Sunday, February 23, 2014

loks er allt að falla í ljúfa löð í rauða húsinu á sogaveginum.
hundurinn er í fyrsta lagi búinn að jafna sig. þegar á flutningum stóð fór hann í nokkurra daga hungurverkfall og upplifiði frekar áttavillt tímabil greyið. hann hefur nú náð áttum og farinn að haga sér í samræmi við greind og fyrri getu, sem sagt bara furðulega.
sjónvarpið er komið á vegginn, internetið er tengt og barnaherbergið er fullt af drasli. á það ekki annars að vera þannig, þó að barnið sé kannski ekki enn komið?
nú... eins og við var að búa þá vex bumban eftir því sem tíminn líður og barnið iðar sem aldrei fyrr. 

mynd máli mínu til stuðnings, 19 vikur og 23 vikur.

aftur að íbúðarmálum. mig sárvantar (langar. samt meira vantar. æ má maður!) hillur í stofuna. það eru enn nokkrir smáhlutir og bækur sem hafa ekki fengið viðeigandi stað og veggurinn sem ég hef í huga er frekar tómlegur og bjánalegur. fyrst langaði mig, eins og held ég bara allir á íslandi, í hansa hillur en ég bakkaði frá þeirri dellu jafnt og örugglega. í staðin langar mig í sting pocket hillur, sem fást til að mynda í epal. þær eru það fallegasta sem ég veit og hægt að velja sér lit og viðartegund, allt eftir smekk. eeeen (það er alltaf en) þær eru líka það dýrasta sem ég veit. draslinu sem er enn á vergangi hefur því verið troðið inn í barnaherbergi, að sjálfsögðu, og hvernig-get-ég-eignast-hillurnar missionið er í vinnslu. ég læt vita hvernig gengur. ég á um fimmhundruð krónur á kortinu mínu eins og stendur þannig að þetta gæti tekið smá tíma. verið þolinmóð, eins og ég, og njótiði þess að skoða myndir af þessum fallegu mublum á meðan.





þetta hillukerfi er sænskt, allt sænskt virðist vera fallegt, og er frá árinu 1949. það er vissulega smá hansa stíll á þeim, en mér finnst notalegt að geta valið viðinn. líkt og með hansa er svo hægt að bæta endalaust við og raða og púsla hingað og þangað. 




skref eitt í átt að hillukaupum, hætta að borða á sunnudögum?

Friday, February 14, 2014

þessi hundrað daga hamingjuherferð er falleg. ég held við höfum öll gott af því að skoða litlu hlutina í kringum okkur og vera ánægð og þakklát. ég nenni samt ekki fyrir mitt litla líf að taka þátt í henni og þess þá heldur að fylgjast með öllum hinum sem eru með. allar myndirnar á instagramminu mínu eru merktar #100happydays og það er strax orðið þreytt. samt er fólk bara búið með svona fimm daga. hjálpi mér. (fýlu lokið. má maður stundum vera fúll á móti. (ég er það reyndar mjög oft. en okei)).

ef ég væri með í þessu þá myndi ég afgreiða þetta á einu bretti. samkvæmt snjallsímaforritinu mínu eru 116 dagar í áætlaðan lendingardag barns. sumarsólstöður eru 21. júní (held ég). það þýðir að alla mína hundrað daga get ég tengt við hækkandi sól, meiri birtu og minna myrkur. #100happydays - done. 
það er ekkert eðlilegt hvað dagsbirtan gleður mig mikið.



Tuesday, February 11, 2014

við erum sem sagt ennþá netlaus, sem að þessu sinni skýrir fjarveru mína (og hin vanalega leti að sjálfsögðu). netleysi á sér tvær hliðar. það getur verið virkilega afslappandi og frelsandi að komast ekki á netið og eyða ekki endalausum tíma á facebook, mbl og youtube en að sama skapi getur það verið ólýsanlega heftandi og þreytandi. sérstaklega þegar 3g sambandið er af skornum skammti. (og þegar ástæðan liggur í tossaskap símafyrirtækisins og, að því er virðist, hugsunarleysi starfsmanna. í alvöru. ef að starfið þitt felst í að senda flutningsbeiðnir og þú færð meldingu um að sjonni og dagný hafi flutt frá A til B, hvernig dettur þér í hug að senda flutningsbeiðnina á A? ég skil ekki. er ekki frekar augljóst að við fluttum frá A til B, og netið þarf að koma á nýja staðinn?)

ég blótaði mjög mikið yfir þessu í gær og hélt því aðeins áfram í dag, en hef náð innri ró. eins og er. ég held samt að það sé aðallega af því að ég fékk mér þrist og kókómjólk áðan, sem er allra meina bót.

stutt lýsing af nýja hverfinu er þessi:
ótrúlegt en satt þá er þetta smá eins og að vera fluttur í sveitina. það er engin hávaði frá umferðinni, miklabrautin ómar úr fjarska en það er bara eins og lækjarniður. hér leika hundar lausum hala, sigurjóni og flóka til mikillar gleði. mér aftur á móti til mæðu. flóki hefur meira að segja eignast leikfélaga (ekki grín) því á hverjum morgni bíður hans hundur úti á tröppunum okkar. laus, að sjálfsögðu. þetta er svo fáranlega skrýtið. ég skil ekki af hverju það er svona mikið af lausum hundum hérna, og svona til að það komi skýrt fram þá eru eigendur hvergi sjáanlegir. þetta eru þó gæf dýr og gömul, með ól og þau fara alltaf heim eftir litla labbitúrinn sinn... en ég bara skil þetta ekki!
sjónvarpið er komið upp á vegg,  gardínur eru af skornum skammti og sigurjón nær að lokka mig fram úr með því að minna mig á gólfhitann. 

viljiði myndir?