Tuesday, April 29, 2014

það er eins gott að ég er ekki starfandi pistlahöfundur, sem fær greitt fyrir hverja skrifaða færslu. ég færi fljótt á hausinn er ég hrædd um. 
en hvað um það. hér er ég mætt og búin að heyra í lóunni. það er, eins og þið eflaust eruð farin að þekkja, fátt sem að gleður mig meira en lóan. skapið hefur því sjaldan verið betra og ekki hefur veður undanfarinna daga dregið úr gleðinni. þvílík dásemd sem það er að staulast fram úr og opna út á pall sem er svo baðaður í sól frá hádegi og fram á kvöld. 

ég elska nýja heimilið mitt!

en haldiði ykkur fast, því gleðin er hvergi nærri búin. kirsuberið á kökunni er nefnilega mamma, en hún er einmitt í heimsókn og verður hér næstu daga. 
mamma er eitthvað svo mikið meira en bara góð kona. hún er einstaklega dugleg og útsjónarsöm og svo er hún líka jákvæðasta manneskja sem ég þekki. það býr einhver ótrúleg orka og þolinmæði í mömmu sem gerir hana að bestu konu í heimi (hugsanlega er ég smá hlutdræg, en samt ekki). svo átti hún líka afmæli í gær!
hér er mamma (til hægri) ásamt erlu systur sinni. þær eru báðar mennskar handavinnuvélar og eru strax farnar að dekra litla hjarta í tætlur. pínulitlir prjónaðir sokkar, dásamlega falleg peysusett og kjólar eru því brot af því sem komið er ofan í skúffu. 
hugsa sér heppnina hjá sigurjónsdóttur, að eiga tvær ofurgóðar ömmur og eina svona ská! 

Friday, April 11, 2014

við litla hjarta erum orðnar betri í skapinu og farnar að sætta okkur við gang mála. ég hef fundið mér nokkrar afar sjarmerandi stellingar til þess að fara í þegar súrefnisskorturinn er að gera út af við mig og lungun eru komin upp í kok. minn uppáhaldsstaður hér heima er því stofugólfið, því þar næ ég að koma mér fyrir án þess að eiga það á hættu að líða út af (of dramatískt, nei nei). 
aðrar meðgöngufréttir eru annars þær að sú stutta er búin að koma sér í höfuðstöðu án þess þó að ganga svo langt að vera búin að skorða sig. „alveg eftir bókinni" eins og ljósmóðirin sagði. hingað til hafa allar skoðanir verið alveg eftir þessari umtöluðu bók svo að ég geri ráð fyrir því að hér sé á ferðinni lítill og ferkantaður reglupjakkur eins og móðirin, en hún á einmitt sérstaklega erfitt með að bregða út af vananum eða gera eitthvað sem ekki var planað með fáranlegum fyrirvara. það væri gaman fyrir sigurjón því þetta er einmitt sá eiginleiki sem hann elskar hvað mest í fari mínu... not!

ómeðgöngutengdar fréttir (og örugglega ástæðan fyrir því að skapið var skyndilega svona fínt) eru þær að foreldrar mínir komu í heimsókn fyrir viku síðan. eins og þið kannski vitið og munið þá er ég einmitt svo heppin að eiga ekki bara fína foreldra, heldur þá allra bestu í heiminum. ekki lygi.
það var yndislegt að fá þau og hafa mömmu ílandi á bumbunni og pabba glottandi við hliðina á. það var ekki verra að mamma lappaði upp á gardínumál hér í rauða húsinu á sogaveginum og pabbi grillaði dásemdar máltíð ofan í mannskapinn.
nú er bara að telja niður í páskafrí, því þá ætlum við norður í enn meira dekur! 




það til næst - farin í bústað!

Wednesday, April 2, 2014

ég er orðin konan sem ég hélt ég myndi aldrei verða, skollinn sjálfur.
leyfið mér að útskýra.

mér hefur alltaf þótt óléttar konur fallegar, meðgangan merkileg og í raun algjört kraftaverk. ég var ekki mjög gömul þegar ég sá ólétta konu á vappi á akureyri, í hvítum kjól með brúnt liðað hár og ákvað þá og þegar að svona myndi ég vilja vera þegar kæmi að barneignum. hraust og hress og svolítið eins og gyðja. ég gerði mér að sjálfsögðu fljótt grein fyrir því að þetta væri nú ekki svona auðvelt. meðgöngur væru jafn misjafnar og þær eru margar, kvillar geti verið af ýmsum toga og konur hafa voðalega lítið val um hvernig þessum málum er háttað. það breytti því þó ekki að mér fannst þetta það allra fallegasta í heimi. ég skildi aldrei hvernig konur gátu sagt óhikað hvað þær væru orðnar feitar. þær væru jú ekki að fitna, heldur væri lítil manneskja að vaxa innan í þeim. ég skildi heldur ekki hvernig þeim gat fundist þær ljótar og þreyttar, mér sem fannst þær bara eins og geislandi englar sendir af himnum. ég sá barneignaraldurinn (sem virðist bara vera eitthvað skjalfest apparat) fyrir mér sem algjört draumatímabil og hlakkaði til að upplifa meðgöngu og fá á mig kúlu og allar græjur. ofsa spennt!

nú stend ég í þessum sporum, framtíðarplönin um að ganga með barn og stofna til fjölskyldu eru að verða að veruleika og það er sannarlega ekki sjálfgefið. og þrátt fyrir að vera verulega heppin, hraust og að mestu kvillalaus, þá er ég orðin konan sem ég skildi ekkert í hér forðum daga. ég er sko full af þakklæti, tilhlökkun og gleði en sjarminn af meðgöngunni er gott sem farinn og mér finnst þetta orðið erfitt og pínu þreytandi. ég veit alveg að ég er ekki að fitna, en það sem mér finnst ég vera feit. oj hvað ég upplifi mig feita og þunga. hver einasti morgun er leiðinlegur, því þá þarf ég að fara í föt... önnur en náttföt. mér líður eins og ég eigi einn bol sem ég passa í og mér finnst hann bara ljótur flesta daga. hann er það ekkert, hann er bara svartur og venjulegur, en ég vil helst ekki sjá hann. látið mig ekki einu sinni byrja á buxnaumræðum... 
mér finnst ég sem sagt aldrei fín!
svo þyngist ég bara eins og brjálæðingur og hef enga stjórn á því. djöfull fer það í taugarna á mér. bjóst ég við því, á þessum himneska englatímabili? nei krakkar. ég bjóst sko ekki við því að ég myndi spá í kílógrömm.

ég er sömuleiðis ógeðslega þreytt og finnst ég þar af leiðandi frekar ljót. ég sef orðið frekar laust og illa og brjótsviðinn hjálpar ekkert til með það. minnsta brak úti í garði eða hrota í sigurjóni vekur mig og ég tek mér góðar 40 mínútur í það að sofna aftur. oft oft oft á nóttu. barnið potar sér í rifbeinin á mér í gríð og erg, ég á erfitt með að sitja og lesa, ég á erfitt með að liggja og lesa og ég á erfitt með að anda. ég stuttu máli finnst mér þetta orðið erfitt.


ég vona að þið misskiljið mig ekki og teljið mig vera algjörlega veruleikafirrta. ég veit til dæmis að þetta er bara byrjunin. ég á eftir að verða svo þreytt að þessir dagar eru bara sæluvíma við hliðina á þeirri þreytu sem á eftir að mæta mér. ég vissi bara ekki að þetta annars yndislega tímabil gæti tekið svona í! ég var búin að sjá fyrir mér aðeins öðruvísi stemningu.

aldrei aftur ætla ég að mótmæla þegar ólétt kona segir að henni líði ekki vel og finnist hún feit. aldrei aftur skal ég draga það í efa að þessir mánuðir geti bara verið ógeðslega leiðinlegir og glataðir þó svo að viðkomandi sé kannski að fá sína heitustu ósk uppfyllta. aldrei aftur skal ég verða stereótýpan sem sér nánast allar meðgöngur sem besta tímabil í lífi hverrar konu, svífandi um á rómatísku bleiku skýi.  

kveðja, móðir og 30 vikna valkyrja sem verða vonandi aðeins léttari í lundu á morgun.