Sunday, October 20, 2013

skólalaust líf er algjörlega vanmetið fyrirbæri. 
kostirnir sem fylgja því að vera í námi eru vissulega margir, en þegar leiðinn gerir vart við sig þá hverfa þeir eins og dögg fyrir sólu. slíkur leiði á það svo sannarlega til að mæta á svæðið, sérstaklega þegar kona hefur lokið grunnskóla, menntaskóla, tekið 5 ár í bachelor nám og veður svo beint í master. það eru rosalega mörg skólaár og nokkur ansi þung (sérstaklega þau sem voru á dönsku). 
nú, þegar ég stend í miðri starfsþjálfun, þá svífa ekki yfir mér alls konar verkefni og endalaust lesefni. ég læri með því að horfa, gera og prófa og þegar vinnudegi líkur þá hef ég tíma og næði til þess að melta það sem dagurinn gaf mér. svo fæ ég líka bestu gjöf í heimi - helgarfrí. ég sit ekki og les á meðan mér finnst allir í heiminum vera að gera eitthvað fáranlega skemmtilegt. 

aaahh... bara tvær og hálf önn eftir og þá verð ég stanslaust í helgarfríi!

þessi dagur var vel nýttur. upp úr hádegi fórum við sjonni í bíltúr sem innihélt stopp í þorlákshöfn, á eyrarbakka og stokkseyri, sundsvaml í hveragerði og dásamlegt kaffihúsarmal með móðurbróður og spúsu, auk ömmu og afa.  
engar áhyggjur, hakúnamatata. 







en fyrst ég er byrjuð. einhver sem gæti hugsað sér að skrifa mastersritgerðina mína?

Wednesday, October 9, 2013

sigurjóni til mikillar (!) mæðu hef ég sérstaklega gaman af því að raula, gaula og syngja... bæði frumsamið efni, misgott vissulega - ég tek það alveg á mig, en líka bara með öllu sem ég heyri. öllu! og þá skiptir engu hvort ég kann textann eða ekki, ég bara syng með... og það hátt. 
mæðu mannsins er hægt að rekja beint til hæfileika minna, því þó svo að ég sé sígalandi þá þýðir það ekki að ég geri það vel. ég held alveg lagi, en þar getum við líka sett punktinn. engar dúllur eða flottheit. það má því segja að við höfum bæði unnið í gleðilottóinu þegar ég rambaði inn á æfingu hjá besta kvennakór í heimi (takk helga!). það er sérstök lukka fólgin í því að á þeim tíma voru inntökupróf ekki hluti af prógramminu, ef þið skiljið hvað ég er að faaara (plís ekki reka mig!). þarna fæ ég, einu sinni í viku og stundum meira að segja oftar, að losa um alla söngþörf og sigurjón er að sama skapi frelsinu feginn. laus við varginn og eyrun fá frið. (hann er djóklaust með heyrnaskaða, blessaður anginn, en hvort það tengist mér á einhvern hátt skal ósagt látið). 

síðustu helgina í september héldum við stöllur í æfingabúðir. sungum í hundrað tíma eftir að hafa hitað upp með jógaæfingum, héldum kvöldvöku og partý, dúlluðumst í haustsólinni og gistum eina nótt. það er ekki hægt að hugsa sér betri félagsskap! 




jógaupphitun í sólinni.
lögðum undir okkur hlíðadalsskóla og fengum hunda í kaupbæti. 
besti.partýleikur.ever! segi ekki meir.

ég er kannski hlutdræg, veit það ekki, en ég mæli eindregið með því að þið líkið við okkur á facebook og fylgist með tónleikahaldi. 

Tuesday, October 1, 2013

status: ég er búin að hjóla oftar í skólann þessa önn en ég gerði allt BA námið mitt. ástæðan er með öllu óljós en lungu og læri mótmæla stöðugt. hjólatúrinn tekur á og því mæti ég oftast móð og másandi með sveitt enni og efri vör, blessi fólkið í bekknum mínum. við erum hátt í 40 í skólastofu sem er álíka stór og meðal bítibúr, þannig að við sitjum öxl við öxl og nefbroddurinn rekst í hnakkann á næsta manni. nú hefur þó verið gert örlítið hlé á þessu ástandi því næstu fimm vikurnar verð í starfsnámi á landspítalanum. fæ hvítan slopp og kort og allt! 

annars er það helst að frétta að hundurinn er enn heimskur og ég hef ekki enn náð að klára prjónaverkefnið mitt. er þó búin að gera báðar ermarnar og sauma þær saman en þær bara passa ekki í ermagötin á búknum. hvernig í helvítinu gerist það!? þetta verður bara að vera vesti, ég er að segja ykkur það!
svo er meistaramánuðurinn byrjaður og ég sýni honum alveg jafn mikið skilningsleysi og í fyrra. jafnvel meira, því að nú er fólk að setja enn meira um markmiðin sín á facebook, myndir af skráningu og alls konar leiðinlegu stöffi. þetta er alveg gott og blessað en þarf í alvöru að tala svona mikið um það að fólk ætli í 30 daga að vera aðeins aktívara og duglegra við að drekka vatn í staðin fyrir bjór? þetta eru 30 dagar krakkar!

æj okei. ég er fúl á móti, sorrý.
það má... einu sinni í mánuði. sérstaklega í meistaramánuði. 

aaa... allt í einu tengdi ég þetta! það er markmiðið mitt, að vera meistaralega fúl í tæpa viku í október. hehö.