Wednesday, April 2, 2014

ég er orðin konan sem ég hélt ég myndi aldrei verða, skollinn sjálfur.
leyfið mér að útskýra.

mér hefur alltaf þótt óléttar konur fallegar, meðgangan merkileg og í raun algjört kraftaverk. ég var ekki mjög gömul þegar ég sá ólétta konu á vappi á akureyri, í hvítum kjól með brúnt liðað hár og ákvað þá og þegar að svona myndi ég vilja vera þegar kæmi að barneignum. hraust og hress og svolítið eins og gyðja. ég gerði mér að sjálfsögðu fljótt grein fyrir því að þetta væri nú ekki svona auðvelt. meðgöngur væru jafn misjafnar og þær eru margar, kvillar geti verið af ýmsum toga og konur hafa voðalega lítið val um hvernig þessum málum er háttað. það breytti því þó ekki að mér fannst þetta það allra fallegasta í heimi. ég skildi aldrei hvernig konur gátu sagt óhikað hvað þær væru orðnar feitar. þær væru jú ekki að fitna, heldur væri lítil manneskja að vaxa innan í þeim. ég skildi heldur ekki hvernig þeim gat fundist þær ljótar og þreyttar, mér sem fannst þær bara eins og geislandi englar sendir af himnum. ég sá barneignaraldurinn (sem virðist bara vera eitthvað skjalfest apparat) fyrir mér sem algjört draumatímabil og hlakkaði til að upplifa meðgöngu og fá á mig kúlu og allar græjur. ofsa spennt!

nú stend ég í þessum sporum, framtíðarplönin um að ganga með barn og stofna til fjölskyldu eru að verða að veruleika og það er sannarlega ekki sjálfgefið. og þrátt fyrir að vera verulega heppin, hraust og að mestu kvillalaus, þá er ég orðin konan sem ég skildi ekkert í hér forðum daga. ég er sko full af þakklæti, tilhlökkun og gleði en sjarminn af meðgöngunni er gott sem farinn og mér finnst þetta orðið erfitt og pínu þreytandi. ég veit alveg að ég er ekki að fitna, en það sem mér finnst ég vera feit. oj hvað ég upplifi mig feita og þunga. hver einasti morgun er leiðinlegur, því þá þarf ég að fara í föt... önnur en náttföt. mér líður eins og ég eigi einn bol sem ég passa í og mér finnst hann bara ljótur flesta daga. hann er það ekkert, hann er bara svartur og venjulegur, en ég vil helst ekki sjá hann. látið mig ekki einu sinni byrja á buxnaumræðum... 
mér finnst ég sem sagt aldrei fín!
svo þyngist ég bara eins og brjálæðingur og hef enga stjórn á því. djöfull fer það í taugarna á mér. bjóst ég við því, á þessum himneska englatímabili? nei krakkar. ég bjóst sko ekki við því að ég myndi spá í kílógrömm.

ég er sömuleiðis ógeðslega þreytt og finnst ég þar af leiðandi frekar ljót. ég sef orðið frekar laust og illa og brjótsviðinn hjálpar ekkert til með það. minnsta brak úti í garði eða hrota í sigurjóni vekur mig og ég tek mér góðar 40 mínútur í það að sofna aftur. oft oft oft á nóttu. barnið potar sér í rifbeinin á mér í gríð og erg, ég á erfitt með að sitja og lesa, ég á erfitt með að liggja og lesa og ég á erfitt með að anda. ég stuttu máli finnst mér þetta orðið erfitt.


ég vona að þið misskiljið mig ekki og teljið mig vera algjörlega veruleikafirrta. ég veit til dæmis að þetta er bara byrjunin. ég á eftir að verða svo þreytt að þessir dagar eru bara sæluvíma við hliðina á þeirri þreytu sem á eftir að mæta mér. ég vissi bara ekki að þetta annars yndislega tímabil gæti tekið svona í! ég var búin að sjá fyrir mér aðeins öðruvísi stemningu.

aldrei aftur ætla ég að mótmæla þegar ólétt kona segir að henni líði ekki vel og finnist hún feit. aldrei aftur skal ég draga það í efa að þessir mánuðir geti bara verið ógeðslega leiðinlegir og glataðir þó svo að viðkomandi sé kannski að fá sína heitustu ósk uppfyllta. aldrei aftur skal ég verða stereótýpan sem sér nánast allar meðgöngur sem besta tímabil í lífi hverrar konu, svífandi um á rómatísku bleiku skýi.  

kveðja, móðir og 30 vikna valkyrja sem verða vonandi aðeins léttari í lundu á morgun.

15 comments:

  1. ææ elsku mús! á ég sumsé frekar að prjóna á þig heldur en litla gullið? og senda þér krúttilega dýra vídjó til að létta þér lundina?

    :* :* :*

    ReplyDelete
    Replies
    1. já vídjó!
      nei prjónaðu nú frekar á litla hjarta. það er miklu ódýrara og tekur hundrað sinnum styttri tíma ;)

      Delete
  2. Hahahha... feel your pain.
    Eina skiptið sem ég er virkilega hamingjusöm er í sundlauginni, finn ekkert fyrir þessum blessuðu aukakílóum þar! Nýja fíknin mín, og lemon djús á heimleiðinni...

    ReplyDelete
    Replies
    1. já, við förum í sund orðið hverja helgi. verð að gera það oftar bara held ég, þvílíkur lúxus sem það er!
      ætla að upgrade-a mig svona eins og þú og fá mér lemon með næst!

      Delete
  3. Ó! Elsku Dagný hvað ég get tekið undir þetta alltsaman, og bætt við stanslausri ógleði fram á 34. viku og ælustand. Plús að geta ekki labbað meira en 100 metra án þess að fá tryllta samdrætti og læsast í mjöðminni. Þrátt fyrir allan heimsins spenning og þakklæti fyrir þennan mola sem að vex (ansi mikið) þarna innímanni, þá er þetta vægast sagt þreytandi og bugandi ástand. Þaðerbaraþannig.

    (Ef þig langar að panta þér eitthvað héðan, veistu að ég get alltaf skellt í póst fyrir þig: http://www.hm.com/dk/subdepartment/LADIES?Nr=4294928817 Annars er ég sjálf svo nísk að ég djöggla á milli svona þriggja bola og bíð svo bara eftir að komast í venjulegar stærðir á ný. Og kemst ekki í neina skó nema Nike-Free skóna mína. Töff.)

    ReplyDelete
    Replies
    1. oooohhh. nike free!
      kannski skoða ég póstsendingu frá árósum. það er aldrei að vita! en ég segi eins og þú - get ekki beðið eftir því að komast bara í gamla gellusjálfið. sjitturinn.

      þú hefur náttúrlega verið hrottalega óheppin þessa meðgöngu og ég dauðvorkenni þér. nú fer að sjá fyrir endann á þessu og mikið sem ég hlakka til. ég hlakka líka til að þefa af þínum mola og bíta í tærnar á honum og kynna hann fyrir valkyrju litlu! :**

      Delete
    2. Hah, ég ætlaði náttúrulega ekki að fara í einhvern „hver-á-verstu-meðgönguna-meting“! Kemur svolítið þannig út. En sji hvað það styttist, það er rétt... Ég hlakka nú svolítið til að sjá molabola minn og valkyrjuna saman :)

      Delete
  4. jahérna systa mín! ekki gott að sjá að þér líði svona (ég ætla nú samt að gefa mér að þér líði ekki alltaf nákvæmlega svona). en auðvitað tekur þetta á, þú ert jú að hefa eitt stykki barn innan í þér!!!

    mér sem finnst ég aldrei flottari en þegar ég er kasólétt...þó ég sé með bauga niður á hné, viðbjóðslega þreytt, með svolítinn bjúg og það allt saman.-mjög töff.

    gott að þú gerir þér grein fyrir því að þú átt eftir að verða miklu, miklu og miklu þreyttari því það er akkúrat þannig. njóttu þess líka að "hoppa" í sturtu þegar þig langar (eða allavega þegar þú þarft) því það er eitthvað sem verður ekkert of sjálfsagt þegar litla rófan kemur í heiminn. mér fannst nefnilega svolítið erfitt að sætta mig við að þurfa bara að anga eins og úldinn þorskhaus þangað til aron kom heim á daginn.
    en nú ætla ég að hætta að þykjast vera gellan sem "veit og kann þetta allt" því ég er sko alls ekki hún, því miður!

    ReplyDelete
    Replies
    1. nei mér líður sem betur ekki svona alla daga, ég var sérstaklega aum þennan dag. en engu að síður finnst mér þetta alveg ferlega erfitt og það kemur mér svo á óvart. held að það sé aðallega það.

      en þú veist sko alveg helling. búðu þig undir spurningaflóð þegar rófan er mætt! ;)

      Delete
  5. Elsku hjarta.

    En þó þú eigir eftir að verða miklu þreyttari þá verður enginn sem að potar í rifbeinin á þér (allavega ekki innan frá ;) ). Og þú munt geta setið og legið og andað (allavega þegar litlu valkyrjunni þóknast ;) ).
    Það besta við meðgöngur er að þær klárast.
    Þetta styttist!

    ReplyDelete
  6. Elsku fína fína þú. Ég hitti þig bara núna í vikunni og mér fannst þú óbó sæt. Vonandi fer valkyrja litla að fækka kick-box tímunum og tekur upp jóga í staðinn. Svo má alltaf prófa að spyrja í meðgöngueftirlitinu hvort ekki sé tilvalið að fá sér PPI-lyf við bakflæðinu. Vonandi fer þér að líða betur fljótt, mín kæra.

    ReplyDelete
    Replies
    1. ég er einmitt að fara til ljósu á morgun, ætla að ræða við hana ;)

      er í samningaviðræðum eins og stendur, hvort að jóga sé ekki málið. so far, not so good.

      Delete