Friday, June 8, 2012

það að horfa á hryllingsmynd, til þess að drepa tímann á næturvakt, er sennilega ömurlegasta hugmynd sem ég hef fengið á ævinni! af hverju setti ég ekki bara stiklur í tækið? nú eða stillimyndina á rúv og las séð&heyrt svona samhliða þeim hasar? í staðin ákvað ég að horfa á bíómynd um morð og sat svo í lengri tíma og reyndi  að einbeita mér að einhverju öðru en öllum hljóðunum og brakinu sem virtist æpandi hátt (en var samt ekki til staðar. það brakaði ekki einum einasta hlut og þögnin var algjör og í raun virkilega friðsamleg). 


ég get ekki skilið hvaðan þessi hræðsla mín kemur, en hún er alls ekki ný af nálinni! ég er með sérlega gott draugaímyndunarafl og virðist vera furðulega fljót að hræðast aðstæður sem hugsanlega gæti lent í (samt alls ekki)... og þær eru aldrei fallegar, svona þegar ég er hrokkin í dramagírinn. einu sinni hélt ég til dæmis að eldri kona, í stórri kápu, væri morðingi með hníf sem vildi mig feiga. ekki djók! ég var svona 14 ára og mætti þessari saklausu manneskju á göngustíg á leið minni heim. þegar ég hafði svo spunnið upp þennan annars ágæta karakter úr henni hljóp ég í burtu á tíma sem hefur að öllum líkindum slegið einhver met. það sko rauk úr rassinum á mér.
stuttu seinna var ég svo ein heima og tók þá ákvörðun að sofa í forstofunni, af því að ég þorði ekki inn í íbúðina. eðlilegt?


26 ára (bráðum) kíki ég enn undir rúm ef ég hef verið að lesa eða horfa á eitthvað sem ýtir aðeins undir blóðþrýstinginn og sef með útvarpið í gangi ef því er að skipta. af þessum ástæðum er ég til dæmis sérstaklega ánægð með það að eiga orðið hund. ekki það að hann gæti nokkurn skapaðan hlut gert fyrir mig ef í illt færi, en það er einhver smá huggun í því að hafa hann hjá sér. ég hika þess vegna ekki að draga hann með mér upp í rúm þegar betri helmingurinn hefur skilið mig eftir eina. aumingja flóki litli, neyddur til að hugga snarbiluðu og taugaveikluðu konunni sem á hann. 


við erum svipað svöl - ég og þessi api.

4 comments:

  1. hahaha...kannast aðeins við þetta!

    ReplyDelete
  2. Ég sé að ég misskildi eitthvað þetta Flókamál í upphafi, taldi að hann væri á staðnum til að gleðja Sigurjón en nú sé ég að Sigurjón hefur verið að útvega sér einhvern til að passa fyrir sig! Sætt af honum.

    ReplyDelete
  3. Ég gæti hafa skrifað þennan pistil! Er nákvæmlega eins!

    ReplyDelete