur að öllum líkindum slegið einhver met. það sko rauk úr rassinum á mér.
stuttu seinna var ég svo ein heima og tók þá ákvörðun að sofa í forstofunni, af því að ég þorði ekki inn í íbúðina. eðlilegt?


26 ára (bráðum) kíki ég enn undir rúm ef ég hef verið að lesa eða horfa á eitthvað sem ýtir aðeins undir blóðþrýstinginn og sef með útvarpið í gangi ef því er að skipta. af þessum ástæðum er ég til dæmis sérstaklega ánægð með það að eiga orðið hund. ekki það að hann gæti nokkurn skapaðan hlut gert fyrir mig ef í illt færi, en það er einhver smá huggun í því að hafa hann hjá sér. ég hika þess vegna ekki að draga hann með mér upp í rúm þegar betri helmingurinn hefur skilið mig eftir eina. aumingja flóki litli, neyddur til að hugga snarbiluðu og taugaveikluðu konunni sem á hann. 


við erum svipað svöl - ég og þessi api.

Tuesday, June 5, 2012

point taken - þetta pils féll ekki í kramið. allt í lagi þá!
reyndar er staðan í pilsmálum hússins á horninu ekki nógu góð, náði nefnilega ekki að fagna sumri með kaupum á einu slíku. því verður kippt í liðinn eins fljótt og hægt er.
fögnuður átti sér samt sem áður stað og það miklu betri. ég fór í útilegu um helgina með yndislegum vinum, barni (nei, ekki mínu) og hundi. tjölduðum við seljalandsfoss í blússandi roki og útihátíðarstemningu. þar var búið að skera botn úr tjaldi og eitthvað var um kappakstur á túninu... unglingarnir voru sem sagt í stuði, bara svona eins og gengur og gerist. menntaskólahútt eitthvað.
ellismellirnir og lúðarnir pökkuðu því saman í bítið og brunuðu upp í haukadal þar þeir komu sér fyrir í lítilli laut, með uppblásnar vindsængur, snakk og bjór. nú held ég að ég sé með sólarexem og freknunum fjölgaði töluvert. 


taaaalandi um sól! þvílíka blíðan sem er búin að vera hérna undanfarið. jédúddamía! mér leið á föstudaginn eins og ég væri í danmörku og gekk svo langt að draga fram viftuna, enda enginn trekkur í íbúðinni þannig að loftið stendur gjörsamlega í stað suma daga. (viftan var reyndar aðallega fyrir litla svarta lafmóða flóka sem vissi ekki hvað hann átti af sér að gera í hitanum. aumingja dýrið).
passiði ykkur samt að bera á ykkur vörn - öryggið á oddinn og allt það!
og gleðilegan sjómannadag, þá!




hér eru bílstjórinn, aðstoðarbílstjórinn og snakklegni farþeginn, sem tók myndina, á leiðinni heim.