Gleymið öllu um stund og lesið áfram í algjöru næði.
Þið getið dregið andann léttar.
Í dag eru tímamót (ekki bara #freethenipple).
Þið munið kannski eftir þessum skrifum hér*
Hvað haldiði? Nú, rúmum 6 árum eftir að þessi afdrifaríka prjónaákvörðum var tekin, er verkinu formlega lokið. Peysan er tilbúin til notkunar, þvegin og allt.
Ég get samt ekki tekið allan heiðurinn. Það voru alveg nokkur símtöl sem ég átti bæði við mömmu og ömmu sem reyndu hvað þær gátu að hjálpa mér við að skilja uppskriftina. Það tókst þó sjaldnast, enda eru svona prjónatextar stútfullir af einhverjum orðum sem ekki eru til í íslenskri tungu. Alveg 100% í alvöru.
Ég kastaði peysunni líka í fangið á mömmu í hvert einasta sinn sem hún kom í heimsókn til okkar og bað hana um að bjarga því sem hægt var að bjarga. Sem hún gerði þegjandi og hljóðalaust (fyrir utan öll þau skipti sem hún sagði mér að hætta að prjóna þessa fáranlegu flík).
Peysan er afar ófullkomin í sniðinu, en hún hylur þá líkamsparta sem hún á að ná yfir (svona nokkurn veginn). Það eiga líka að vera 3 tölur (og það eru 3 hnappagöt) en ég átti bara 2, þar sem að 1 er löngu týnd. Ég keypti nefnilega 3 handgerðar trétölur á miðaldarmarkaði í Horsens árið 2009, þegar ég hélt að ég myndi ná að klára peysuna á barnið sem upphaflega átti að eignast hana. Eins og gefur að skilja þá er erfitt að halda utan um 3 agnarsmáar tölur í gegnum 4 flutninga, þar af eina milli landa.
En hér má sjá dásemdina, in action.
Saga Björk klæðist hér peysunni frægu, auk þess að skarta kjól og sokkabuxum sem eru í einkaeign.
Hér má sjá 3 hnappagöt (heitir þetta hnappagöt?) og 2 tölur. Og barn á iði.
Æ. Allt getur gerst krakkar mínir. Allt getur gerst.
Boðskapur dagsins er því; Ekki gefast upp! (og fáiði hjálp (og það mikið af henni) ef þörf er á).
ATH!
*Ég vil vekja athygli á lokaorðum mínum í gömlu færslunni.
Í dag á konan orðið 4 börn og viti menn, nýjasta eintakið er einmitt stúlka. Það sem hún er hlýðin hún Hróðný mín. Spurning um að senda peysuna bara til ykkar?
(Svo vil ég einnig undirstrika að strákar geta að sjálfsögðu gengið í bleikum og fjólubláum peysum, þetta var meira í gríni skrifað en alvöru).